08.01.1943
Neðri deild: 28. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 7 í C-deild Alþingistíðinda. (2448)

40. mál, útsvar

Frsm. (Áki Jakobsson):

Herra forseti. Þær stórfelldu orðabreytingar, sem n. leggur til á þskj. 136, eru ekki efnisbreytingar að sama skapi. Í stað þess að ákveðið sé, að atvinnurekstur sé útsvarsskyldur þar, sem hann fer fram, vildi n. heldur taka það nákvæmlega fram, sem við var átt, að útsvar megi leggja á alla, sem salta síld eða reka síldarverksmiðju eða síldarverzlun á staðnum á þeim stað, þar sem þessi atvinnurekstur fer fram. Það er alveg rétt hjá n., að hið almenna orðalag kynni að mega teygja á varhugaverðan hátt, lengra en til var ætlazt. Gangi nú frv. fram í þeirri mynd, sem n. ætlast til, er það mikilsvert, ekki aðeins fyrir Siglufjörð, heldur alla kaupstaði og kauptún á Norðurlandi. Þó að nú sé lítil síldarsöltun, er ekki vafi að eftir stríð, þegar markaðir opnast, verður síldarsöltun enn sem fyrr aðalatvinnuvegur á þessum stöðum að sumrinu.

N. stóð saman um að leyfa ekki útsvarsálagningu á fleiri en einum stað á landinu fram yfir, það, sem þegar er leyfilegt með útsvarsl., nema í þessu einstaka tilfelli. Þar sem það var eingöngu þetta, er ég hafði í huga með frv. þessu, þá gat ég gengið inn á þessa breytingu. En þrír nm. hafa skrifað undir nál. með fyrirvara, og munu þeir þá eflaust gera nánari grein fyrir afstöðu sinni.

Í núgildandi útsvarslöggjöf er heimilt að leggja á heimilisfasta atvinnustofnun, þó að atvinnurekandi eigi ekki lögheimili í sömu sveit og hann rekur atvinnugrein sína. Er það áreiðanlega meira af athugunarleysi en viljaleysi, að síldariðnaðurinn skuli ekki hafa verið látinn falla undir þennan lið. Mun það nokkru vera um að kenna, hversu síldarútvegurinn er vanur að standa yfir stuttan tíma í einu, og einnlitt það mun vera þess valdandi, að atvinnurekendurnir eiga ekki lögheimili sitt þar, sem þeir stunda þessa atvinnugrein. Ef hins vegar þessi atvinnugrein hefði staðið allt árið, hefði hún þegar í upphafi heyrt undir a-lið a. gr. núgildandi útsvarsl. Aðrar breyt., sem n. hefur lagt til, að gerðar væru, eru til lagfæringar í samræmi við þá breyt. á l., sem fyrirhuguð er, nema þar sem getið er um, að heimilissveit skuli aldrei fá minna en 1/4 hluta af samanlögðu útsvari gjaldþegns, ef lagt er á hann utan heimilissveitar. Hv. þm. Borgf. benti n. á, að sjálfsagt væri að hafa slíkt ákvæði í l., og hefur hún fallizt á að leggja til, að þessi breyt. nái fram að ganga. Og ef svo kæmi til, að útsvar gjaldþegns í heimilissveit næði ekki 1/4 hluta af samanlögðu útsvari hans, þá ætti viðkomandi hreppsfélag að greiða það, sem á vantaði, til heimilissveitarinnar, svo að hún fengi 1/4 hluta af samanlögðu útsvari gjaldþegnsins.

Að öðru leyti hefur mál þetta þegar verið skýrt og liggur opið fyrir. Ég get að öðru leyti vísað til þess, er ég sagði við 1. umr málsins.