24.03.1943
Neðri deild: 82. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1340 í B-deild Alþingistíðinda. (2435)

155. mál, ríkisborgararéttur

Gísli Sveinsson:

Herra forseti. — Þegar frv. þetta kom fram, taldi ég það ekki firnum sæta, þó að kona sú, sem um var að ræða, fengi ísl. borgararétt, því að hún var ekki mikið yfir eitt ár í burtu. Hún giftist að vísu dönskum manni, og er óréttmætt, að hún gjaldi þess. En þó að ég væri samþykkur þessu, leiddi ekki af því, að ég vildi, að fleiri yrðu teknir með, og í sömu átt hnigu bréf dómsmrn., sem sögðu, að frá sjónarmiði ráðuneytisins væri varhugavert að taka inn í l., að forspurðum eða gegn mótmælum annars ríkis, borgara, jafnvel þótt þeir að forminu til uppfylltu skilyrði l.

Hv. frsm. sagði, að það væri siður allshn. að taka inn menn, sem fyrir n. hefðu legið skilríki um, að uppfylltu skilyrði l., án þess að skeyta um, hvað dómsmrn. segði. Reglan er þó sú, að senda á umsóknirnar til ráðuneytisins. Áður var tekið mjög lauslega á þessum málum, því að það er fyrst á hinum síðari árum, að Alþ. hefur fylgt hinum ýtrustu reglum. Það kom oft fyrir, að framandi menn urðu borgarar hér, sem höfðu ekki einu sinni uppfyllt skilyrðið um búsetutíma, enda geta ekki brotalaust að leysa þá frá ríkisborgararétti í þeirra eigin landi, og sumir urðu aldrei leystir frá honum, og er mildi, að þeir skuli ekki hafa verið sendir úr landi til að þjóna sínu ríki. Nú á síðustu árum hafa margir útlendingar leitað eftir borgararétti. Fæstir vilja ganga í þann hildarleik, sem nú er háður; og enn hefur meira gerzt: erlend ríki hafa vegna þessa lauslega ástands, sem hér hefur ríkt í þessum málum, einmitt nú, þegar menn reyna að koma sér undan skyldum við heimalandið, mótmælt þessu, í fyrra að gefnu tilefni. Þau mótmæli komu frá sendiráði Norðmanna. Það er að vísu rétt, að ekki er hægt að ná til Noregs nú, en hins vegar er hegningarvottorð ófrávíkjanlegt skilyrði, og formið skal uppfyllast, nema ákvæðin séu brotin. Ég hef ekki treyst mér til að koma fram með svipuð tilmæli, þó að ég hafi verið beðinn að flytja þau. En ef á síðustu stundu á að brjóta þær reglur, sem fylgt hefur verið, áskil ég mér rétt til að bera upp enn einn mann, sem uppfyllir öll skilyrði l., en vegna hernaðarástandsins hef ég kynokað mér við að mæla með honum. En ef menn fá ekki lausn frá borgararétti í sínu heimalandi, er það, sem Alþ. hefur samþ., ómerkt orðið.