11.12.1942
Neðri deild: 14. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 6 í C-deild Alþingistíðinda. (2444)

40. mál, útsvar

Pétur Ottesen:

Ég vil bæta við aðeins örfáum orðum til að láta það koma fram, að mér finnst hv. flm. þessa frv. gera of litið úr þeim ráðstöfunum, sem gerðar hafa verið til að tryggja, að skattaframtöl manna séu rétt. Hv. flm. gerir ráð fyrir því, að niðurjöfnunarnefndir í heimilissveit atvinnurekenda séu tómlátar og hafi ekki góða aðstöðu til að afla kunnugleika á tekjum og eignum framteljanda. Ég hygg, að það sé ástæðulaust að óttast tómlæti í þessu efni. En ef svo væri, þá er það bót í máli, að skattaframtal verður að ganga í gegnum tvo hreinsunarelda, ég á við yfirskattan. og ríkisskattan. Það, sem niðurjöfnunarn. hefur yfirsézt um, eiga hinar tvær að laga. Ég þekki illa hreppsnefndir, ef hugur þeirra er ekki að nota út í yztu æsar þær skattaheimildir, sem þær hafa yfir að ráða. Þess vegna held ég, að það sé af misskilningi sprottið, þar sem hv. flm. heldur því fram, að mikið fé tapist með þessu móti. Þó að niðurjöfnunarn. yfirsjáist, þá er yfirskattan., og ef hún gerir ekki það, sem unnt er, til að afla réttrar niðurstöðu fyrir því, hvað hægt er að hafa til undirstöðu útsvarsálagningar, þá er það alveg undantekning, og eins ef ekki er gengið alveg á fremsta hlunn með að nota slíkar álagningarheimildir. Ég ætla svo ekki að fara nánar út í þetta, en bæta því víð, að ef raskað er gildandi grundvelli útsvarsl., þótt ekki væri nema með t.d. þessari till, ef gengið er inn á þá braut að gefa stjórnarvöldunum, þar sem iðnreksturinn fer fram, rétt til útsvarsálagningar án tillits til heimasveitar, þá mundi leiða af því, að jafnréttlátt væri að leggja á báta, sem legðu á land, og væri ekki hægt af hálfu Alþ. að færa nokkur rök fyrir því að láta þá ekki lúta sömu lögum og aðra. Og ef þær reglur eru brotnar, sem nú gilda, þá held ég, að skammt verði þar til við stöndum augliti til auglitis við það ástand, sem ríkti áður en útsvarslöggjöfin var færð í það horf, sem hún nú er í.