05.02.1943
Neðri deild: 50. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 67 í C-deild Alþingistíðinda. (2534)

23. mál, nýjar síldarverksmiðjur

Frsm. meiri hl. (Gísli Guðmundsson):

Ég skal vera mjög stuttorður. Mér skildist hv. þm. Siglf. telja sig vera að gera aths. við ræðu mína áðan. Það var þó ekki beinlínis hans ræða, sem ég var að svara, heldur hv. 2. landsk. Ég sagði eitthvað á þá leið, að mér hefði skilizt á orðum hv. 2. landsk., að honum þætti gæta um of sósíalisma í atvinnurekstri þessa lands og aðgerðum Alþ. í þeim efnum. Ég þóttist hafa fulla ástæðu til að segja þetta, því að hv. 2. landsk. talaði mjög í þeim anda, sem áður hefur heyrzt hjá þeim, sem fastast trúa á einstaklingsframtakið. Hann talaði um „mjög svo óheppileg afskipti“ þess opinbera af atvinnurekstrinum og kvartaði um, að atvinnurekendur þyrftu að sækja um leyfi til Alþ. eða ríkisvaldsins um alla skapaða hluti og mættu hvergi um frjálst höfuð strjúka. Mér skildist af þessu, að honum myndi þykja nóg um þau tök, sem sósíalistar væru búnir að ná á Alþ. og löggjöf landsins. Hv. þm. Siglf. undirstrikaði, að mér skildist, þetta sama í ræðu sinni. Hann sagði beinlínis, að það mætti ekki trufla hin eðlilegu lögmál hins „kapitalistiska“ þjóðfélags, á meðan hið kapitalistiska þjóðfélag stæði. Mér virðist hann því vera á þeirri skoðun, að ekki mætti gera neina tilraun með sósialisma í þessu þjóðfélagi, því að það sé „að trufla hin eðlilegu lögmál kapitalismans“.

Hann talaði um verksmiðjuna á Húsavík. Hann sagði, að hún hefði verið byggð til svo litilla afkasta, að ekki gæti borið sig. Mönnum hefði verið ráðið frá því að byggja svo smátt, og það hefði sýnt sig, að þær aðvaranir hefðu haft við rök að styðjast. Ég vil aðeins benda honum á, að það var síður en svo, að þessi verksmiðja væri reist á sósíalistiskum grundvelli. Hún var einkafyrirtæki, byggð af hlutafélagi, og má vel vera, að ef ríkisverksmiðjurnar eða ríkið hefði átt að sjá um framkvæmdirnar á þessum stað, þá hefði ekki svo farið sem fór. En þetta bendir einmitt til þess, hvernig fer, þegar slíkar framkvæmdir eru eftirlitslausar með öllu af hálfu hins opinbera.