11.01.1943
Neðri deild: 29. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 13 í C-deild Alþingistíðinda. (2456)

40. mál, útsvar

Frsm. (Áki Jakobsson):

Herra forseti. — Það hafa komið hér fram ýmsar aths. við þetta mál, og að því leyti sem þeim hefur ekki verið svarað hér af hv. þm. Snæf., ætla ég að segja nokkur orð. Ég mun láta vera samt sem áður að svara sumum þeim aths., sem fram hafa komið í þessu máli, vegna þess að þeim hefur þegar verið svarað.

Aðalatriðið í því, sem komið hefur fram hjá þeim hv. þm., sem hafa talað á móti því, sem þessi brtt. fer fram á viðkomandi skiptingu útsvara samkv. ákvæðum útsvarsl., 9. gr., er, að þeir telja Siglufjörð hafa þennan umrædda rétt til skiptingar samkv. núgildandi útsvar sl. Má telja, að Siglufjörður hafi þennan rétt, en aðeins að formi til. En niðurjöfnunarnefnd Siglufjarðar hefur ekki þennan rétt til að leggja á þann atvinnurekstur utanhéraðsmanna, sem hér er um að ræða, og hafa því atvinnurekendur verið aðstoðaðir til að leyna tekjum sínum. Þeir búa í fjarlægum héruðum, og er því erfitt fyrir menn að fylgjast með því, hvort framtal þeirra muni vera rétt eða hvaða skekkjur eru í þeim. Afleiðingin hefur orðið sú, að þessir atvinnurekendur hafa bókstaflega fengið skattanefndir í heimilissveit til að trúa hverju sem er. Saltandi hafði t.d. eitt ár 2000 kr. útsvar í heimilissveit, en á sama tíma fékk annar saltandi, sem var búsettur á Siglufirði og saltaði helmingi minna, 9000 kr. útsvar. Viðkomandi hreppsn. hélt því fram, að það, sem maðurinn taldi fram, væri rétt, og hún hafði ekki fengið nein plögg því viðkomandi. Höfðu þeir sett sig í varnarstöðu fyrir þennan mann. Viðkomandi hreppsn. tók upplýsingar þessa manns gildar. Með því að hreppsn. taki skýrslur slíkra manna gildar, hjálpa þær þeim til þess að draga undan framtali, vegna þess að þeir menn komast ekki að, sem gætu gefið réttar upplýsingar.

Það hefur stundum komið fyrir, þegar ríkisskattanefnd hefur haft aðstöðu til að rannsaka framtöl, að hún hefur komið að leiðréttingum. En það er ekki heldur nema stundum. En vegna þess að ríkisskattanefnd kemst ekki yfir framtöl allra atvinnurekenda. þá yrði það ekki fyrr en svo seint, sem hægt væri að skipta útsvörum eftir því, að rétturinn væri í mörgum tilfellum glataður.

Þeir, sem stunda síldaratvinnurekstur utan heimilissveitar sinnar, hafa getað haft í hótunum vegna núgildandi útsvarsl.: „Við flytjum okkur burt, ef á að leggja á okkur hærra útsvar“ en þetta og þetta, sem þeir tilgreina. Það er óeðlilegt, en samt staðreynd, að slík togstreita eigi sér stað milli bæjarfélaga og hreppsfélaga. Vil ég þó ekki ásaka þær hreppsnefndir, sem í neyð sinni hafa gripið til slíkra ráðstafana. En þetta hefur komið afar illa niður á Siglufirði og öðrum síldarverstöðvum norðanlands.

Það er ekki nægileg ástæða til að vera á móti málinu, að Siglufjörður hefur aðeins að formi til rétt til að leggja útsvör á atvinnurekendur á Siglufirði, sem eiga heima annars staðar.

Það er rétt, að hér er veitt ný undanþága frá grundvallarreglum útsvarsl. En ég tel ekki rétt, að með þessu sé horfið af grundvelli laganna. Hér yrði tekinn einn þáttur atvinnuveganna og heimild gefin til að leggja á þann atvinnurekstur, þar sem hann fer fram, sem er mjög eðlilegt og nauðsynlegt vegna eðli atvinnuvegarins.

Því hefur verið haldið fram, að ef þetta yrði samþ., mundi koma kröfur um það, að eins yrði farið að gagnvart öðrum atvinnuvegum. Ég held, að ekki sé hætta á þessu, vegna þess að síldarútgerðin stendur ekki yfir nema frá 3–4 vikum upp í 3–4 mánuði, og er hún þess vegna að því leyti sérstakt undantekningartilfelli. Það stendur allt öðruvísi á um aðra atvinnuvegi landsins.

