06.02.1943
Efri deild: 49. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 70 í C-deild Alþingistíðinda. (2552)

108. mál, sala á spildu úr Neslandi í Selvogi

Frsm. meiri hl. (Eiríkur Einarsson):

Herra forseti. Það er nú vitað, að löngum hefur verið blásturssamt í Selvoginum, og hafa stormar mjög mætt þar á jörðinni, en ekki var það nú fyrr en á siðasta áratugi, eða eftir 1930, 1932–1933, sem fyrst var fyrir alvöru farið að undirbúa og gera gangskör að sandgirðingu og öðrum aðgerðum til heftingar sandfoki þar í sveit. Ég býst við, að einn aðalfrumkvöðull að þeim aðgerðum hafi verið þáverandi sýslumaður Árnessýslu, Magnús Torfason, og er ekki nema gott eitt um þá viðleitni að segja. Ég ætla, að þegar þessi mál hafi verið fyrst borin undir bændur þar í sveit, þá hafi það atvikazt þannig, að hinar tiltölulega beztu undirtektir, sem mál þetta fékk, og bezti skilningur hafi verið hjá bónda þeim, sem bjó þar á stærsta jarðnæðinu og þar, sem mest mundi mæða á framkvæmd málsins, en það er bóndinn á stærstu jörðinni í Selvogi, Guðmundur Jónsson í Nesi. Hann tók þessu máli mjög hvetjandi og ég hygg miklu betur og líklegar heldur en ýmsir aðrir þá í byrjun.

Það var fyrst síðar, þegar heimamenn í Selvogi fóru að girða lönd sín og þetta mál komst á frekari rekspöl, að ágreiningur nokkur hófst um ýmis smáatriði, sem að framkvæmd þessara sandgirðinga lutu.

Ég verð að geta þess, að þegar til framhaldsundirbúnings undir sandgræðslumálin kom, þá var þessi sami maður, oddviti sýslunefndar Árnessýslu, sem færði það á ný í tal á ákvarðandi hátt við bændur þá, sem kom þetta mál við, sem áttu eða bjuggu á sandlöndunum, hvað gæti orðið að samkomulagi. Það var víst árið 1934, sem þessu var komið á þann rekspöl, að farið var að tala um það sem undirbúning til ákvarðana í því máli, hvar sandgirðingar ættu að liggja. Það mun hafa verið á manntalsþingi 1934, sem þetta barst þannig í tal, og munu menn þá hafa orðið mjög ásáttir um það, hvar líklegust girðingastæði væru, og munu hafa verið tilgreind merki o.s.frv.

Þessu til staðfestingar, til þess að koma þessu máli á hreint, þá var síðar á því ári, eða haustið 1934, kvaddur saman fundur í Hveragerði í Ölfusi, þar sem Magnús Torfason var staddur, og fyrrv. búnaðarmálastjóri, Sigurður Sigurðsson, var þar einnig. Og ég staðhæfi, að Gunnlaugur Kristmundsson var þar einnig, svo og bændur þeir, sem helzt þurfti að koma til samkomulags við og bjuggu á þessu sandsvæði. Bóndinn í Nesi, Guðmundur Jónsson, var þar og Sigurður Þórðarson á Hlíðarenda, og ég hygg líka kaupfélagsstjóri þeirra Árnesinga, Egill Thorarensen. Og það var ekkert annað en gott og blessað að segja um þennan fund. Þar voru menn sáttir og sammála um málið og staðfestu þau merki á sandgirðingum, sem stungið hafði verið upp á í góðu samkomulagi á manntalsþinginu í Selvogi. Og þarna var á Hveragerðisfundinum í viðurvíst þessara forustumanna sandgræðslumálanna, fyrst og fremst oddvíta sýslunefndar svo og Sigurðar Sigurðssonar búnaðarmálastjóra og Gunnlaugs Kristmundssonar, undirskrifuð samþykkt viðkomandi jarðeigenda, sem innihélt skuldbindingar og yfirlýsingar um það, að svona skyldi sandgirðingin liggja með tilgreindum merkjum.

Að því, er snertir Nesland í Selvogi, voru ummerkin frá Hellisþúfu og sjónhending til sjávar í Viðarhelli. Þannig var málið staðfest og ákvarðað samkv. fyrra samkomulagi á þessum Hveragerðisfundi. Og var ekki annað séð en að öllum, sem þar áttu hlut að máli, þætti það sanngjarnt og þeir sættu sig vel við það. Enda munu hlutaðeigendur hafa álitið, og veit ég það sérstaklega um Guðmund Jónsson, að með þessu væri málið ákveðið. Og eins og hann hafði skuldbundið sig til með undirskrift sinni, taldi hann gagnkvæmt, að hlutaðeigandi stjórnarvöld væru skuldbundin til að halda að sínu leyti fast við, að svona yrði málið afgreitt. Þessi staðfesting í Hveragerði hafði verið stíluð til Búnaðarfélags Íslands, eins og mun hafa átt að gera eftir sandgræðslul. eða anda þeirra, því að Búnaðarfélag Íslands er samkv. l. aðili til ákvörðunar um slík mál.

