27.01.1943
Neðri deild: 43. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 45 í C-deild Alþingistíðinda. (2497)

30. mál, einkasala á bifreiðum

Frsm. 1. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Það er rétt, sem hv. þm. A.-Húnv. vakti athygli á í ræðu sinni áðan, að meiri dráttur er á að ganga frá ríkisreikningunum en æskilegt væri. Hv. þm. minnti á það, sem rétt er, að ekki er enn búið að afgreiða ríkisreikningana frá 1940. Það er afleitt, að þetta skuli dragast svo lengi, og þyrfti að stefna að því að færa það í betra horf, en ég þykist þess fullviss, að það, hvort frv. um bifreiðaeinkasölu verður samþ. eða ekki, mun engin áhrif hafa í því efni. Það er eitthvað annað, sem hefur tafið fyrir, en að reikningar bifreiðaeinkasölunnar væru ekki nógu snemma tilbúnir.

Hv. þm. A.-Húnv. mótmælti því, að kostnaðarauka leiddi af brtt. hans og hv. 2. þm. Rang., en það er þó víst ekki ætlun þeirra, að skilan. starfi kauplaust? Ég get ekki fallizt á, að nauðsynlegt sé að hafa skilanefnd til að komast að því, hvernig einkasalan hafi verið rekin. Það er tryggt, að allir geta kynnt sér rekstrarafkomu þessa fyrirtækis. Alþ. hefur valið þrjá menn til þess að endurskoða ríkisreikningana og þar með allan rekstur ríkisfyrirtækjanna, hvors fyrir sig. Þessir menn eiga að gera athugasemdir við það, sem þeir álíta athugavert, og líta eftir því, hvort allt sé í lagi með reksturinn. Ég hef athugað ríkisreikninginn frá árinu 1939, sem er síðasti reikningur, sem Alþ. hefur samþ. Þar eru birtar aths. yfirskoðunarmanna og svör ríkisstj. við þeim og svo till. til úrbóta. Það eru meðal annars tvær aths. varðandi bifreiðaeinkasöluna og svör ríkisstj. við þeim. Að svörunum athuguðum höfðu svo yfirskoðunarmennirnir ekki annað að segja er að þeir teldu málið upplýst með svarinu. Þeir höfðu sem sagt fengið fullnægjandi svör frá ríkisstj. og töldu enga þörf frekari aths. Nú segir hv. þm. A.-Húnv., að í rekstri bifreiðaeinkasölunnar hafi ríkt mikil óreiða, sem þurfi nauðsynlega að fá hreint uppgjör á. Samkv. því, sem ég benti á í ríkisreikningnum frá 1939, hlýtur óreiðan að vera til komin eftir þann tíma, eða á því tímabili, sem einkasalan var undir yfirstjórn ráðh. úr flokki hv. þm. A.- Húnv. Annars gera yfirskoðunarmenn væntanlega aths. við þessa óreiðu, ef einhver er, enda er það skylda þeirra að kynna sér þetta ýtarlega og gera aths. við það. Ég álít, að það séu nægilegir möguleikar til þess að gera þetta, þótt ekki séu hafðar tvær stjórnir við þetta fyrirtæki. Annars koma væntanlega von bráðar fram aths. yfirskoðunarmanna við ríkisreikninginn fyrir árið 1940, og gefst þá vafalaust tækifæri til þess að kynnast þessu nánar.