07.12.1942
Neðri deild: 10. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 27 í C-deild Alþingistíðinda. (2467)

30. mál, einkasala á bifreiðum

Fjmrh. (Jakob Möller):

Ég vil ekki deila við þennan hv. þm. um það, hvað hann skilur og hvað hann skilur ekki. Ég held fast við það, að í ályktun þingsins um úthlutun bifreiða var ekkert sagt um það, hvort einkasölunni skyldi haldið áfram eða ekki, aðeins það, að ef hún héldi áfram, skyldi úthlutunin vera hjá n.

Hv. þm. ruglar saman tveim þáttum þessa máls og því, sem ég sagði um þá. Hann segir, að skýring sú, sem ég færði fyrir því, að ég ákvað að leggja niður bifreiðaeinkasöluna, hafi verið, að það gat ekki orðið samstarf milli mín og n. Þetta er algerlega fjarri sanni. Það var skýringin á því, að ég tók úthlutunina af n., en til þess þurfti ég auðvitað ekki að leggja niður einkasöluna. Ég hafði aðrar leiðir til þess að taka úthlutunina. Skýringin, sem ég gaf, var sú, að samkv. l. um bifreiðaeinkasölu var það á valdi ráðh., hvort hún skyldi rekin eða ekki, og ég vildi ekki reka hana. Ég ákvað að leggja hana niður, alveg eins og þegar ríkisstj. 19a9 tók ákvörðun um að leggja niður raftækjaeinkasöluna.

Svo segir hv. þm. (SÞ), að ég hafi enga skýringu gefið á því, hvers vegna ég hafi ekki tekið til greina yfirlýstan vilja síðasta þings um, að n. úthlutaði bifreiðum. Skýringin var sú, að n. neitaði að taka til greina skuldbindingar, sem bifreiðaeinkasalan hafði gefið. Skilur ekki maður, sem fæst við kaupsýslu, þetta? Hvað mundi hann segja, ef skuldbindingar, sem hann hafði gefið sem kaupfélagsstjóri, væru að engu hafðar af þeim, sem tæki við af honum? Mér finnst þetta nægilega skýrt. Þar sem hann segir, að af skýrslu n. sé að sjá, að nm. fari eftir því, sem þeir héldu, að væri sitt hlutverk, þá hafa þeir skilið það þannig, að eldri skuldbindingar einkasölunnar skyldu virtar að vettugi. Ég hef ekki skilið fyrirmæli þingsins þannig, að það ætlist til þess, að stofnanir þær, sem það lætur reka, skuli ekki standa við skuldbindingar sínar, ef þær geta það.

Hv. þm. talaði um þá mögnuðu óánægju, sem sé með afskipti mín af úthlutun bifreiða. Þessi ummæli eru á nokkuð litlum rökum byggð, þegar þess er gætt, að frá því að ég varð fjmrh., hefur verið úthlutað hundruðum bifreiða, a.m.k. 500 –600, og af þessari tölu hef ég upp á eigin spýtur aðeins ráðið úthlutun á nokkrum tugum. Ég held, að þessu sé algerlega ruglað saman, þannig að stefnt sé gegn mér óánægju, sem er með úthlutun bifreiða yfirleitt. Ég ætla ekki að fara nánar út í það, því að málið hefði orðið óvinsælt, hver sem með það hefði farið.

Ég var reiðubúinn til að beygja mig fyrir yfirlýstum vilja þingsins, ef þeir menn, sem það valdi til þess að framkvæma vilja sinn, hefðu starfað þannig, að ég gæti talið það viðunandi, og þykist ég hafa fært skýr rök fyrir því, að starf þeirra var ekki viðunandi. Ég skora á hv. 1. þm. Skagf. að lýsa því yfir, hvort hann teldi viðunandi, að aðrir tækju af honum ráðin og hann fengi ekki að standa við skuldbindingar, sem hann hefði gefið fyrir hönd þess kaupfélags, sem hann veitir forstöðu, — hvort hann sem kaupsýslumaður teldi það mögulegt.