En svo einkennilegt er það um þessa samþykkt frá Hveragerðisfundinum, sem stíluð var til Búnaðarfélags Íslands, að ég hef heyrt kunnuga menn segja, að hún hafi ekki fyrirfundizt hjá Búnaðarfélagi Íslands og sé í raun og veru ekki sjáanlega til staðar. Ég vildi að vísu, að það reyndust ósönn orð, því að það væri kannske dálítið aukin trygging fyrir þeim málstað, sem fluttur er samkv. frv. þessu, að sú samþykkt fyrirfyndist. Og það sýnist furðulegt, ef það má ekki svo verða. Það er nú svo, að þann mann, sem hefur — af skiljanlegum ástæðum að vísu orðið til aðalandófs vegna þeirrar málaleitunar, sem fylgt er á eftir með þessu frv., sandgræðslustjóra ríkisins, Gunnlaug Kristmundsson, rekur ekki minni til þess, hvort hann var á þessum Hveragerðisfundi eða ekki. Hann segist ekki muna það. En aðrir hlutaðeigendur, sem muna harla vel eftir þessum fundi og hvað þar gerðist, þeir staðhæfa, að sandgræðslustjóri hafi setið þar allan fundinn og engum andmælum hreyft. Þetta segir Guðmundur Jónsson í Nesi, og ég hef skjalfest vottorð frá Sigurði Þórðarsyni, bónda á Hlíðarenda, um það, að sandgræðslustjóri hafi setið þann fund mótmælalaust.

Ef sandgræðslan hefði verið framkvæmd eftir þessari samþykkt á þessum fundi, þá væri ekkert frv. komið fram til lagfæringar, því að þá hefði þess ekki þurft. En þegar leið nær framkvæmd málsins, þá er í stuttu máli sagt, að það var stofnað til sandgræðslugirðingar með allt öðrum hætti með tilliti til landamerkja Ness í Selvogi heldur en svarar til þessarar nefndu samþykktar. Þá var sem sagt farið fram á það af hálfu sandgræðslustjórans, að girt yrði þar út undir túnum, eða allnærri heimaræktarlandi heima undir bæjum í Selvognum. Og munaði þar harla miklu frá því, er samningar stóðu til, sem ég gat um. Það kom þar þríhyrningur ofan frá þessari Hellisþúfu og til sjávar, sem var viðaukinn, sem nú stóð til að taka til viðbótar í sandgirðinguna. Þegar Guðmundur bóndi í Nesi vissi um þá fyrirætlun sandgræðslustjóra að vilja nú telja nauðsynlegt að taka inn í sandgirðingu allt annað og meira af landi sínu heldur en nefndir samningar stóðu til, kom það honum allmikið á óvart, og taldi hann sig þar hafa mikilla hagsmuna að gæta og að það þyrfti ekki svo að verða, og þóttist, sem suma mun ekki furða, vera hart leikinn, þar sem í þessum viðskiptum, eins og í öðrum borgaralegum viðskiptum, mætti ekki standa skráð viðskiptaniðurstaða. Og þó að sandgræðslumálin séu hin merkilegustu og þeim beri að sýna fulla alúð, virtist honum framkvæmdir í þeim málum ekki vera undanþegnar orðheldni um skuldbindingar. Guðmundur er þannig maður, að hann gat ekki gengið fram hjá þessum atriðum og hefur því sótt mál sitt í samræmi við þessa skoðun sína. Guðmundur Jónsson í Nesi hefur játað, að það hafi í raun og veru verið að þakka lipurð og sanngirni þáverandi landbrh., Hermanns Jónassonar, að öll sú viðbótargirðing, sem stóð til samkv. vilja sandgræðslustjóra að taka fyrir til framkvæmdar umfram það, sem samningar voru gerðir um, var ekki gerð, heldur þar nokkuð miðlað málum. Niðurstaðan varð því sú, að allmikið land var tekið í þessa sandgirðingu umfram það, sem samið hafði verið um, en þó ekki svo nærgöngult heimatúnum í Selvogi sem sandgræðslustjóri hafði farið fram á. Enda er nú svo einkennilega málum háttað, að um sama leyti, er þetta var að komast í kring, var sandgræðslustjóranum skrifað bréf frá hæstv. þáv. landbrh., sumarið 1935, þar sem landbrh. tilkynnir sandgræðslustjóra, hvar merkin skuli vera. Og þau merki eru, að því er Nesland snertir, sem næst þeirri linu, sem samkomulag hafði orðið um á áðurnefndum Hveragerðisfundi. Það heitir í því bréfi „frá Hellisþúfu að Bjarnavík“, sem er þar við sjóinn, — að vísu ekki í Viðarhelli, heldur í Bjarnavík. En milli Viðarhellis og Bjarnavíkur er örstutt, þannig að þetta munar svo að segja engu. Þetta er staðfesting, sem lögð var fyrir sandgræðslustjóra árið 1935 af stjórnarvöldunum, að sandgirðingunni skyldi svona vera háttað. Skoða ég þetta sem staðfestingu á því, að það væri ekki úr lausu lofti gripið, að girðingin ætti að vera á þessum stað, eins og Hveragerðissamningarnir stóðu til, því að margt mun hafa verið búið að ræða um þetta, og það mun ekki hafa verið hending ein, að svona var ákveðið. En sumarið 1935 er það, að Guðmundur Jónsson í Nesi er staddur hér: Rvík og skrifar þá undir heimild til þess að girða viðbótarland, taka viðbótarland úr Neslandi til sandgræðslu umfram það, sem talað var um í bréfi ráðh. og samþykkt var í Hveragerði, fláka, sem nú er í girðingunni, og það, sem hann nú er að leita endurkaupa á frá ríkinu.

