12.01.1943
Neðri deild: 30. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 31 í C-deild Alþingistíðinda. (2475)

30. mál, einkasala á bifreiðum

Frsm. 1. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Hv. þm. A.-Húnv., sem hefur orð fyrir 3. minni hl. fjhn., er leggur til, að frv. verði fellt, telur, að einkasala bifreiða hafi gefizt illa. Ekki færði hann þó fram nein ákveðin rök því til stuðnings. Ég hef orðið var við, að menn blanda saman þessu tvennu: rekstri einkasölunnar og úthlutun bifreiða, og þá einkanlega þeirra, sem tekizt hefur að ná inn til landsins síðustu missiri. Það hefur orðið vart almennrar óánægju með þá úthlutun, en sú framkvæmd út af fyrir sig snertir ekki rekstur einkasölunnar, þar sem forstjórinn hefur nú í seinni tíð ráðið mjög litlu um það, hvernig bifreiðunum hefur verið úthlutað. Um það atriði, hvort hafi verið réttmæt ráðstöfun hjá hæstv. fyrrv. ríkisstj. að leggja einkasöluna niður, er það að segja, að á þeim tíma, sem það var gert, þá hefur það verið gegn vilja meiri hl. Alþ., því að þegar meiri hl. Alþ. ákvað að kjósa n. til að úthluta bifreiðunum, þá var til þess ætlazt af þessum meiri hl., að bifreiðaeinkasalan héldi áfram. Ekki færði hv. þm. heldur neitt fram þeirri skoðun sinni til stuðnings, að varan mundi verða ódýrari hjá kaupmönnum en hjá einkasölunni, enda held ég, að honum yrði mjög erfitt að sanna það mál. Það er vitaskuld rétt, að það er hægt að leggja tolla á vöruna, en það er nú þegar gert. Það er tekinn tollur af þeim bifreiðum, sem einkasalan flytur inn, og verður gert. En eins og kemur fram í fylgiskjali grg., hafa ríkissjóður og bæjar- og sýslufélög haft mjög miklar tekjur af einkasölunni, eða rúml. 1 millj. kr. árið 1941. Eitt er það enn, sem hv. frsm. 3. minni hl. fjhn. veik að, en það er sá skortur á bifreiðum, sem verið hefur undanfarið. Það hefur ekki tekizt að fullnægja eftirspurninni, og vantar mikið til. Hitt er vitanlega langt frá réttu máli, að ásaka bifreiðaeinkasöluna fyrir það, þótt ekki hafi tekizt að flytja til landsins allar þær bifreiðar, sem menn vildu fá. Þessi skortur hefði gert vart við sig eins fyrir því, þótt einkasalan hefði aldrei verið sett á stofn. Í sambandi við það vil ég vekja athygli á því, sem segir í grg., — og það hefur enginn dregið í efa —, að nú sé illt að ná í bifreiðar og aðrar þær vörur, sem einkasölunni er ætlað að verzla með, og ekki hægt nema með milligöngu þess opinbera. Og þar sem hæstv. ríkisstj. hefur verið að beita sér fyrir því að fá þessa vöru, virðist það mæla með því, að einkasalan verði endurreist.