09.04.1943
Efri deild: 93. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1338 í B-deild Alþingistíðinda. (2421)

148. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

Frsm. meiri hl. (Ingvar Pálmason):

Ég tel ekki rétt, að ekki liggi fyrir óskir frá viðkomendum um þessa lagabreytingu. Þær eru frá þeim aðilum, sem ég álít, að ekki skipti minnstu máli um. Geri ég frekar ráð fyrir því, að talin verði þörf á meiri lagabreytingu en farið er fram á. Hv. þm. Barð. þykir frv. þetta varhugavert á ýmsan hátt. Gæti það verið að því leyti, sem það snýr að verksmiðjunum, þannig að í Presthólahreppi kæmu upp stór atvinnufyrirtæki, svo að útsvör í hreppnum hækkuðu mikið eftir skiptin. Á þessu tel ég ekki mikla hættu. Raufarhöfn er eina höfnin á þessum slóðum. Það á langt í land, að höfn, sem sjávarútvegur getur byggzt á, komi á Kópaskeri. En það er ekki hægt að taka fyrir þennan möguleika, sem þm. drap á. En „koma dagar og koma ráð.“ Þá fullyrðingu hv. þm. Barð., að málið sé sótt af kappi fremur en forsjá, kannast ég ekki við, að sé rétt.

Þar eð ekki þótti tími vera til að senda málið til umsagnar nú á síðustu dögum þingsins, Þá verður n. nú að taka afstöðu án þess. En ég held, að þetta sé ekkert kappsmál, hvorki meiri né minni hl. að því er framgang þess snertir. Ekki varð ég var við, að hv. 9. landsk. sýndi málinu neina andúð. En hann sagðist vilja athuga afstöðu sína, eftir að hann varð var við, að tveir nm. voru ósammála, og tel ég ekki ástæðu til að ætla, að honum hafi snúizt hugur, síðan umræður fóru fram í nefndinni.