16.01.1943
Neðri deild: 34. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 37 í C-deild Alþingistíðinda. (2484)

30. mál, einkasala á bifreiðum

Jakob Möller [frh.]:

Ég hætti í miðri ræðu, þegar þetta mál var síðast til umr.

Ég hafði í þeim hluta ræðu minnar, sem búinn var, reynt að leiða rök að því, að þessi einkasala hefði ekki náð þeim tilgangi, sem upphaflega var gert ráð fyrir, að hún næði, sem sé að verða tekjustofn fyrir ríkissjóð, sem nokkuð munaði um, og sömuleiðis að gera þau viðskipti, sem þar um ræðir, hagkvæm landsmönnum.

Samkv. Þeim upplýsingum í grg. frv., sem hér liggja fyrir, þá urðu tekjur ríkissjóðs af þessari einkasölu fyrir stríð mestar kr. 101000.00, og er þá frátekið það, sem samkv. l. á að renna til bæjarfélaga og sýslufélaga, sem er 30% af ágóða einkasölunnar. Ég tel ekki nokkurn vafa á því, að þeir menn, sem börðust fyrir þessu máli upphaflega hér á þingi, hafi gert ráð fyrir miklu verulegri tekjum af þessari verzlun, bæði fyrir ríkissjóð og bæjar- og sýslufélög. Enda liggur í augum uppi, að slíkur rekstur er það dýr, að það er hæpið, að það borgi sig fyrir almenning að hafa einkarekstur á svona vöru, ef tekjurnar geta ekki orðið meiri, og hætt við því, að þá verði stefnt meira að því að selja vörurnar dýrara verði en hentar þeim, sem eiga að nota þær.

Hvað hitt snertir, að reksturinn sé hagkvæmum almenningi, þá er alveg sama máli að gegna. Það var sérstaklega talað um það, að tegundir bifreiða, sem fluttar voru til landsins, væru óhæfilega margar, sérstaklega vegna þess, að þegar þyrfti að liggja með varahluti fyrir þær allar, væri reksturinn svo dýr. En um þetta má segja, að tekizt hafi jafnvel enn þá miður til. Því fer svo fjarri, að tegundunum hafi fækkað.

Þeim hefur aftur á móti fjölgað allverulega, eða um 33% á þessum árum, sem einkasalan hefur starfað.

