04.12.1942
Efri deild: 8. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 53 í C-deild Alþingistíðinda. (2510)

23. mál, nýjar síldarverksmiðjur

Atvmrh. (Magnús Jónsson):

Þessar umræður eru nú svona að smásnúast frá efninu og aftur um stjórnina.

Þótt milli okkar hv. flm. sé lítið bil í þessu máli að hans eigin dómi, þá er það nóg til þess, að annar okkar er með þessu frv., en hinn á móti því, svo að ef bilið er lítið, þá er frv. lítið. Það er að mínum dómi alveg óþarft og þunglamalegt og óheppilegt, að þetta heyri beint undir Alþ.

Um vald stjórnarinnar ætla ég ekki að deila. Það er enginn vafi á því, að „funkerandi“ stjórn á að sinna öllum daglegum störfum, t.d. veita embætti, og er það vissulega ekki síður viðurhlutamikið en veita leyfi sem þetta. Það, sem sérstaklega er við slíka stjórn, væri einkum það, að hún finnur með sjálfri sér, að hún er ragari við að gera framtíðaráætlanir, þar eð hún er aðeins til bráðabirgða, og þess vegna hlýtur hún að óska eftir nýrri stjórn, En annars mætti nú náttúrlega reyna að vita, hvort þessi stj. gæti ekki fengið traustsyfirlýsingu. (BSt: Já, ég held þið ættuð að reyna það). Hv. form. Framsfl. lýsti yfir því á sínum tíma, að ekki væri hægt að mynda betri stjórn. Kannske svo sé enn. Forsrh. Framsfl. sagði líka af sér á sínum tíma og myndaði svo stjórn aftur. Það eru fordæmi fyrir því, að núv. ríkisstj. fengi einhvers konar traustsyfirlýsingu. Og ef slík yfirlýsing væri gefin, felst í því það, að við förum að leysa málin, þ. á m. dýrtíðarmálin.

Ég veit ekki, hvort á að tefja þetta litla frv. með þessum umr. Ég vildi aðeins ekki láta því ómótmælt, að „funkerandi“ ríkisstj. hefði ekki fullt vald til þess að afgreiða umsóknir, eins og t.d. um að reisa síldarverksmiðjur, sem er fullkomið matsatriði, sem hver ráðh. verður að gera upp við sig að fengnum till. trúnaðarmanna í þeirri grein, — alveg regluleg dagleg afgreiðsla.