Menn kynnu nú að spyrja: Hvers vegna skrifaði Guðmundur Jónsson undir þetta bréf, sem hann skrifaði undir í viðurvist Magnúsar Torfasonar og annarra skilríkra manna? Það liggur svo í því, að þegar Guðmundur varð þess áskynja, að það kapp var í málinu af hálfu sandgræðslustjóra, að hótað var eignarnámi, sem l. standa að vísu til, ef samkomulag er ekki fáanlegt um afhendingu, og þá vildi hann heldur með samkomulagi, þótt nauðugur væri, afsala sér þessu í hreinum viðskiptum en að láta eignarnámshandahóf dynja yfir sig og missa kannske af enn meira landi. Af tvennu illu kaus hann það þá heldur að skrifa undir þetta en að eiga á hættu, að meira land yrði tekið. Hann var það mikill búhyggjumaður, að hann sá, að þetta var áhættuminna, en meira eða minna handahóf réði því, hvaða land yrði af honum tekið. Hér er því ekki verið að fara fram á annað en að leiðrétta hlut Guðmundar Jónssonar í Nesi, svo að hann fái þann rétt, sem honum skýlaust ber í þessu máli, sem tekinn var af honum án tillits til nauðsynjar. Og þá eigi hann þann rétt og fái það land aftur, er frv. fer fram á, ef stj. telur það hættulaust vegna sandgræðslunnar.

Ég vil taka það fram strax fyrir þá þm., sem á sínum tíma eiga að greiða atkv. um þetta mál, að þeim á að vera óhætt að treysta hverri stj., sem þetta kann að taka til meðferðar, til þess að athuga allar aðstæður, áður en Guðmundur Jónssyni er aftur fengið það land, sem af honum var tekið. — Og þótt einhver segi, að með þessu sé verið að skylda stj. til að láta þetta land af hendi, þá er það bara ekki sannleikanum samkvæmt. Henni ber að athuga sandfokshættuna, áður en hún veitir þessa heimild.

Nú vill svo til, að kunnugir menn í Selvogslandi líta svo á, að ekki stafi nein sandfokshætta af því landi, sem Guðmundur Jónsson vill kaupa. Að vísu er það svo, að efst uppi í hlíðinni eru líkindi til, að land eyðist alveg smátt og smátt. En neðan til er mikið af landinu svona. Það er ekki hægt að ganga fram hjá því, að þetta bera margir, sem til þekkja, með Guðmundi bónda í Nesi.

Frv. þetta var flutt fyrir nokkrum árum af hv. 1. þm. Árn. (JörB) í Nd. Þar segir í grg. fyrir því, með leyfi hæstv. forseta:

„Það er útilokað, að nokkur minnsta hætta sé á uppblæstri af þessu landi, þó að það sé ekki friðað. Landið var áður örfoka, en er nú að kalla gróið.“

Þetta er alveg réttilega mælt. En því er borið við í þessu máli, að það sé hættulegt , að taka þetta land úr friðun vegna sandfoks, og hafa ýmsir hreppsbúanna sent Alþ. áskorun um þetta. En ég verð nú að segja, mér og öðrum til leiðinda, að umsögn þessara manna er nú ekki svo einhlít sem virðast mætti í fljótu bragði, þótt þetta séu annars trúverðugir, góðir og gegnir menn. Ástæðan til þessa er sú, að þarna er megn sveitarrígur, flokkadrættir og þröngbýlt. Nú liggur fyrir Alþ. áskorun frá 23 kjósendum í Selvogi þess efnis, að þessi söluheimild verði ekki veitt. Svo eru aðrir 24 kjósendur úr sama hreppi, sem á sama tíma skora á Alþ. að leyfa þessa söluheimild og samþ. þetta frv. Hér er maður á móti manni, eins og allir sjá, og bendir þetta ótvírætt á ástandið heima fyrir. — Af þessu verður séð, að ekki verður hægt að hafa þessar áskoranir sem gögn í málinu.

