19.12.1942
Efri deild: 21. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 97 í B-deild Alþingistíðinda. (248)

85. mál, dómnefnd í verðlagsmálum

Fjmrh. (Björn Ólafsson):

Nokkrir hv. þm. hafa rætt um það, að ríkisstj. hafi sagt, að hún ætli ekki að greiða neitt úr ríkissjóði vegna þessara ráðstafana. Þetta er ekki alveg rétt eftir haft. Ríkisstj. sagðist ekki telja neina nauðsyn mundi til bera að greiða neitt úr ríkissjóði í þessu sambandi, en ef hún teldi síðar brýna nauðsyn á því, mundi hún bera það undir þingið. Ég vildi, að þetta yrði ekki misskilið. Út af fyrirspurn hv. þm. Barð. um það, hvert yrði næsta spor ríkisstj. til þess að lækka svo framleiðslukostnað, að betur borgaði sig en nú að ráðast á fyrirtæki o.s.frv., vil ég taka það eitt fram, að málið er enn óundirbúið. Þetta er 4. dagurinn, sem ríkisstj. er við völd, og hún óskar ekki að svara spurningunni að svo komnu máli.