04.12.1942
Efri deild: 8. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 49 í C-deild Alþingistíðinda. (2505)

23. mál, nýjar síldarverksmiðjur

Gísli Jónsson:

Herra forseti: Mér þykir koma dálítið á óvart þetta frv. um breyt. á l. frá síðasta þingi, því að ég vissi ekki til, að sjútvn., þar sem hv. þm. S.-M. (IngP) á sæti, bæri fram nokkra ósk um breytingu í þá átt, sem hann leggur nú til í þessu frv., og ekkert var um það rætt þá í nefndinni að binda framkvæmdir málsins eingöngu við ríkið, eins og hann gengur út frá nú. Hins vegar kom það skýrt fram hér í d., að einungis væri ætlazt til, að ríkið gripi þá inn í, ef einstaklingar gætu ekki komið upp þeim verksmiðjum, sem þarf og þurfa kann. Það hefur verið stefna útvegsmanna og sjálfstæðismanna yfirleitt, eins og hæstv. ráðh. veik að, að einkaframtakinu væri ekki settur fjötur um fót í þessum greinum.

Það yrði löng og hörmuleg saga, ef rekja ætti afskipti ríkisvaldsins af byggingu sumra hverra verksmiðja, sem komið hefur verið upp gegn vilja ríkisstj., en til þess þó eins að gera sjávarafurðirnar verðmætari. Leyfi ríkisvaldsins hefur oft ekki fengizt til stækkana og nýbygginga á slíkum verksmiðjum, sem allir vita þó, að gefið hefðu Íslendingum milljónir eftir milljónir í gjaldeyri. Til dæmis má nefna verksmiðjuna á Patreksfirði; þeir, sem stóðu að byggingu hennar, notuðu lánstraust sitt erlendis til að koma henni upp, en þar sem ríkisstj. vildi þá á engan hátt leyfa að reisa síldarverksmiðju, urðu þeir að gefa henni annað nafn og kalla hana fiskimjölsverksmiðju og helzt aldrei að láta síld koma í hana. Þessi verksmiðja hefur ekki aðeins skapað almenningi atvinnu, heldur landinu mikinn gjaldeyri og hinu opinbera miklar tekjur. Mér er kunnugt um fleiri slíkar verksmiðjur á Vestfjörðum og að minnsta kosti eina við Faxaflóa, sem ekki hefur mátt kalla síldarverksmiðjur vegna þessa synjunarvalds ríkisstj. og hefðu þær aldrei verið reistar, ef ekki hefði verið hægt að gefa þeim annað nafn. Nú er verksmiðjurekstur hins opinbera svo kominn, að það er fyrst og fremst einstaklingunum hagur, að honum sé við haldið. Þegar hann sýnir rétt sæmilega afkomu, geta einstaklingsfyrirtækin, sem borga síldina jafnt, skilað stórkostlegum hagnaði. Hitt sýnist sumum mönnum röng stefna að halda niðri kaupi sjómanna og tekjum útgerðar yfirleitt, til þess að ríkisrekstrarbákn síldarverksmiðjanna geti borið sig. Sjómenn eru farnir að leggja áherzlu á, að ekki sé torveldað að auka verksmiðjur, sem tekið geti við afla þeirra. Og áhuginn fyrir lýsisherzlustöð, sem eykur verðmæti aflans, er orðinn mjög almennur. Það mál verður varla kæft, þótt vilji kynni að vera til þess. Málið hefur fengið nokkra athugun. Í höndum forstjóra lýsissölusamlags íslenzkra botnvörpunga munu liggja skýrslur og upplýsingar, sem miklu skipta. Það félag hafði áhuga á að koma á herzlu fyrir þorskalýsi. En síðan augu manna opnuðust fyrir verðmæti síldarlýsisins, hefur verið um það rætt, að ríkið, sem á mikinn hlut í síldariðnaðinum, kæmi sér upp lýsisherzlustöð fyrir a.m.k. sínar verksmiðjur. Engin skynsamleg rök verða færð fyrir því, að nauðsynlegt sé að snúa lýsisherzluverzluninni upp í ríkiseinokun. Það er jafnrangt og það er hættulegt að lögbinda verksmiðjustofnun, ekki aðeins við vil ja þeirrar ríkisstj., sem sitja kann að völdum, heldur og að vilja Alþ. Ég mun greiða frv. atkv. til 2. umr. og nefndar, en ég er algerlega mótfallinn stefnunni, sem í því felst.

Það er misskilningur, sem virtist koma fram hjá hv. 1. þm. S.-M., að á síðasta þingi hafi verið ákveðið eða gengið út frá, að ríkið eitt beitti sér fyrir og léti reisa lýsisherzluverksmiðju. Það er þröngsýni á þróun íslenzks sjávarútvegs að ætla nú að lögfesta, að ekki þurfi og ekki geti orðið nema ein lýsisherzlustöð á Íslandi. Ég vona, að hvergi nærri nægi ein slík stöð. Eins og haldið var fyrir 25 árum, að ekki þyrfti nema eina síldarbræðslu á Íslandi, eins mun nú brátt koma í ljós, að ein herzlustöð er engan veginn nægileg fyrir framtíðina.