27.01.1943
Neðri deild: 43. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 41 í C-deild Alþingistíðinda. (2492)

30. mál, einkasala á bifreiðum

Frsm. 3. minni hl. (Jón Pálmason):

Samkv. þeirri atkvgr., sem fram fór um þetta mál við 2. umr., lítur út fyrir, að þeir þm., sem vilja hafa einkasölufyrirkomulag á þessu sviði, séu ráðnir í að láta þetta frv. ganga fram, og það virtist svo, að þeir hefðu öruggan meiri hl. í d. við 2. umr. En það hefur ekkert komið fram, sem sannar það, jafnvel ekkert, sem kemur með líkur fyrir því, að það sé nauðsynlegt og óhjákvæmilegt að endurreisa þetta fyrirtæki. Ég hef sýnt fram á það í þessum umr., að öll þau atriði, sem færð voru fram fyrir einkasölunni í byrjun, hafa brugðizt, reynslan hefur sýnt annað og það hefur farið á annan veg en formælendur þess gerðu upphaflega ráð fyrir. Ég hef sýnt fram á, að skortur hefur verið á þessari vöru á tímabili og af hvaða ástæðum það er. Ég hef sýnt fram á, að í staðinn fyrir það, að tegundunum átti að fækka, hefur þeim fjölgað, og skortur hefur verið á nauðsynlegum varahlutum. Ég hef sýnt fram á, að engar líkur eru fyrir, að verðið hafi verið lægra en verið hefði í frjálsri verzlun. Ég hef leitt rök að því, að hægt hefði verið með frjálsri verzlun að fá meiri tekjur í ríkissjóð og bæjarsjóði en með einkasölufyrirkomulagi. Til viðbótar við þetta skal ég benda á, að ef þessi verzlun hefði verið í höndum einstaklinga árið, sem einkasalan græddi mest, árið 1941, þegar hún græddi 1 millj. kr., og þeir hefðu grætt jafnmikla upphæð og komizt yfir kr. 200 þús. í tekjur, þá hefðu þeir samkv. skattal. orðið að greiða í skatt 90% og aðeins haft eftir 10%. Út í þetta skal ég ekki fara meira. Það þýðir sennilega ekki að rekja þá sögu, ef það er ákveðið, eins og lítur út fyrir,að málið eigi að ganga fram, en vil aðeins segja nokkur orð um þá brtt., sem við hv. 2. þm. Rang. höfum borið fram við frv. á þskj. 248. Þessi brtt. er um að breyta bráðabirgðaákvæðunum, sem fylgja þessu frv. Það er gert ráð fyrir því, að strax og l. hafa verið samþ., hætti skilanefnd gömlu einkasölunnar störfum, en einkasalan taki við öllu, án þess að lokið hafi verið þeim reikningsskilum, sem hér er um að ræða. Í brtt. er aftur á móti farið fram á, að skilanefnd ljúki störfum og gangi frá reikningum og fjárreiðum fyrirtækisins og einkasalan taki við vörubirgðum þeim, sem sú gamla átti, og þeim áhöldum, sem hún þarf með. Mér er kunnugt um, að hin mesta óreiða hefur verið á bókhaldi þessa fyrirtækis, og hafa margir menn starfað margar vikur að því að fá því komið í lag, og er því ekki lokið enn þá. Ég tel sjálfsagt, ef á að endurreisa þetta fyrirtæki, að skilanefnd fái að ljúka störfum og gera búið upp. Ég held, að það væri hollt, að settar væru við og við rannsóknarnefndir á sum önnur ríkisfyrirtæki til að gera upp, hvernig þar er umhorfs.

Að öðru leyti held ég, að ekki sé þörf á að fara um brtt. fleiri orðum, en vænti, að hv. þm., jafnvel þeir, sem vilja endurreisa þetta fyrirtæki, sem er meiri hl., að því er virðist, geti samþykkt, að lokið sé reikningsskilum gamla fyrirtækisins, áður en það nýja tekur við.

Varðandi brtt. frá hv. 2. þm. Reykv. á þskj. 138 tók ég það fram við 2. umr., að um þessa brtt. vildi ég ekki ræða neitt þá, vegna þess að ég væri því andvígur, að þetta frv. gengi fram. En þegar það kemur í ljós, að frv. á að ganga fram, ber að taka til athugunar þær brtt., sem fyrir liggja, og um þessa brtt. verð ég að segja það, að ég get ekki gengið inn á hana, af því að ég tel, að hún sé ekki sanngjörn. Hún miðar að því, að það séu einungis bílstjórafélög hér í Reykjavík, sem fái fulltrúa í þeirri væntanlegu úthlutunarnefnd bifreiða, en aðrir bifreiðastjórar í landinu komi þar ekki nálægt. Í fyrsta lagi er mikill vafi á því, ef á að hafa ríkisskipaða úthlutunarnefnd, hvort þar eigi að vera fulltrúar frá bifreiðastjórafélögum, hvort sem er í Rvík eða annars staðar. En það væri þó sönnu nær, ef til væri allsherjarfélag bifreiðarstjóra, að það fengi fulltrúa í nefndinni, en mér er ekki kunnugt, að það sé til. Ég tel, að það skipti meira máli í þessu sambandi, að settar séu fastar reglur um, eftir hvaða kerfi skuli fara, þegar bifreiðum er úthlutað, sem líklega kemur ekki mikið til á næstunni, vegna þess að ekki eru líkur til, hvort sem einkasalan verður endurreist eða ekki, að hægt verði að fá mikið af bifreiðum til landsins, enda vafamál, hvort á því er þörf, eins og sakir standa.

Ég get svo látið þetta nægja, en vænti, að a.m.k. verði brtt. okkar hv. 2. þm. Rang. samþ.