07.01.1943
Efri deild: 26. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 58 í C-deild Alþingistíðinda. (2516)

23. mál, nýjar síldarverksmiðjur

Frsm. minni hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Mér fannst hv. flm, halda sér litið að rökum enn. Hann gat þess, að sér þætti það einkennilegt, að Trausti Ólafsson skyldi halda sig við 7500 smál. herzlustöð í útreikningum sínum. Ég tel ekki nema eðlilegt, að hann vildi sýna lægstu takmörkin fyrir því, að slík stöð gæti borið sig, og því þarf að taka tillit til þess, að ekki má flytja hráefnið, og nægilegt og ódýrt rafmagn verður að vera fyrir hendi. Við erum nú orðnir sammála um, að 7500 smál. stöð geti borið sig, þar sem þessi skilyrði eru fyrir hendi, og þá tel ég rangt, að hún verði ekki sett upp á slíkum stað, einkum ef það yrði nú raunin, að sú stóra verksmiðja, sem hv. flm. dreymir um, gæti nú ekki unnið úr öllu hráefninu, sem til hennar þarf að flytja. Ég skil ekki þá menn, sem ekki geta séð þetta. Það mun hafa vakað fyrir Trausta Ólafssyni, að æskilegast væri að hafa sem minnstar og flestar stöðvar, til þess að hægt væri að spara flutninga, þar sem einnig er víða góð aðstaða til virkjunar.

Nú er það vitað, að víða hér á landi, og þó einkum á vestfjörðum, hafa verið reistar smáar síldarverksmiðjur, sem hafa getað bjargað mörgum smálestum sjávarafurða frá eyðileggingu. Nú vildi ég spyrja hv. flm., hvort hann teldi það óráð að reisa fleiri slíkar stöðvar þar, sem líkur eru til, að þær geti orðið að miklu gagni. Ég tel nauðsynlegt að nota það hráefni, sem til er á hverjum stað, á staðnum sjálfum, ef það getur gefið arð og fólk fæst til þess að vinna úr því. Það er æskilegast, að hægt væri að setja upp herzlustöð í sambandi við hverja síldarbræðslustöð hér á landi, sem afkastar nægilega miklu til þess að halda arðbærri herzlustöð gangandi allt árið. Stærstu erfiðleikar síldarverksmiðjanna eru þeir, hve stuttur vinnutími þeirra er á hverju ári, og því. stærri sem verksmiðjurnar eru, þeim mun meira óhagræði er að þessu. Til Siglufjarðar hefur m.a. hópazt vinnulýður, sem hefur orðið að byggja ársafkomu sína á tveggja mánaða vinnulaunum. Þetta hefur m.a. leitt til þess, að sögn framsóknarmanna sjálfra, að bændur hafa orðið að greiða mun hærra kaup við heyvinnu en ella mundi. Þessu atvinnulífi fylgir mikil óhollusta, og þetta fólk hefur fengið allt annan hugsunarhátt við það að starfa aðeins tvo mánuði af tólf. Til þess að ráða bót á þessu hefur helzt verið rætt um að reisa kæliþrær eða þá herzlustöðvar, þannig að hægt yrði að vinna í 10–12 mánuði í stað tveggja áður.

Ég hef athugað þetta mál gaumgæfilega, og með minni „teknisku“ þekkingu hef ég séð, að sé farið eftir áætlun Trausta Ólafssonar, má spara allmikið í byggingarkostnaði og rekstrarkostnaði, þar sem má nota að nokkru leyti sömu hús, sömu geymana, sömu katla og sömu yfirstjórn, þannig að reksturinn gæti orðið til sem mestra hagsbóta fyrir landið í heild. Hv. flm. taldi, að ég hefði ekki komið með nein rök fyrir máli mínu, en ef þetta eru ekki talin rok, þá veit ég ekki, hvernig á að tala við menn um mál með rökum. Samkv. skýrslu Trausta Ólafssonar er aðeins hægt að fá 27 kr. meira nettó fyrir smál. af lýsinu, sé það flutt út hreinsað. Ef við eigum svo að fara að bæta flutningskostnaði innanlands ofan á allan annan kostnað við hreinsunina, færi að verða lítill fengur að því að hreinsa lýsið hérlendis. 1939 var varla hægt að flytja lýsi frá erfiðustu stöðum á landinu til lýsisherzlustöðva, og flutningurinn hefur verið dýr. Hv. flm. hefur viðurkennt, sem ég og hygg, að sé rétt, að það geti orðið langt þangað til Siglufjörður fær nægilegt rafmagn. Ég vona, að þjóðin megni að stíga svo stórt spor, að ekki aðeins Siglufjörður, heldur allir kaupstaðir landsins geti unnið þetta og annað til iðnaðar. En áreiðanlega koma ýmsir staðir á undan Siglufirði, m.a. Eyjafjörður, hvar sem vera skal. Og ef á að vera aðalherzlustöð á Akureyri, þá er sama öngþveitið og nefnt var áðan, — erfiðleikarnir um flutning fram og til baka. Og þó að það sé tekið fram hjá Trausta Ólafssyni, að rafmagn sé eitt af meginatriðunum, þá er rafmagnið annað atriði af tveimur jafnmikilsverðum, sem hann gerir ekki upp á milli, með tilliti til þeirrar þekkingar, sem er til staðar árið 1939. Vitanlegt er, að tækni getur þokað svo fram, að hægt verði að setja upp miklu ódýrari og minni herzlustöðvar árið 1939; það getur hvorugur okkar sagt um. Í sambandi við lýsisherzlustöð er það a.m.k. draumur margra, að setja megi upp hvalastöð, og vinni þá lýsisherzlustöðin einnig úr hvallýsinu. Mundi það spara kostnað stórkostlega. Um leyfið er það að segja, að ég hef ekki fullyrt, að það fengizt ekki. Hitt segi ég, að það er óþarfi að setja þennan þröskuld í byrjun.

Ég held það sé ekki ástæða til að ræða mikið þetta mál nú. Bæði af grg. og því, sem fram hefur komið í umr., ættu hv. þm. að geta séð, á hvaða stigi það stendur. En ég ítreka það, sem ég sagði áðan, að þeir menn, sem þóttust harðast verða úti um að fá leyfi fyrir síldarverksmiðju á Siglufirði á sínum tíma, geri það upp við sig nú, hvort rétt sé að setja þetta ákvæði inn í lögin eða ekki.