Því hefur verið haldið fram, að síðan girðingin kom þarna í Selvoginum, hafi landið haldið áfram að gróa. Að vísu á girðingin rétt á sér og er nauðsynleg, en að landinu hafi farið svo fram, að þess sjáist glögg merki á jafnskömmum tíma, er næsta ótrúlegt. Guðmundur Jónsson sjálfur segist hafa fengið 400 hesta af þessu umrædda landi, fyrst er hann kom að Nesi, en segist nú fá talsvert minni heyfeng í seinni tíð. Ég slæ þessu fram til að vekja athygli á, að blómgunin er þarna e.t.v. ekki jafnmikil og af er látið. Ég segi þetta ekki til að gera lítið úr sandgræðslunni, heldur til að bægja frá öllum öfgum í þessu máli.

Með þessum formála, að á Guðmundi Jónssyni hafi verið brotnir samningar af forustumönnum sandgræðslunnar og það staðfest af stjórninni 1935, að girðingin skuli liggja eins og hún nú liggur, og með tilliti til þess, að hann lét nauðugur land þetta af hendi til þess að komast hjá eignarnámi, þá vona ég, að sú réttlætiskennd sé ríkjandi hér í hv. d., að þm. virði honum til vorkunnar, þótt hann vilji láta halda gerða samninga. Auk þess felst í þessu frv. aðeins heimild fyrir stj., og auk þess hefur fram komið sú brtt. frá hv. þm. Dal., að söluheimildin verði því aðeins notuð, að 2 menn, tilkvaddir af hæstarétti, séu henni meðmæltir. — Þessi brtt. er fram borin af varkárni. En jafnvel þótt þessi brtt. væri ekki samþ., þá ætti að nægja sú vissa, að landbrh. á hverjum tíma mundi ekki nota heimildina nema að undangenginni gaumgæfilegri rannsókn í málinu. Því er þessi brtt. eiginlega óþörf, þótt hún sé fram komin aðeins til tryggingar í málinu.

Það hefur komið fram í þessu máli, að sandhaugar hafi borizt alveg heim á túnin í Selvogi í sandroki. Þetta er víst alveg rétt. En sá sandur mun víst einmitt mest vera kominn úr rofbökkunum við túngarðana. Jarðvegurinn er þarna alls staðar takmarkaður. Og ef ætti að taka málið svo stórhreinlega, að ekki gæti komið til þessa, þá væri spurning, hvort ekki væri rétt að friða Selvoginn alveg. Það væri hægt að setja svo miklar varúðarreglur, að svo langt yrði að ganga til að framfylgja þeim.

Það er töluvert gert af því opinbera til að halda fólkinu í sveitunum. Þá ber á sama tíma að telja það nokkurs virði, að búhöldar fái notið sín á jörðum sínum. Svo stórir hagsmunir geta strítt á móti þessu sjónarmiði, að hrjá þurfi þá burtu. En ekki má láta hið vinsæla viðhorf til sandgræðslunnar villa mönnum svo sýn, að réttarreglur og samningar séu brotnir í hennar nafni, en í rauninni að þarflausu. Svo langt má það ekki ganga.

Ég vil ítreka það hér, að ég hef talið, að ég áliti ekki rétt, að þessi heimild yrði notuð, nema sannað væri, að það væri forsvaranlegt vegna sandgræðslunnar. Og ég legg áherzlu á, að þá aðeins verði hún notuð.

Ég held það sé svo ekki fleira, sem ég þarf að taka fram. Fyrir fáum árum var sams konar frv. og þetta flutt hér í Nd. Það dagaði þá uppi með sæmilegum líkum fyrir jákvæðri afgreiðslu, ef tími hefði unnizt til. En nú vona ég, að tími vinnist til að leiðrétta þetta, svo að Guðmundur Jónsson fái þann rétt, er honum ber samkv. samningi. Síðan verði heimild þessi notuð, ef rétt dæmist vera. Og ef athugun fer fram á landi þessu í sambandi við þetta mál, þá álít ég, að um leið ætti að athuga yfirleitt allt Selvogsland með tilliti til sandfoks og sandgræðslu, því að fyrir vestan t.d. er engu minni hætta vegna sandsins, en þar er ógirt land.