12.01.1943
Neðri deild: 30. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 35 í C-deild Alþingistíðinda. (2478)

30. mál, einkasala á bifreiðum

Fjmrh. (Jakob Möller):

Eins og komið hefur fram í ræðu hv. frsm. fjhn., og raunar öllum þm. er kunnugt, var upphaflega til bifreiðaeinkasölunnar stofnað fyrst og fremst með tvennt fyrir augum. Annað var að afla ríkissjóði tekna, eins og það var orðað í grg. Hinn aðaltilgangurinn var að fækka bifreiðategundunum í landinu og stefna að því með einkasölu, að færri tegundir yrðu fluttar til landsins og þar af leiðandi þyrfti að hafa á boðstólum minna af varahlutum, sem til bifreiðanna þyrfti. Það má kannske segja, að það að fækka tegundum bifreiða í landinu horfði til bóta, að því leyti sem það stefndi að því að gera verzlunina ódýrari vegna varahlutanna, og að meiri trygging væri þá fyrir því, að varahlutir fengjust. Hins vegar má segja það með fullum rétti, að ef slík verzlun er rekin einstrengingslega eftir þessari höfuðreglu, getur það leitt til þess, að lakari tegundir haldist í notkun, en betri og nýrri tegundir eigi erfitt uppdráttar. En hins vegar er það um þetta að segja, að einkasölunni hefur ekki tekizt betur í þessum efnum en svo, eftir því sem upplýst er í nál. hv. þm. A.-Húnv. og hv. 2. þm. Rang., að tegundunum hefur ekki fækkað, heldur fjölgað til stórra muna, eða úr 75 árið 1936 í 102 1941 eða um 33%. Það tókst nú ekki betur en svona að ná þessum öðrum höfuðtilgangi einkasölunnar.

Það hefur svo hins vegar ekki komið til, að aðrar bifreiðategundir hafi rutt sér til rúms hér, því að enn þá eru það aðallega sömu tegundirnar, sem hér eru í notkun, eins og var áður en einkasalan var stofnuð.

Svo er hinn höfuðtilgangurinn, tekjuöflun fyrir ríkissjóð. Flm. hafa gefið skýrslu um það, hvort tekjurnar hafi orðið miklar af einkasölunni, frá því að hún var stofnuð. Ég skil ekki annað en þeim, sem beittu sér fyrir því í upphafi að koma þessari einkasölu á, hafi orðið að því nokkur vonbrigði, hvað tekjurnar urðu litlar. Hagnaður af Bifreiðaeinkasölu ríkisins hefur verið sem hér segir:

Til bæjar- u;

Til ríkissjóðs sýslufélaga

Árið 1935 ...... kr. 4369.58 kr. 1872.67

— 1936 ...... kr. 51291.33 – 21982.00

Til bæjar- og

Til ríkissjóðs sýslufélaga

– 1937 ...... — 101392.74 –. 34033.18

– 1938 ...... – 77498.81 –. 18628.13

– 1939 ...... – 117655.33 –. 42440.23

– 1940 ................ kr. 125428.47

– 1941 ................ — 1011227.11

Þó að reksturinn á árinu 1941 hafi gefið svona miklar tekjur, þá er ekkert á því að byggja fyrir framtíðina, að tekjurnar verði nokkuð í hlutfalli við það, vegna þess að þessar miklu tekjur á því ári eru fyrst og fremst afleiðing af ófriðnum.

