12.01.1943
Neðri deild: 30. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 29 í C-deild Alþingistíðinda. (2473)

30. mál, einkasala á bifreiðum

Frsm. 2. minni hl. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Ég hef lagt fram nál. 138, og felst í því breyt. á 7. gr. frv. Þessi brtt. fer fram á, að þriðji maður í úthlutunarn. sé tilnefndur af bifreiðastjórafélaginu Hreyfli í Rvík, en varamaður hans eftir tilnefningu Þróttar, félags vörubifreiðastjóra hér. Hún er byggð á þeirri skoðun, að ekki hafi verið tekið nægilegt tillit til bílstjóranna og þeirra, sem hafa lífsuppeldi sitt af bifreiðakeyrslu, við úthlutun bifreiða. Er ætlazt til þess, að þriðji varamaður, þ.e. sá, sem útnefndur er af vörubifreiðastjórafélaginu, taki sæti í n., er um úthlutun vörubifreiða er að ræða. Þetta er til þess að tryggja, að hagur vörubifreiðastjóra sé ekki fyrir borð borinn.

Það, að ég legg til, að bifreiðastjórafélögin í Rvík tilnefni þriðja mann og varamann hans í n., stafar af því, að ekki er til neitt landssamband bifreiðastjóra. Auðvitað væri sjálfsagt, ef slíkur félagsskapur væri til, að hann tilnefndi menn í n. Mér datt í hug að setja í nál. ákvæði þess efnis, til þess að hægt væri þá að breyta tilhöguninni um tilnefningu nm., þegar til komi, án þess að breyta þyrfti l.

Ástæðan til þess, að ég geri þessa brtt., er sú, að óánægjan með úthlutun á bifreiðum stafar ekki sízt af því, að n. og menn hafa látið pólitísk áhrif koma til greina í sambandi við úthlutunina. En um bifreiðaeinkasöluna sem heild er ekki annað að segja en sem slík, tel ég, að hún sé heppileg og sjálfsagt að halda henni áfram. Hins vegar er svo, að hægt er að reka og stjórna henni þannig, að hún verði fremur til skaða en framdráttar hugmyndinni um opinberan rekstur. Og það, sem menn verða, um leið og þeir berjast fyrir góðu málefni, að reyna að tryggja, er, að framkvæmdirnar verði ekki þannig, að þær verði því til hnekkis.

Afstaða mín til frv., sem hér um ræðir, fer eftir því, hvernig brtt. minni verður tekið.