15.01.1943
Efri deild: 32. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 69 í C-deild Alþingistíðinda. (2549)

108. mál, sala á spildu úr Neslandi í Selvogi

Flm. (Eiríkur Einarsson):

Frv. þetta hefur áður legið fyrir hv. d., eins og um getur í frv., og ætti því síður að vera þörf á að fjölyrða um það núna, og enn síður þar sem allar ástæður eru óbreyttar frá því, sem var, þegar frv. var seinast á ferðinni, en það var árið 1941. Hv. 1. þm. Árn. (JörB), sem átti og á enn sæti í Nd., flutti frv. þá. Eins og drepið er á í grg., þá náði frv. framgangi í hv. Nd., en dagaði uppi hér í hv. d. Aðalatriði frv. eru sem hér segir: Árið 1934 fóru fram samningaumleitanir við eigendur jarða þeirra, er land eiga á sandsvæðinu frá ósum Ölfusár vestur til Selvogs, um sandgræðslu og friðun þessa lands. Sýslumanninum í Árnessýslu, sem hafði forgöngu í málinu, og eiganda Neslands kom saman um, hvaða landssvæði skyldi friða af Neslandi, og voru þeir samningar undirritaðir. Það, sem hefur valdið óánægju Guðmundar Jónssonar, bónda í Nesi, er það, að þegar til framkvæmda kom með sandgræðsluna, þá var tekið meira land frá Nesi en í samningunum stóð. Guðmundur bóndi er þannig gerður, að hann vill, að gerðir samningar séu haldnir, og jörð hans hefur einnig misst mikið af góðu landi við þetta samningsrof, svo að hún verður ekki nytjuð að fullu. Í öðru lagi er svo með þessa landspildu, að hún er að kalla gróin og var það, þegar sandgræðslugirðingin var sett, svo að eigi virðist ástæða til að hafa hana innan girðingarinnar.

Eins og stendur í 1. gr., fer frv. fram á, að ríkisstj. heimilist að selja eiganda Neslands þessa spildu. — Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta frekar nú, nema tilefni gefist til þess af umr. annarra hv. þm., og legg til, að frv. verði, að þessari umr. lokinni, vísað til 2. umr. og landbn.