Það eru tekjurnar á árunum fyrir stríðið, sem verður að leggja til grundvallar fyrir því, hver gróðavon þetta sé fyrir ríkið og bæjar- og sveitarfélög. Við skulum nú taka það ár, sem hæstar gefur tekjurnar árin fyrir stríðið, en það er árið 1937. Það ár fær ríkissj. kr. 101392.74 og bæjar- og sveitarfélög kr. 34033.18. Nú á það bæjarfélag, sem einkasalan hefur aðsetur í, að fá 1/3 af þessu (þ.e. Reykjavík) eða rúm 11 þús. kr. þetta ár (1937). Ég tel, að hv. frsm. 3. minni hl. fjhn. hafi töluvert fyrir sér í því, að bærinn hefði getað fengið þessar tekjur, þó að ekki hefði verið breytt um rekstraraðferð og salan hefði verið áfram í höndum einstaklinga. Það er fullkomlega rétt, sem hann sagði, að verzlun með bifreiðar veldur ákaflega litlu um rekstrarkostnað fyrirtækisins, hvort sem bifreiðasalan sjálf er höfð með eða ekki. Öðru máli er að gegna með varahlutina, en einkasalan hefur aldrei farið þá braut að taka varahlutina með, enda ekki gert ráð fyrir því í upphafi. Ég tel alveg fullvíst, að því fari fjarri, að Reykjavík hafi grætt nokkuð á því, að einkasalan var lögleidd með bifreiðar. Ég er þess fullviss, að bifreiðasalarnir hafa vegna þessa atvinnurekstrar greitt bæjarsjóði útsvar, sem fullkomlega svarar þessum hluta, sem bærinn fær af bifreiðasölu ríkisins. Hvað halda menn nú, að rekstrarkostnaður bifreiðaeinkasölunnar sé mikill? — Fyrirtæki, sem er stofnað til þess að verzla aðeins með þessa vörutegund, þarf að sjálfsögðu að leigja húsnæði og hafa marga starfsmenn í þjónustu sinni. Mér kæmi ekki á óvart, þó að rekstrarkostnaður einkasölunnar hefði numið allt að því, sem svarar helmingi af ágóðanum þetta ár, eða um 50 þús. kr. Ég staðhæfi, að það sé ekki nokkurt vit í því fyrir ríkið að fara að stofna til einkasölufyrirkomulags með vörutegund, þar sem gróðavonin er ekki meiri en svarar tvöföldum rekstrarkostnaði fyrirtækisins. Og 100 þús. kr. sem tekjuauki fyrir ríkissjóð, — hvaða þýðingu hefur það fyrir ríkisbúskapinn, þegar tekjur ríkisins á því ári, sem hér er um að ræða, eru frá 17–20 millj. kr.? Svo á ríkið að fara að „slá sér upp“ og lögleiða einkasölu til þess að hækka tekjur sínar um 100 þús. kr. með því móti að leggja svo og svo mikið í kostnað til að afla þeirra. Áhætta nokkur verður að sjálfsögðu samfara svona rekstri, og því síður getur það verið nokkur búhnykkur fyrir ríkið að leggja út í slíkt fyrirtæki.

Af því að ég geri ráð fyrir, að hv. frsm. 1. minni hl. leggi töluvert upp úr því, hvað önnur sveitarfélög heldur en aðsetursstaður einkasölunnar hafi upp úr krafsinu, þá vil ég aðeins drepa á það. Ef Rvík fær rúm 11 þús. kr., þá er eftir 23 þús., sem eiga að skiptast á milli allra bæjar- og sýslufélaga á landinu. Þetta verður að meðaltali nálægt 1 þús. kr. fyrir hvert bæjar- og sýslufélag. Ég held, að það verði ekki ákaflega mikið harmað af þessum sveitarfélögum, þó að þau væru svipt þessum tekjum. Nú, það er þannig alveg augljóst, ef litið er á þann höfuðtilgang, sem vakti fyrir ríkisstj., þegar einkasalan var stofnuð, þá fer því ákaflega fjarri, að honum hafi verið náð, og raunverulega er miklu fremur sýnt, að það var með það fyrir augum, sem fyrir ríkisstj. vakti, fullkomið óráð að leggja út í einkasölu á bifreiðum.

Ég sé, að lokið er venjulegum fundartíma, og ég á töluvert eftir. Ef forseti vill fresta umr. um málið, vil ég fresta ræðu minni. [Frh.]