24.03.1943
Neðri deild: 82. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1342 í B-deild Alþingistíðinda. (2438)

155. mál, ríkisborgararéttur

frsm. (Garðar Þorsteinsson):

Það er rétt hjá hv. 10. landsk. þm., að það hefur ver ið aðalreglan að senda umsóknirnar til dómsmrn., en þó hefur það komið fyrir á hverju þ., að allshn. hafa borizt plögg með umsóknum, og það hefur m.a.s. verið svo, að dómsmrn. hefur alls ekki rannsakað yfirleitt, hvort umsækjendur hafa uppfyllt öll skilyrði. Þeir, sem hafa fengið ísl. borgararétt, hafa ekki fært sönnur á, að þeir séu leystir undan borgararétti í landi sínu, og það er ekki Alþ. að gæta þess, heldur ríkisstj.

Ég tel að það sé í fullu ósamræmi við allar reglur og l. sjálf að krefjast þess, að viðkomandi menn sanni nú fyrir fram, að þeir geti orðið leystir frá fyrra ríkisfangi. En það er satt, að betra er að rannsaka hjá utanríkisrn., hvort fært er vegna stríðsástandsins að taka þessa menn inn.

Það er rétt, að það hefur verið ófrávíkjanleg regla að krefjast hegningarvottorðs, en þeir tveir menn, sem um er að ræða, hafa ekki verið í Noregi nema á barnsaldri, frá 1920–1925. Annar er fæddur 1911, en hinn 1915. Það er annað mál um þann þriðja, sem kemur hingað tvítugur. Af honum er ekki hægt að heimta hegningarvottorð. Ákvæði l. í þessu efni er aðeins leiðbeinandi, svo að það er alls ekki hægt að segja, að verið sé að ganga fram hjá l., þó að ekki sé verið að krefjast hegningarvottorðs. Hv. Alþ. hefur þetta auðvitað á sínu valdi, og þessi maður, sem um er að ræða, hann er hér í opinberri þjónustu. Vil ég leggja til, að umr. um þetta mál verði frestað, og hef ég hugsað mér, að allshn. ræddi málið á meðan og leitaði álits hjá utanrmn.