24.03.1943
Neðri deild: 82. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1341 í B-deild Alþingistíðinda. (2436)

155. mál, ríkisborgararéttur

Jakob Möller:

Ég vil gefa nánari upplýsingar um þá tvo menn, sem allshn. leggur til, að bætt verði í frv. Það stendur svipað á um þá og hina ágætu alíslenzku konu, sem um er að ræða. Þeir eru hreinir Íslendingar, fæddir hér af ísl. móður, en fluttust í nokkur ár til Noregs. Nú eru 17 ár síðan þeir komu hingað aftur, og vantar aðeins tvö ár upp á, að þeir öðlist borgararétt af sjálfu sér. Þeir vissu ekki annað en að þeir væru ísl. borgarar. Annar þeirra dvaldi erlendis við nám sem Íslendingur, með styrk af opinleru ísl. fé. Nú ætlar hann til Svíþjóðar til frekara náms, en í Khöfn fær hann ekki ísl. vegabréf, því að ekki var með öllu víst, að hann væri ísl. borgari. Hann hefur verið á kjörskrá hér, að vísu ranglega, af því að hann var skoðaður ísl. borgari. Ég held, að um þá, sem mótmæli komu um frá erlendum ríkjum, sé öðruvísi ástatt yfirleitt. Hv. frsm. hefur upplýst, að ef ætti að fara að setja að skilyrði, að menn fái samþykki síns heimalands til að sækja um borgararétt annars staðar, sé breytt út af reglu, sem gilt hafi, enda er það tekið fram í l., ef þetta samþykki fáist ekki eftir á, falli veiting borgararéttarins niður af sjálfu sér.