04.12.1942
Efri deild: 8. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 52 í C-deild Alþingistíðinda. (2507)

23. mál, nýjar síldarverksmiðjur

Atvmrh. (Magnús Jónsson):

Ég skal nú ekki lengja þessar umræður mjög. Ég vil aðeins taka fram út af ummælum hv. flm. um stjórnina, að ég veit ekki til, að herra ríkisstjórinn hafi sett henni nein takmörk í þessa átt. Hinn eini munur á þessari stjórn og venjulegri stjórn er sá, að hún hefur ekki þingræðislegan meiri hl. að baki sér og mun því ekki af þeirri ástæðu leggja sérstakar áætlanir fyrir framtíðina, þar sem hún bíður eftir, að stjórn með meiri hl. bak við sig taki við völdum. En öll dagleg störf, eins og veitingu leyfa og embætta, ber henni náttúrlega að vinna. Þau geta oft alls ekki beðið. Það væri fjarstæða, að öll stjórnarstörf ættu að stöðvast, unz hin nýja stjórn yrði mynduð, hversu lengi sem það drægist.

Stjórnin hefur fullt vald, meðan hún starfar, og að segja, að hér sé engin stjórn, er ekki satt. Hitt er svo annað mál, að ég get fallist á, að óheppilegt gæti verið, að slík stjórn færi lengi með völd, en ég efast ekki um vald hennar til slíkra hluta, á meðan hún er við völd.

Mér skildist hv. 1. þm. S.-M. álíta, að hver og einn gæti stofnað slíka stöð sem þessa eftir lögunum. Þetta getur verið lagaatriði, og er ég ekki svo lögfróður, að ég þori nokkuð að fullyrða um málið. En ég lít svo á, að þessi væntanlega lýsisherzlustöð hljóti að heyra undir lögin um síldarverksmiðjurnar og þurfi að leita leyfis ráðh. um stofnun hennar. En ef vafi þætti leika á um leyfi ráðh., þá mætti leita leyfis stjórnarinnar, en ekki endilega þingsins, eins og stendur í þessu frv., leita sams konar leyfis og veitt er til að reisa síldarverksmiðjur. Það er ekki nema rétt, að ríkið geymi sér þennan rétt. Þetta ætti að vera þannig nægjanlega tryggt, þar sem stjórnin á hverjum tíma er framkvæmdastjórn Alþ. (BSt: Stundum). Hvenær sem Alþ. vill, því að það getur á hverjum tíma skipað meirihlutastjórn og dregið ráðh. til ábyrgðar. Það má því segja, að þetta sé ekki stórt atriði, og ég skýt því til sjútvn., hvort henni þyki rétt, að sett verði þunglamalegri l. um þetta atriði en l. um síldarverksmiðjur ríkisins.

Ég hef ekki kynnt mér, hvort reisa mætti eina eða fleiri stöðvar, en það veit ég, að fljótt er þetta oft að breytast. Ég tek undir orð hv. þm. Barð. um, að á sínum tíma þótti í stórt ráðizt með byggingu síldarverksmiðjanna, en nú vex engum það í augum. Ég get þó hugsað mér, að rétt sé, að ein stöð nægi í byrjun. Ég skal svo ekki fjölyrða um þetta. Hvort hér verða sett ný l. eða ekki, fer eftir því, hvort þm. álíta, að þetta atriði heyri undir önnur l. eða ekki.