Þetta er um liðna tímann, og það mætti náttúrlega halda því fram, að þó að reynslan sé þessi frá umliðnum árum, kunni annað að verða í framtíðinni, og náttúrlega, ef athugaður er sá tiltölulega mikli gróði, sem varð á einkasölunni á árinu 1941 og sennilega kemur til með að verða á árinu 1942, þá má segja, að það horfi öðruvísi við. Árið 1941 var hagnaður einkasölunnar samkv. reikningi hennar og samkv. þeim upplýsingum, sem hér eru í grg. frv., rúml. 1000000 kr. Ef allt fer sæmilega um reikningslok fyrir árið 1942, þá er gert ráð fyrir, að ágóði einkasölunnar á því ári verði sízt minni. En að sjálfsögðu er ekki unnt að byggja á afkomu einkasölunnar á þessum tveim árum, og veik ég að því í upphafi ræðu minnar. Það er bæði vegna þess, að það er hærra verð á bifreiðum og flutningsgjöld og kostnaður allur hefur hækkað og ágóðahluti einkasölunnar því meiri, þar sem innflutningurinn er meiri að krónutölu, og svo kemur hitt líka til greina, að það er áætlað og nokkurn veginn víst, að á þessu nýbyrjaða ári muni svo sem enginn innflutningur eiga sér stað á bifreiðum. Það eru komin gögn fyrir því, að frekari innflutningur en nú er orðinn að meðtöldum þeim fólksbifreiðum, sem einkasalan mun eiga í Ameríku, muni alls ekki fást. Það er þannig tekið til orða í skeyti, sem hefur borizt, að það sé litið svo á, að innflutningur til Íslands á bifreiðum sé orðinn svo mikill, að þörfum landsins verði að álítast fullnægt. Enda er enginn vafi á, að svo er. Það var geysimikil eftirspurn eftir bifreiðum, á meðan setuliðsvinnan var og mikill tekjuvegur var að því að eiga bifreið. Þá var auðvelt að fá bifreiðar frá Ameríku, því að meðal valdhafanna þar var litið svo á, að innflutningur á bifreiðum væri í þeirra þarfir, því að þeir þurftu að láta gera hér miklar framkvæmdir, sem óhjákvæmilegt var að nota bifreiðar við og ómögulegt var að framkvæma, ef þeir hefðu ekki leyft innflutninginn, eins og farið var fram á. Nú er það hins vegar kunnugt, að þessar framkvæmdir hafa dregizt stórkostlega saman. Vinna landsmanna, bæði með bifreiðar og án þeirra, hefur minnkað mjög og er þegar orðin tiltölulega lítil í samanburði við það, sem áður var. Hins vegar er kominn til landsins miklu meiri fjöldi bifreiða, bæði flutninga og fólks, heldur en landsmenn sjálfir hafa not fyrir á venjulegum tímum, og það má gera ráð fyrir því, að í stað þess, að að undanförnu hefur verið óþrjótandi eftirspurn eftir bifreiðum, bæði fyrir mannflutninga og vöruflutninga, þá verði nú engin sala í þessari vörutegund, af þeirri ástæðu einni, að augljóst er, að jafnvel þótt innflutningur væri frjáls, þótt innflutningsleyfi fengist, verður eftirspurnin engin, og má þar af leiðandi gera ráð fyrir, að næsta ár verði bifreiðasala engin eða sama sem engin í landinu. Ég hygg, að þetta geti allir orðið sammála um og að það muni geta liðið nokkur ár þannig, að þörfin fyrir innflutning á bifreiðum verði örlítil. Nú er bifreiðaeinkasalan hins vegar orðin allmikið bákn og orðin dýr í rekstri. Það má því ekki aðeins gera ráð fyrir, að hún verði tekjuminni, heldur að hún hætti að geta borið sig. Að vísu eru ýmsar vörutegundir og aðallega hjólbarðar, sem gera verður ráð fyrir innflutningi áfram á, en það er í rauninni hæpið að byggja á því, að um nokkrar tekjur geti orðið að ræða, sem um munar, af þessum rekstri. Mér virðist þess vegna alveg augljóst, að það er einnlitt nú rétt og hagkvæmt fyrir ríkissjóð að leggja niður þessa einkasölu. Ég hef nú að vísu verið mótfallinn einkasölu á bifreiðum eins og flestum öðrum nauðsynlegum vörutegundum frá upphafi, svo að það er ekkert undarlegt, þó að ég sé á þeirri skoðun nú og því fylgjandi, að hún verði lögð niður, en rökin fyrir því eru þau, að verzlun með þessa vöru verði óhagkvæmari landsmönnum í einkasölu en í frjálsum viðskiptum, og þegar um nauðsynjavöru er að ræða, sé rangt að taka upp einkasölu einmitt frá því sjónarmiði, vegna þess að það er dýrara fyrir notendur en ef um frjáls viðskipti væri að ræða. Því hefur frá upphafi verið haldið fram, sérstaklega um bifreiðaverzlun, að það liggi nokkurn veginn í augum uppi, að ef innflutningur bifreiða er tekinn af einstökum kaupmönnum, eins og var, ásamt annarri innflutningsverzlun, verði kostnaður við verzlunarreksturinn ekki í neinu hlutfalli við það, sem verður hjá fyrirtækjum, sem eingöngu verzla með þessa vörutegund. Kostnaðaraukinn við það að bæta við sig þessari vörutegund verður svo hverfandi lítill, samanborið við hina aðferðina, að reka þessa verzlun sem sérstakt fyrirtæki. Hins vegar verður ekki um það deilt, að bifreiðar séu nauðsynjavara, og hér á landi eru þær það náttúrlega miklu frekar en í nokkru öðru landi. Það stafar af því, hvernig flutningsmöguleikum okkar er háttað. Í öðrum löndum eru vöruflutningar — og raunar mannflutningar líka — um löndin aðallega framkvæmdir með járnbrautum, og notkun bifreiða kemur þar aðeins til greina í samkeppni við þau flutningatæki, og dýrleiki flutninganna takmarkast af því, hve járnbrautarflutningar eru dýrir. Hér á landi er hins vegar, eins og kunnugt er, ekki um neinar járnbrautir að ræða. Allir nauðsynlegir flutningar um landið eiga sér nú stað og hljóta í framtíðinni að eiga sér stað — aðallega með bifreiðum, og því ódýrari sem bifreiðaverzlunin er, því betur er í haginn búið fyrir þessa nauðsynlegu starfsemi, og ég held því fram, að rangt sé, að ríkið geri sér þessa verzlun að féþúfu og byggi tekjustofna sina á því að selja þessa vöru, sem ræður svo og svo miklu um það, hvernig afkoma manna í landinu verður. Það má gera ráð fyrir því, að menn haldi því fram, að möguleikarnir fyrir því að halda niðri verði á bifreiðum, hvort sem þær eru taldar nauðsynlegar eða ónauðsynlegar, séu meiri í einkasölunni en einkarekstri. Þá liggur nærri að spyrja, hvers vegna ekki sé tekin upp einkasala á nauðsynjavörum. Hví er ekki tekin upp einkasala á kornvöru, fatnaði og landbúnaðarvörum? Það er ekki gert. Það eru fleiri en við, sem álíta það óhagkvæmt að selja nauðsynjavörur í einkasölu, og þá gildir sjálfsagt alveg það sama um þessa vöru eins og aðra, nema ég ætla að fullyrða, að það gildi í enn þá ríkara mæli um þessa vöru en aðrar, því að einkasölureksturinn verður dýrari við þessa vöru, vegna þess að einkasölunni er ekki ætlað að hafa fleiri vörur með til þess að standa að nokkru leyti undir rekstrarkostnaðinum. Mér finnst, að fylgismenn einkasölunnar ættu að hafa sannfært sig um það á þessum árum, sem liðin eru, að einkasalan hefur reynzt óhentug, og þess vegna geta fallizt á að leggja hana niður, og ekki sízt fyrir þá sök, að nú, þegar bersýnilegt er, að innflutningur á bifreiðum verður næsta lítill, er einmitt tíminn til þess að leggja hana niður.

