07.01.1943
Efri deild: 26. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 56 í C-deild Alþingistíðinda. (2515)

23. mál, nýjar síldarverksmiðjur

Frsm. meiri hl. (Ingvar Pálmason):

Herra forseti. Hv. frsm. minni hl. hefur nú átt kost á því að gera grein fyrir skoðunum sínum á þessu máli, og skal ég nú aðeins svara honum nokkrum orðum.

Hann talaði um, að það vekti undrun sína, að gamlir þm. skyldu ekki láta sannfærast af jafngildum rökum og hann bar fram. Ég skal nú ekki dæma um það mál, heldur láta deildina dæma það, en ég gat engin rök fundið hjá honum. Annars furðar mig ekki á neinu, sem kemur frá honum.

Hann veik hér nokkrum orðum að skýrslu um lýsisherzlustöðvar, frá Trausta Ólafssyni, sem birt er í tímariti Verkfræðingafélags Íslands. Einu rökin, sem ég heyrði frá þessum hv. þm., voru þau, að það þyrfti að vera fyrir hendi nægilegt og ódýrt rafmagn og nægilegt hráefni á staðnum og yrði því að reisa þessar herzlustöðvar í sambandi við síldarverksmiðjur. En hvað segir þetta um, að nauðsynlegt sé að reisa margar herzlustöðvar? Mér finnst það einmitt sýna, að ekki ætti að byggja nema sem fæstar slíkar stöðvar, og tel ég því þessi rök frekar mín megin.

Nú er það svo, að þessi skýrsla Trausta Ólafssonar, sem mér dettur ekki í hug að draga í efa, að sé ábyggileg, tekur það fram, að örðugleikarnir við að koma upp slíkum stöðvum stafi einkum af því, hve framleiðsla lýsisins sé dreifð um landið, því að flutningur hráefna torveldi mjög, að slíkur atvinnurekstur geti borið sig. Augu mín hafa því einkum hvarflað til Siglufjarðar sem hins heppilegasta staðar fyrir lýsisherzlustöð. Nú er það svo, að eftir þeim niðurstöðum, sem Trausti Ólafsson kemst að, þá eru 7500 smál. það minnsta magn, sem getur staðið undir rekstri slíkrar stöðvar. Ég sem leikmaður lít því þannig á, að þar sem jafnmikil vandkvæði eru á stofnun slíks fyrirtækis, beri fyrst og fremst að hafa það fyrir augum, að fyrirtækið fullnægi þeirri herzluþörf, sem landið hefur. Mér skilst hins vegar, að allir útreikningar, sem gerðir hafa verið, séu miðaðir við stöð, sem ekki afkastar nema 7500 smál. á ári. Ég hef litið svo á, að þegar í þetta fyrirtæki verður ráðizt, þá sé um að gera, að stöðin verði svo stór, að hún geti fullnægt allri herzluþörf landsins. Ég játa það fúslega, að það eru allmiklir erfiðleikar á því að flytja lýsið á milli, en ég álít, að þeir séu það vel yfirstíganlegir, að það gæti borgað sig að hafa aðeins eina herzlustöð. Ég játa, að það sé rétt, að magnið rýrni mjög lítið við herzluna, eða aðeins 8–10%, en hitt er líka víst, að flutningskostnaður milli hafna hér innanlands hlýtur að verða lítill í samanburði við flutningskostnaðinn til útlanda. Flutningskostnaður hér milli hafna er nú að vísu mjög mikill, en það er alveg víst, að ef í þetta fyrirtæki yrði ráðizt, mætti draga úr kostnaðinum.

Meðalársframleiðsla lýsis mun nú vera milli 20 og 30 þús. smál., en ég get þó ekki sagt um það fyrir víst, þar sem ég hef ekki borið saman tölur síðustu ára. Nú er gert ráð fyrir í lögum frá því í sumar að byggja margar og stórar síldarbræðslustöðvar, og það verður a.m.k. byggð ein á næstunni á Siglufirði, sem á að geta brætt 10000 mál á sólarhring. lýsisframleiðslan hlýtur því að aukast mjög á næstunni.

