19.12.1942
Efri deild: 21. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 93 í B-deild Alþingistíðinda. (245)

85. mál, dómnefnd í verðlagsmálum

Bjarni Benediktsson:

Ég vildi staðfesta það, sem hæstv. fjmrh. sagði, að mál þetta hefur þegar komið til athugunar allshn. þessarar deildar, er hún tók þátt í meðferð þess með allshn. Nd., svo að ekki er ástæða til að setja það hér í n. milli umræðna. Þótt mér væri ekki beint falin framsaga, held ég mér sé óhætt að lýsa yfir því, að n. var sammála um, að frv. eigi að ná óbreytt fram að ganga í Ed.

Ég hygg, að ekki sé um það deilt, enda engin furða, að nokkur fljótasmið sé á þessu frv. Ég vil benda á, að komið hefur fram mjög mismunandi skilningur á tveim veigamiklum atriðum þess. Mér finnst nauðsynlegt, að það liggi fyrir, hvernig ríkisstj. skilur atriðin, áður en málið er afgr. úr þinginu. Fyrsta atriðið var að vísu upplýst í meðferð n. og hefur e.t.v. komið fram í umr. í Nd. Í 1. málslið 2. málsgr. 1. gr. er ríkisstj. heimilað að banna að selja nokkra vöru við hærra verði en lægst var á hverjum stað daginn í gær. Í n. var upplýst, að þetta ákvæði bæri að skilja þannig, að ríkisstj. sé því aðeins heimilt að beita ákvæðinu, að hún taki allar vörur undir það, en ekki aðeins einstaka vöruflokka. Hitt er það, að mér finnst nauðsyn á að vita, hvað felst í orðunum, „að ekki megi — selja nokkra vöru — — við hærra verði en lægst var á henni á hverjum stað“. Hv. 3. landsk. taldi mega hafa á þessu tvenns konar skilning. Hér er um mjög veigamikið atriði að ræða, og er miður farið, að hæstv. fjmrh. skyldi einungis staðfesta, að tvenns konar skilningur væri fyrir hendi án þess að segja, hvorn hæstv. ríkisstj. aðhyltist. Það er nauðsyn, að þm. viti, hvað þeir eru að samþ., og almenningur, hvað í orðum 1. felst, þótt ónákvæm séu, og er þess því að vænta, að ótvíræð yfirlýsing fáist um, hvað fyrir hæstv. ríkisstj. vaki með ákvæðinu.

Eins og frv. liggur fyrir, þá er það harla þýðingarlítið, því að ekki gagnar þótt við lögfestum verðlag, sem Íslendingum er óviðráðanlegt á heimsmarkaði. Hins vegar er frv. ekki látið ná til að festa hluti, sem við ráðum yfir sjálfir, vinnulaun og landbúnaðarafurðir. Ég tel þó, að ríkisstj. hafi rétt fyrir sér um, að lögfesting á þessum atriðum gagni ekki án rækilegs undirbúnings. Tilraunir í þá átt nú gætu spillt fyrir frjálsu samkomulagi. Ég hygg enga lausn á því máli fáanlega nema með frjálsu samkomulagi.

Hins vegar verð ég að segja eins og fólst í því, sem ég sagði um það ákvæði frv., sem fer í þá átt, að lögfest sé það, sem okkur Íslendingum er óviðkomandi, að slíkt er auðvitað óframkvæmanlegt og getur þess vegna ekki haft þýðingu til lengdar. En ég mun engu að síður greiða frv. mitt atkv., vegna þess að ég tel, að það felist í frv. og yfirlýsingum hæstv. stj. um það, að hún ætli sér ekki að greiða fé úr ríkissjóði til að standa undir útgjöldum af þessum sökum, og ég tel, að í þessu felist, að hæstv. stj. hafi kynnt sér, að eins og sakir standa sé nóg til a.m.k. af öllum nauðsynjum í landinu við sama verði og þær eru seldar nú, þannig að þetta ákvæði verði framkvæmanlegt. Ef þetta er ekki svo, er ákvæðið út í bláinn sett, en ég treysti því, að hæstv. stj. hafi vitað þetta. Hitt verð ég að segja, að ef þetta er svona, sem ég hygg, að hljóti að vera, þá er þetta ákvæði að vissu leyti óþarft, vegna þess að þá væri hægt með dómnefndinni að halda niðri verðinu, án þess að þetta lögboð kæmi til. Þess vegna er ég ekki fjarri því, að ef eingöngu er litið á þetta málefni eins og þetta frv. liggur hér fyrir, þá hefði allt eins mátt bíða að flytja þetta frv. vegna þess, að í því er ekki svo mikil nýjung. En ég tel, að hæstv. stj. verði sjálf að segja til um það, hvort hún vill fá þessa heimild eða ekki. Ég tel sýnilegt, að heimildin hafi ekki mikla raunhæfa þýðingu, heldur sé hún eins konar tákn þess, að nú eigi að hefjast handa í þessu máli og hæstv. ríkisstj. vilji taka þetta út úr, vegna þess að hún hafði verið búin að sannfæra sig um, að hér sé um nóg vörumagn að ræða, sem hægt sé að selja sama verði, og hafi hún því ákveðið að flytja þetta frv., eftir að hún var búin að sannfæra sig um, að það væri efnislega þýðingarlaust, sem tákn þess, að nú verði að stöðva dýrtíðina og reisa með því stöðvunareða hættumerki. Ég skil fyllilega þá hugsun, sem í þessu felst af hálfu hæstv. stj. En ég vil undirstrika það, að ég greiði því atkv. sem slíku aðvörunarmerki, en ekki sem raunhæfum ráðstöfunum, því að ef þetta ætti að vera raunhæf ráðstöfun, er hún óframkvæmanleg eins og rækilega hefur verið tekið fram, ekki sízt af hv. 1. þm. Reykv., því að við getum ekki með íslenzkum l. stöðvað verðhækkun á erlendum vörum. En ég legg áherzlu á, gagnstætt því, sem hv. 1. þm. Reykv. sagði, að ég lít ekki á þetta sem hluta af væntanlegri dýrtíðarlöggjöf, því að þessi ákvæði geta ekki haft áhrif á verð erlendrar vöru, þar sem hæstv. stj. lýsir yfir, að þetta megi ekkert kosta ríkissjóð.

Ég hef eingöngu í þessum fáu orðum mínum haldið mér að þessu frv., sem hér liggur fyrir. Ég tel æskilegt, að með þessu gætu orðið kapítulaskipti í meðferð dýrtíðarmálanna í þetta sinn, gamlar væringar milli flokkanna væru látnar hverfa og látnar bíða, þangað til menn kæmu á þingmálafundi eða fram fyrir kjósendur á annan hátt, en í þess stað væri nú reynt að finna lausn á þessu vandamáli. Ég tel, að með þessu sé hæstv. stj. ekki að leysa vandann, heldur að skapa þann grundvöll, sem hún telur nauðsynlegan til, að vandamálin verði leyst, og ég tel sjálfsagt af þinginu að veita henni þann grundvöll eins og yfirleitt að styðja hana í öllum þeim góðum málum, sem hún kann fram að flytja.