18.11.1942
Sameinað þing: 1. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 31 í B-deild Alþingistíðinda. (25)

Rannsókn kjörbréfa

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti. — Það hafa verið bornar þungar sakir á Sjálfstfl. og umbjóðendur hans og frambjóðendur í Snæfellsnessýslu. Og ekki nóg með það, heldur er getið um svipaðar sakir í fjölmörgum kjördæmum og látið í veðri vaka, að í öllum kosningum sé almennt farið að beita óleyfilegum ráðum, — stórkostleg kosningasvik hafi nú farið fram víða um land, og svona hafi það verið fyrr við kosningar. Yfirleitt virðast þm. sammála um þetta. Þá fer varla hjá því, að þetta er líka skoðun þjóðarinnar. Hvort sem rétt er eða rangt, er þetta ákaflega alvarlegt mál og ber að taka það alvarlegum tökum þegar í stað. Allir virðast sammála — um, að rannsókn verði að fara fram á Snæfellsnesi. Hv. þm. S.-Þ. var að spyrja, hvernig Sósíalistafl. héldi að færi í framtíðinni, ef tekið yrði vægt á þessu máli. Sósíalistafi. vill ekki láta taka vægt á þessu máli. Hann vill láta hegna harðlega kosningasvikum og taka með því fyrir kverkar þeim orðrómi, sem annars yrði óviðráðanlegur, að hið borgaralega þjóðfélag landsins sé búið að koma svo mikilli spillingu í allar kosningar, að þær sé ekki að marka, — þær eigi því að afnema, eins og hópur manna í rauninni vill. Hitt er annað mál, að svona framferði verður ekki útrýmt, nema það sé upprætt, og ræturnar eru sjálft auðmagnsskipulagið, — kosningasvik verða ekki upprætt, nema völdin séu tekin úr höndum þeirrar auðmannastéttar, sem þessi hv. þm. var að tala um.

Nú mun verða samþ. að láta rannsókn fara fram, en til álita kemur, hvort samþykkja eigi kosninguna engu að síður. Það mundi vera mjög varhugavert að fresta samþ. kjörbréfs, nema málið lægi svo ljóst fyrir, að Alþingi gæti staðhæft kosningasvikin. Væri það hins vegar gert að reglu að fresta samþykkt kjörbréfs, ef fyrir liggja kærur eða grumsemdir, sem þó er örðugt að festa hendur á, gæti það orðið til þess að koma öllu starfi Alþingis í mesta öngþveiti, og slíkt fordæmi má ekki skapa fyrir nokkurn mun. Í þessu máli virðist ekki enn fenginn grundvöllur til að dæma kosninguna ólögmæta, og ber þá að taka kjörbréfið gilt að svo stöddu.

Væri hins vegar frestað að taka gilt kjörbréfið, væri rétt að fresta því einnig í öðrum kjördæmum, þar sem brytt hefur á grunsemdum um kosningarnar.

Enginn vafi getur leikið á því, að úrskurðarvaldið um lögmæti kosningar er hjá Alþingi. Sé nú kosning þessa þm. tekin gild, en síðar sannist fyrir dómstólum, að hún hafi verið ólögmæt, mun sá þm. verða sviptur kjörgengi, reynist hann sjálfur sekur. Ef hann og umboðsmenn hans reynast ekki sekir, væri kosningin e.t.v. talin gild þrátt fyrir aðrar misfellur. Ég álít, að réttur þingsins til að dæma kosninguna ógilda að lokinni rannsókn, rýrni ekkert, þótt hún sé tekin gild, meðan sakir eru ósannaðar, og skoðun mín styðst við ótvíræð ákvæði í stjórnarskránni. Í 5. gr. þingskapa segir að vísu: “Kæru yfir kosningu þingmanns eða kjörgengi skal því aðeins taka til greina, að hún sé komin til Alþingis í byrjun þings næst á eftir kosningu eða áður en kosning þingmanns er tekin gild á Alþingi: En þetta ber ekki að skilja svo, að með gildistöku kjörbréfs sé úr skorið um lögmæti þess, því að í 4. gr. er talað berum orðum um rannsókn kjörbréfanefndar á kærum yfir kosningum, „er þegar eru teknar gildar.“ Að slíkri rannsókn lokinni og með aðstoð dómstóla, ef þarf, hefur Alþingi úrskurðarvaldið, alveg tvímælalaust, og til undirbúnings þeim úrskurði lætur það rannsaka málið. Ef þessu verður ekki mótmælt með rökum, hlýt ég að líta svo á, að það sé skilningur Alþingis, og þá er alveg burtu fallin alvarlegasta ástæðan til að fresta að taka kjörbréfið gilt. Ef þingsköp reynast sjálfum sér ósamkvæm um þetta efni og þar eru orð, sem hamla úrskurðarvaldi Alþingis að rannsókn lokinni, verður að breyta þeim, og mun Sósfl. þá bera fram till. í þá átt. En í því deilumáli, sem fyrir liggur, mun flokkurinn greiða atkv. með till. meirihl., og þar sem fyrir liggja sterkar grunsemdir um kosningar í ýmsum öðrum kjördæmum og það við allar kosningar, sem fram hafa farið síðan 1934, og þörf virðist að rannsaka þær grunsemdir, mun Sósfl. vinna að því, að sú rannsókn, sem allir virðast fallast á að gera, verði mjög rækileg.