Ef rannsókn sýnir, að það muni borga sig að koma upp lýsisherzlustöð, þá álít ég, að hún ætti að vera aðeins ein fyrir allt landið og hún ætti að vera á Siglufirði.

Það er a.m.k. sjálfsagt að fara gætilega í þetta mál, þannig að ekki verði ráðizt í neitt, sem geti torveldað heppilegan framgang þess.

Ég hef nú reynt að rekja þetta mál út frá mínu sjónarmiði. Það er að vísu aðeins leikmannssjónarmið, þar sem ég hef enga sérþekkingu á þessum málum, en hún kemur ef til vill fram hjá hv. þm. Barð. Annars finnst mér, að hver óbreyttur borgari ætti að geta séð, að það virðist vera eðlilegast, þar sem það er jafnmiklum erfiðleikum bundið og rannsókn hefur sýnt að koma hér á fót lýsisherzlustöð, að hafa hana aðeins eina, en það er ef til vill skoðun hv. þm. Barð., að nauðsynlegt sé, að herzlustöðvarnar séu bundnar við bræðslustöðvarnar. Ég játa það, að það væri æskilegt að geta losnað við flutninga á hráefninu, en ég álít, að það megi ekki horfa svo einhliða á það, að ekkert annað komist að. Ef ég skil rétt skýrslu Trausta Ólafssonar, þá eru frumskilyrðin fyrir rekstri slíkrar stöðvar nægilegt hráefni á staðnum og nægilegt og ódýrt rafmagn. Svo koma ýmis önnur skilyrði, sem mér skilst, að megi yfirstíga. Nú skildist mér á ræðu hv. frsm. minni hl., að í náinni framtíð væri það útilokað, að Siglufjörður fengi nægilegt og ódýrt rafmagn. Ég skal ekki leggja neinn dóm á það, en ég hef svo mikla trú á þessu máli, að engin ástæða sé til þess að leggja árar í lát, þótt á Siglufirði verði aldrei nóg rafmagn.

Hv. þm. Barð. minntist á að koma upp 7500 smál. stöð á Hjalteyri, en mér dettur þá einnig í hug, hvort ekki mætti koma upp allsherjarherzlustöð á Akureyri. Ég veit, að hv. frsm. minni hl. segir, að það sé ómögulegt vegna flutningsörðugleika, en það er ekki enn þá komið í ljós, að ekki megi yfirstíga þá örðugleika. Mér virðist sem öll þau rök, sem hv. frsm. minni hl. þykist hafa fært fyrir máli sínu, bendi þó frekar í þá átt, að tímabært sé að fara gætilega í þessu máli.

Síðasta röksemd þessa hv. þm. var, að allt annað lægi til grundvallar hjá mér en það, að ég vildi vinna að framgangi rétts máls. Þetta sýnir, hve gersneyddur hann er öllum röksemdum. Við ættum ekki að fara að gera hér hver öðrum upp hvatir, — það er alveg þýðingarlaust. Málið liggur alveg ljóst fyrir, og við eigum ekki að ræða um það út frá hvötum.

Þá er aðeins eitt eftir hjá þessum hv. þm., en það er sú trú hans, að allt eigi að vera sem frjálsast og óbundnast. Þetta eru hans einu rök og þau einu rök, sem ég viðurkenni. Ég viðurkenni, að það er fallegt og að mörgu leyti rétt., að allir hafi það sem frjálsast, en það er þó oft nauðsynlegt, að frelsið hafi sínar takmarkanir.

Ég sé svo ekki ástæðu til að ræða þetta lengur og mun ekki taka aftur til máls við þessa umr. En það er álit mitt, að hér þurfi að taka í taumana, og ég ætla að láta hv. þm. skera úr um það, hvort ekki sé betra að gera það strax heldur en þegar í óefni er komið.