11.12.1942
Neðri deild: 14. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 3 í C-deild Alþingistíðinda. (2442)

40. mál, útsvar

Pétur Ottesen:

Það leiðir af sjálfu sér, ef frv. fer til n., að það verði þá allshn., því að slíkum málum hefur jafnan verið vísað til hennar hér á þingi. Ég get tekið í sama streng og hv. flm. að því er snertir lýsingu hans á því, hvernig ástatt var orðið um álagningu útsvara, áður en löggjöfinni um það var breitt. Það ástand var með öllu óviðunandi, því að þegar búið var að leggja á atvinnurekstur manna, sem höfðu leitað út fyrir heimilissveit sína til atvinnurekstrar, var ekkert eftir handa heimilissveitinni. En síðan útsvarslöggjöfinni var breytt, hefur verið tiltölulega hljótt um hana, og hafa ekki borizt óánægjuraddir nema frá einum stað, Siglufirði. Ég minnist þess ekki að hafa heyrt annað fundið að nýju útsvarslöggjöfinni en það, að hún kæmi illa við Siglufjörð, og sýnir það raunar, hve vel hefur tekizt að leysa málið. Sú lausn felst í því, að það er tekið upp sem megin regla, að heimilissveitin skuli leggja á útsvörin, og aðeins, ef menn hafa alveg fastan atvinnurekstur annars staðar, má leggja á þar líka. Þetta fyrirkomulag hefur reynzt svo vel, að menn hafa yfirleitt sætt sig vel við það. Því er það, að þegar borin er fram till., sem miðar að því að breyta þessu ákvæði, þá er verið að skerða þann þátt l., sem varð til þess að leysa úr þessum vanda. Á sumum þingum hefur verið svo langt gengið, að bornar hafa verið fram brtt., sem mundu hafa kippt grundvellinum alveg undan þessu mikilsverða ákvæði, ef þær hefðu náð fram að ganga. Hér er ekki svo langt gengið, en eigi að síður er með þessu frv. verið að höggva skarð í grundvöll þessarar löggjafar. Mér skilst af því, sem hv. flm. frv. hefur sagt hér, að þetta mundi aðallega snerta síldarsöltunina á Siglufirði. Þó skildist mér hann gera ráð fyrir, að það gæti líka haft áhrif á stöðum eins og Vestmannaeyjum, þar sem ekki er þó rekin nein síldarsöltun, þannig að menn gætu einnig orðið útsvarsskyldir þar. Hv. flm. talaði um, að erfitt væri fyrir sveitarfélög þeirra manna, er rækju t.d. síldarsöltun á Siglufirði, að áætla tekjur þeirra, þau renndu yfirleitt blint í sjóinn í því efni. Þetta yrði til þess, að heimasveitin fengi yfirleitt minna í sinn hlut en rétt væri, um leið og það sveitarfélag, þar sem atvinnureksturinn fer fram, væri sviptur sínum hluta. Þetta er ekki sannfærandi röksemd, því að vitanlega á heimasveitin aðgang að tekjuframtali mannsins, sem er yfirleitt allgóður leiðarvísir, jafnvel þar sem persónulegur kunnugleiki nær ekki til, enda er þetta til gangurinn með framtalinu. Sums staðar er svo komið, að álagning útsvars er reiknuð út eftir framtalinu, og hefur alltaf verið að því stefnt að tryggja það, að menn kæmust ekki hjá því að telja rétt fram. Miklu minna væri öryggi þeirrar sveitarstjórnar, sem ekki hefði annað á að byggja en vitneskju sína um atvinnurekstur mannsins, því að það væri ónógur grundvöllur til að byggja á útsvarsálagninguna. Ég held því, að hér sé ekki breytt um til aukins öryggis, heldur sé hér verið að hagga að allverulegu leyti þeim grundvelli, sem álagning útsvara hvílir nú á. Í þeim tilfellum, er síldarsöltun væri aðaltekjulind manns, leiðir af sjálfu sér, að ekkert væri eftir handa heimilissveitinni, ef atvinnusveitin ætti að hafa rétt til að leggja á allar tekjurnar, en með því væri vitanlega þverbrotin meginregla núgildandi löggjafar.

Svo er annað atriði. Hv. flm. sagði, að eftir hans skoðun kæmi ekki til mála að leggja útsvar á afla, sem lagður væri á land af línuveiðabátum utan heimasveitarinnar. Línuveiðalátur er nú mjög teygjanlegt hugtak. Það tók t.d. lengi vel ekki til mótorbáta, heldur merkti þau skip ein, sem höfðu gufuvél, en síðan mun það hafa breytzt nokkuð. Og þó að það tæki nú bæði til línuveiðiskipa, gufuskipa og mótorbáta, væri það engan veginn tæmandi, því að þá væru samt útilokaðir mótorbátar, er stunda veiðar með dragnót eða botnvörpu, sem nú er orðið algengt. En þetta stendur vitanlega til bóta, og ef það er ætlun hv. flm. að þetta skuli eiga við öll fiskveiðiskip, er auðvitað hægt að ná því með viðeigandi orðabreytingu.

Hitt er allt annað atriði, sem hv. flm. minnist á í síðari hluta grg. sinnar, að menn með jafnháar tekjur komist misjafnlega frá útsvarsgreiðslum, eftir því hvar í sveitarfélagi þeir eru búsettir. Þetta er rétt, útsvarsgreiðslurnar fara nokkuð eftir útgjaldaþörf hvers sveitarfélags, sveitarþyngslum o.s.frv. En nú hafa verið gerðar ráðstafanir til að jafna þennan mun, að því er snertir framfærslu þurfamanna. Það er gert með jöfnunarsjóðum, sem er skipt upp milli hreppsfélaganna. En það liggur raunar fyrir utan efni þessa frv., eins og hv. flm. getur um í grg.

Ég mun svo ekki fjölyrða um þetta, en vara menn aðeins við að hverfa af þeirri braut, sem ákveðin hefur verið með núgildandi útsvarslöggjöf. Og ég held, að því er snertir Siglufjörð og önnur byggðarlög, þar sem utanhéraðsmenn reka atvinnu, að með núgildandi fyrirkomulagi sé sæmilega séð fyrir því, að þau fái réttmætan hluta af útsvarsupphæðinni.

Að lokum vil ég benda hv. flm. á, að af samþ. þessarar breytingar hlyti að leiða aðrar breytingar, því að þar stendur, að samt megi skipta útsvörum samkv. ákvæðum 9. gr. En þetta er atriði, sem mundi verða athugað í nefndinni.