04.12.1942
Efri deild: 8. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 52 í C-deild Alþingistíðinda. (2508)

23. mál, nýjar síldarverksmiðjur

Gísli Jónsson:

Um ræðu hv. flm. er það að segja, að hans einu rök fyrir málinu voru þau, að þetta væri svo dýrt fyrirtæki, að óverjandi væri, að nokkur einstaklingur fengi að nota sér þær athuganir, sem ríkið hefði látið fram fara til undirbúnings þessa máls. En ef þetta fyrirtæki er svo mikið risabákn, þá fellur það um sjálft sig, að nokkur sækist eftir að stofna það.

Annars get ég frætt hann um það, ef hann veit ekki betur, að verkfræði nútímans er svo hraðstíg, að vegna nýrra framfara og uppgötvana getur allt annað orðið upp á teningnum um kostnaðarhliðina eftir 5–10 ár en nú virðist muni verða.

Um þetta mál með öðrum þjóðum er það að segja, að þær framleiða ekki hlutfallslega jafnmikið lýsi og við. Annars skal ég lofa hv. flm. því að mæta þessu máli með sanngirni í sjútvn. og komast að raun um þær athuganir, sem gerðar hafa verið.

Um núv. stjórn er það að segja, að hún er svo góð, að 32 þm. af 52 þm. geta ekki fundið aðra betri.