07.12.1942
Neðri deild: 10. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 28 í C-deild Alþingistíðinda. (2468)

30. mál, einkasala á bifreiðum

Flm. (Sigurður Þórðarson):

Þetta verður ekki langt mál. Þessar umr. eru nudd, en ekki rifrildi. Hæstv. ráðh. telur framkomu sína við n. stafa af því, að n. hafi ekki viljað standa við það, sem hann vildi um úthlutun bifreiða. Ég hef lesið grg. n., og það kemur hvergi í ljós, að áreksturinn hafi verið út af þessu. Nú vil ég ekki fullyrða, að svo hafi ekki verið, en það kemur ekki fram í neinum skjölum. Ég skal láta það kyrrt liggja. Um það, hvaða afstöðu ég hefði tekið, ef fyrirrennari minn hefði lofað einhverju fyrir hönd fyrirtækisins, skal ég geta þess, að ég hefði talið mér skylt að uppfylla loforð hans. Það er almenn og sjálfsögð viðskiptaregla. En út af því, að hæstv. ráðh. þykist vera svo strangur á því, að staðið sé við skuldbindingar, verður manni að spyrja, hvort hann sjálfur hafi alltaf staðið við loforð sín um bifreiðar og úthlutun þeirra. Ég fullyrði ekkert um það, en annað er sagt.

Í skjölum n. er ekkert um ágreining út af úthlutun bifreiða, en þar er greint frá því, að ráðh. hafi í byrjun viljað skipa n. formann, en meiri hl. n. taldi sig mega ráða þeim málum sjálfur, og um þetta er mest barizt, en ekki um úthlutunina sjálfa, hins og hæstv. ráðh. vill vera láta. Ég held, að mikil mistök hafi orðið á úthlutun bifreiða hjá einkasölunni, en sérstaklega hjá hæstv. ráðh., og er forviða á því, að því var ekki tekið með þökkum af hæstv. ráðh., að þingið skipaði n. til þess að taka þetta að sér, og að hann skyldi ekki þakka fyrir að láta þessa menn starfa að úthlutun bifreiðanna. Þessum málum var miklu betur skipað þannig, og held ég, að það hefði verið viðkunnanlegra fyrir hæstv. ráðh. að setja sig ekki upp á móti yfirlýstum vilja þingsins, sem þó verður að lita svo á, að hann hafi gert, því að það er ekkert nema útúrsnúningur að segja, að þingið hafi ekkert gefið upp um það, hvort einkasalan skyldi starfa áfram eða ekki, þegar það skipaði n. Það er vitað, að þingið vildi láta einkasöluna starfa áfram og að það felldi till., sem kom fram um að fella hana niður, svo að það er enginn vafi á vilja þess í því efni.

Bifreiðaeinkasalan hefur ekki sætt gagnrýni fyrir neitt nema helzt úthlutun bifreiða, og sú gagnrýni er ekki sérlega mikil, en sú gagnrýni, sem hæstv. ráðh. hefur sætt fyrir úthlutun bifreiða er mikil, og hans starf á því sviði hefur verið illa séð af landsmönnum.

Ég ætlaði ekki að tala mikið um þetta, en ég hef mikla von um, að bifreiðaeinkasalan verði endurreist og að þingið taki vel því frv., sem sem hér liggur fyrir.