Yfirleitt stunda atvinnurekendur atvinnurekstur sinn í heimilissveitinni. Hitt er undantekning og sennilega mjög fágætt, að stunda fiskiðnað utan heimilissveitar, því að þótt útgerðarmenn geri skip sin út á fiskveiðar utan heimilissveitar, þá flytja þeir venjulega heim aflann, eins litið verkaðan og frekast er unnt. Öðru máli gegnir um síldariðnaðinn. En ef eins mikil brögð yrðu að því, að menn rækju atvinnurekstur utan heimilissveitar sinnar, eins og á sér stað um síldaratvinnureksturinn, þá væri sanngjarnt að láta þessi ákvæði einnig ná til þess atvinnurekstrar. Það yrði þá helzt einhvers konar fiskverkun, en varla annað.

En í brtt. frá allshn. er búið að þrengja þetta ákvæði, þannig að það nær aðeins til síldaratvinnurekstrar. Það er líka eftir till. allshn. útilokað, að hægt sé að leggja útsvar á báta eða skip, sem veiða fyrir Norðurlandi. Þess vegna fellir n. líka niður undanþágu vegna báta, sem gert var í upphafi ráð fyrir að undanskilja.

Höfuðefni málsins er þetta: Á að gefa þeim, sem reka atvinnu utan heimilissveitar sinnar, aðstöðu til þess að spekúlera í því að fá því framgengt með samningum við viðkomandi skattan. og niðurjöfnunarn. að koma sér undan að greiða útsvar eins og þeim bæri að greiða, ef þeir greiddu það á þeim stöðum, þar sem atvinna þeirra er rekin?. Þetta er mikið mál fyrir þá staði norðanlands, þar sem síldariðnaður fer fram. Ef menn geta sloppið undan þessum byrðum, verður það til þess að þyngja skatta- og útsvarsbyrðarnar á hinum, sem ekki vilja fara út í þessi undanbrögð. Ég vænti því, að menn geti fallizt á þær breyt., sem hér er farið fram á.

Það hefur verið tekið fram í þessum umr., að Siglufjarðarbær hafi ekki gert kröfu um skiptingu útsvaranna, sem hér koma til greina. Það er rétt, að Siglufjarðarbær hefur ekki farið fram á skiptingu útsvaranna af slíkum atvinnurekstri, sem hér er um að ræða. Og hann hefur ekki viljað vera að eltast við fólk, sem kemur til Siglufjarðar í vinnu þar. Það er ákaflega mikið verk og oft mjög lítið upp úr því að hafa, og á tímabili fyrir stríðið var það svo, að þó að skipting á því fengist, þá stóð þetta sem innieign hjá viðkomandi hreppsfélögum kannske árum saman. Þessa innieign var ekki hægt að reikna með sem tekjum, því að allt var í óvissu um, hvenær hún fengist greidd. Þetta hefur breytzt nú, sérstaklaga með breit. um, að taka megi útsvör af atvinnu manna, þannig að Siglufjarðarbær mun hafa betri tekjur af þessu nú. En Siglufjarðarbær sá sér heldur ekki eins vel fært að fara eftir þessu ákvæði, af því að ekki var fyllilega ljóst, hversu langt þessi ákvæði l. ná. Og það voru lögð á tilraunaútsvör eftir þeim, og hefur staðið í málaferlum um þau. Og nú er kominn dómsúrskurður um það, hvernig skilja beri ákvæði laganna um heimilisfasta atvinnustofnun. Meðan mál þessi stóðu yfir, vildi bærinn ekki sinna því að krefjast skiptingar á útsvari. En hvað sem líður rétti til skiptingar, er hitt víst, enda fengin ugglaus reynd fyrir því, að síldaratvinnurekendur, sem hafa átt heima utan þess staðar, sem þeir hafa rekið síldaratvinnuna, hafa að mestu leyti getað skotið sér undan útsvörum. Núverandi ákvæði útsvarslaga gera þetta mjög vel mögulegt fyrir ófyrirleitna menn. Núgildandi ákvæði um skiptingu útsvara geta á engan hátt fyrirbyggt þetta óréttlæti.

Vænti ég, að þessu máli verði sýnd sanngirni og það, sem farið er fram á, samþ.