05.02.1943
Neðri deild: 50. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 62 í C-deild Alþingistíðinda. (2527)

23. mál, nýjar síldarverksmiðjur

Frsm. meiri hl. (Gísli Guðmundsson):

Eins og sjá má á þskj. 310, hefur meiri hl. sjútvn. lagt til, að þetta frv., sem hér liggur fyrir, verði samþ. óbreytt, en í þeim meiri hl. eru for m. n., þm. Ísaf. (FJ), 6. landsk. (LJós) og ég. Hins vegar eru 7. þm. Reykv. (SK) og þm. N.-Ísf. (SB) mótfallnir því, að frv. verði samþ., og hefur frsm. minni hl. gert nokkra grein fyrir afstöðu þeirra. Ég get tekið undir með frsm. minni hl., að það sé ekki ástæða til að halda langar ræður um þetta mál og það af þeirri ástæðu, að þegar hafa hér á Alþ. í sambandi við tilsvarandi ákvæði í l. um síldarverksmiðjur komið fram ýmis af þeim rökum, sem hér eiga einnig við. Á síðasta þingi, sem háð var í sumar sem leið, voru samþ. l. þau, sem hér er vitnað í frá 25. sept., nr. 93, um að reisa nýjar síldarverksmiðjur. Samkv. þessum l. er það ákvæði, að ríkið láti reisa, þegar tiltækilegt þyki, síldarverksmiðjur á tilteknum stöðum, nokkuð mörgum. Það, sem hér er um að ræða, er allmikið fyrirtæki af hálfu ríkisins, þannig að þær síldarverksmiðjur, sem ríkið mundi reisa samkv. þessum l., mundu vinna úr mun meira magni síldar heldur en þær verksmiðjur allar, sem ríkið á nú, og með samþykkt þessara l. má segja, að af hálfu Alþ. hafi verið gengið inn í það sjónarmið, að rétt væri að auka til muna síldarvinnsluna. En í sambandi við samþykkt þessara l. um þessa stórfelldu fyrirhuguðu aukningu voru sett inn í l. ákvæði, sem voru á þá leið, að ríkið léti reisa verksmiðju til herzlu síldarlýsis, þegar rannsókn sýndi, að það væri tímabært.

Það er nú nokkur tími síðan byrjað var að gera athuganir um, hvort af ríkisins hálfu mundi tiltækilegt að reisa verksmiðju til herzlu síldarlýsis. Var að tilhlutun ríkisstj., Alþ. og verksmiðjustjórnar gerð athugun um þetta. Var Trausta Ólafssyni efnafræðingi sérstaklega falið að athuga þetta mál, og gerði hann um það skýrslu til ríkisstj. á sínum tíma. Það hefur því þegar farið fram nokkur undirbúningur af ríkisins hálfu til að ráðast í slíkar framkvæmdir, og s.l. sumar ákvað þingið það endanlega með samþykkt téðra l., að ríkið skyldi ráðast í slíkar framkvæmdir, þegar tiltækilegt þætti. Samkv. þessu mun mega ganga út frá því, að frá hálfu ríkisins verði framkvæmdir hafnar á þessu sviði, strax og möguleikar eru á því. Hins vegar verður að telja það töluvert óheppilegt, ef svo skyldi fara, að samtímis því, að ríkið ætlaði að ráðast í þetta fyrirtæki og hefði með höndum undirbúning til þess, væri af hálfu einstaklinga einnig hafinn slíkur undirbúningur. Það verður að teljast óheppilegt, vegna þess að eftir þeim rannsóknum, sem fyrir liggja, er ekki líklegt, að ráðizt verði í að reisa nema eina slíka, eða í mesta lagi tvær herzlustöðvar, — eina á Siglufirði og ef til vill á öðrum stað —, og má þó telja það vafasamt samkv. þeirri skýrslu, sem fyrir liggur frá sérfræðingnum, sem ég nefndi áðan. Það verður að teljast óheppilegt, ef samtímis því sem ríkið færi að reisa slíka herzlustöð, að einstaklingur byrjaði á þessu, og gæti farið svo, að það yrði öðrum aðila eða jafnvel báðum til tjóns, að þannig færu tveir út í þetta á sama tíma. Yrði fyrst um sinn aðeins reist ein herzluverksmiðja. Verður að telja það sjálfsagt, þar sem ríkið er stærsti atvinnurekandinn í síldariðnaðinum og hefur eðlilega hagsmuni almennings fyrir augum í sambandi við þann atvinnurekstur, að einmitt það reki slíka verksmiðju, og yrði að telja óeðlilegt, ef aðrir aðilar, sem hefðu miklu minni síldariðnað en ríkið, ættu slíkt fyrirtæki, sem þá hefðu eins konar einkaaðstöðu í þessum efnum og kynni að geta þröngvað kosti bæði ríkisverksmiðjanna og annarri hinna smærri síldarverksmiðja vegna aðstöðu sinnar, því að það er auðvitað mál, að þegar þetta er komið í það horf, að unnið er úr lýsinu hér á landi, hefur sá aðilinn, sem hefur aðstöðu til lýsisherzlunnar, hver sem hann er, sérstaka aðstöðu gagnvart öðrum verksmiðjum í landinu.

Með tilliti til þess, sem nú hefur verið sagt, hefur meiri hl. sjútvn. talið eðlilegt, að frv. verði samþykkt. Meiri hl. telur eðlilegt, að ríkið hafi vald á þessum framkvæmdum í landinu og að einstaklingar geti ekki stofnað til framkvæmda á þessu sviði, framkvæmda, sem kynnu að fara í bága við framkvæmdir ríkisins. Hins vegar, ef svo skyldi fara, sem ólíklegt er, að ríkið hætti við framkvæmdir á þessu sviði, er ekki ástæða til að meina einstaklingum að ráðast í byggingu slíkrar verksmiðju, og eins ef það sýndi sig við nánari rannsókn, að fleiri herzlustöðvar gætu verið starfandi í landinu, gæti vel kornið til mála, að leyfi væru veitt.

Meiri hl. Alþ. samþykkti á sínum tíma, að leyfi atvmrh. skyldi þurfa til að byggja nýjar síldarverksmiðjur. Ég skal ekki fara út í þau rök, sem fyrir því voru. Þau voru lögð fram á Alþ. þá, en ég vil segja það, að ef ástæða var til, að þetta leyfi þyrfti til að reisa nýjar síldarverksmiðjur, þá er alls ekki minni ástæða til þess, að leyfi þurfi til að reisa verksmiðju sem þessa.