Það hefur verið blandað inn í umræðurnar um þetta mál nokkuð óskyldu efni, þegar talað hefur verið um þá óánægju, sem úthlutun bifreiða hefur valdið. Ég álít óþarft að blanda þessu inn í umr. Það er ekkert undarlegt, að óánægja hefur verið með úthlutun bifreiða, vegna þess að þegar þörfin vex og gróðavonin, þá er eðlilegt, að óánægjan verði almennari en annars, þegar gróðavonin er minni.

Ég kæri mig svo ekki um í rauninni að vera að teygja tímann með lengri ræðu um málið. Þó er kannske rétt í sambandi við það, sem fram kom við 1. umr. málsins, þar sem því var haldið fram, að ráðuneytinu hafi ekki verið leyfilegt að leggja niður einkasöluna, að segja það, að ég held því fram, að þar sem hér var eingöngu um heimild að ræða, hafi verið leyfilegt eins og með aðrar einkasölur að leggja hana niður, og ég leit svo á, að þótt á sumarþinginu væri samþ. ályktun um, hvernig haga skyldi úthlutun bifreiða, segði sú ályktun ekkert um það, að einkasölunni skyldi haldið áfram. Það var aðeins ákvörðun um það, hvernig úthlutuninni skyldi hagað, meðan einkasalan væri rekin. Að sjálfsögðu hefði þinginu borið, eins og á stóð, þegar vitað var, að ríkisstj. var skipuð mönnum, sem höfðu yfirlýst andstöðu sinni við allan einkasölurekstur á öllum vörum, að setja í lögin, að einkasala skyldi vera á þessari vöru til þess að tryggja, að svo yrði. Þetta hefði þingið átt að gera, ef það hefði litið á málið í samræmi við þær staðhæfingar, sem um það hafa verið gerðar. Og staðhæfi ég, að ekkert hefur verið gert, sem hafi valdið óþægindum í sambandi við áframhaldandi rekstur. — Ég vil skjóta því til hæstv. forseta, hvort hann vill ekki fresta atkvgr., ef umr. skyldi ljúka með þessu, því að hér er um veigamikið mál að ræða, en hv. d. hvergi nærri fullskipuð.