06.02.1943
Efri deild: 49. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 75 í C-deild Alþingistíðinda. (2553)

108. mál, sala á spildu úr Neslandi í Selvogi

Frsm. minni hl. (Páll Hermannsson):

Hv. 1. flm. þessa frv. og frsm. meiri hl. landbn. er búinn að halda hér næstum klukkutíma ræðu. Ég get verið miklu stuttorðari, meðal annars af því, að á köflum í ræðu hans kom það í ljós, að það er ekki mikið, sem okkur greinir á um í þessu máli.

Frv. þetta er ákaflega stutt og yfirlætislaust og fjallar um það að heimila stj. að selja Guðmundi Jónssyni, bónda í Nesi, nokkurn hluta af því landi, sem hann hafði áður selt ríkinu.

Í grg., sem að mestu er uppprentun frá fyrra frv. um þetta mál, er sú ástæða tilfærð, að bóndinn í Nesi hafi verið beittur harðrétti, — ég vil segja órétti —, er takmörk sandræðslugirðingarinnar voru ákveðin þannig, að tekið hafi verið meira af landi hans en nauðsynlegt var og það, sem honum var bagalegast að missa.

N. hefur nú athugað þetta og reynt að kynna sér málavexti. En eins og þingskjöl bera með sér, hefur n. að víssu leyti þríklofnað. Að vísu skrifuðu 3 nm. undir nál. meiri hl., en einn þeirra með þeim fyrirvara, að hann mundi flytja brtt., sem hann hefur nú gert. Ég álít þýðingarmikið atriði, hvort hún verður samþ. eða eigi. Er ég les frv. og grg. þess, þá finnst mér of mikið gengið fram hjá því aðalatriði, hvað er hagkvæmt fyrir sandgræðsluna í Selvogi. Nú heyrði ég, að 1. flm. tók það alveg skýrt fram, að hann ætlaðist beint til þess, að stj. léti athuga fullkomlega, hvort sandgræðslunni stafaði nokkur hætta af þessari sölu, áður en hún yrði leyfð. Þetta er gagnleg yfirlýsing. En þar skiljast leiðir, því að ég er þegar viss um, að sandgræðslunni stafar hætta af þessari sölu.

Ég þyrfti ekki að vera miklu langorðari um þetta en orðið er. Sá hv. þm., sem skrifað hefur undir nál. með mér, er mér sammála. Við teljum ekki heppilegt að taka landið úr friðun, eins og nú er, vegna þess að þetta land mundi blása upp og einnig landið í kring.

Mér er minnisstætt eitt sinn, er ég kom í Selvog. Þar sá ég mjög fagurt land, þar sem áður hafði verið sandauðn. En eitt stærsta stórbýlið þar, Strönd, er orðið svo að segja samfelld eyðimörk. Ég hef heyrt sagt, að sömu örlög hafi fleiri býli þar hlotið. En mér var sagt, að bindingur nokkur væri að myndast á friðuðum svæðum. Eftir nokkur ár má gera ráð fyrir, að kominn verði allgóður gróður á því svæði, sem þarna er innan girðingar. Ég hef þá trú, að á sandgræðslustarfinu næstu árin velti það, hvort ströndin öll leggst í eyði eða verður blómleg byggð.

Ég held ég megi taka það fram fyrir hönd okkar allra í landbn., að það er ekki nein tilhneiging hjá okkur til að gera bóndanum í Nesi nokkurn skaða. Við þekkjum hann lítið og þykjumst ekki hafa ástæðu til slíks. Hins vegar getum við ekki gert honum greiða með því að mæla með, að ríkið taki þetta land úr friðun.

Ég vil ekki ræða mikið það misrétti, sem hv. flm. telur, að þessi bóndi hafi verið beittur. Að vísu eru óþægindi að þeirri girðingu, sem sett hefur verið upp í sambandi við friðunina. Flm. telur, að mest hafi mætt á bóndanum að koma upp sandgirðingunni. Ég held, að ég upplýsi rétt, að þessi bóndi seldi umrædda landspildu fyrir 6 þús. kr. og að ekki hafi aðrir fengið betur greitt fyrir land sitt. Ég býst við, að hann hafi fengið meira fyrir landið, sem hann seldi, vegna þess að hans land hafi verið betra en annarra. Mér finnst ekki rangt, þótt menn leggi til land undir sandgræðslu, sérstaklega þegar það er gert í þeim tilgangi að vernda gróðurlönd þau, sem utan girðingar eru.

Ég vil benda á samkomulag það, sem frsm. meiri hl. sagði, að gert hefði verið í Hveragerði á sínum tíma. Þótt það hafi verið ágætt á sínum tíma að setja girðinguna þar, sem hún er nú, getur verið öðru máli að gegna eins og nú horfir, því að sandhafið færist talsvert til.

þskj. 342, nál. minni hl. landbn. (fylgiskjal Il) er bréf frá 23 íbúum Selvogshrepps, þar á meðal frá trúnaðarmönnum sveitarinnar, t.d. hreppstjóra og oddvita. Þar er frá því sagt, að nú undanfarið, sérstaklega s.l. vor, hafi fokið mikið af sandi norðaustan frá á landið í Selvogi.

tún hafði fokið svo mikið, að ekki hafði hrokkið til, þótt mikil vinna væri lögð í að moka sandinum í burtu. Í samræmi við þetta fer fjöldi af íbúunum fram á ekki einungis, að neitað sé að selja landið, heldur færa þeir talsverð rök fyrir því, að nytjalandi í Selvogi mundi stafa hætta af sandfoki frá umræddri landspildu síðar, ef hún væri nú tekin úr friðun.

Að alveg sömu niðurstöðu kemst sandgræðslustjóri. Hann segir um eftirfarandi ummæli, sem standa í grg. frv.: „Það er útilokað, að nokkur minnsta hætta sé á uppblæstri á þessu landi, þótt það sé ekki friðað. Landið var áður örfoka, en er nú að kalla gróið.“ — Við þetta bætir sandgræðslustjóri: „Þetta er ekki rétt. Landið er ekki nær því gróið, þó að gróður þess hafi aukizt mikið þau 7 ár, sem það hefur verið friðað. Gróður þess þolir ekki beitarörtröð. Í því er bundinn mikill sandur, sem verður laus og fýkur, sé landið ekki friðað. Stækkar þá sandfokssvæðið, sem sandur fýkur af vestur að byggðinni í Selvogi og sandgræðslusvæðinu á Stararlandi, foksandsmagnið margfaldast og hættan vex, sem ógnar bæjum og grónu landi í Selvogi.“

Ég vitna hér í orð sandgræðslustjóra, sem af öllum er talinn heiðarlegur og dugandi embættismaður.

Um íbúa sveitarinnar er það að segja, að margir þeirra telja hættulegt að taka landið úr friðun. Þar á meðal eru tveir af trúnaðarmönnum sveitarinnar, oddviti hreppsnefndar og hreppstjóri.

Ég hef rætt við einn af trúnaðarmönnum Búnaðarfélags Íslands, jarðræktarráðunautinn. Hann áleit, að ekki gæti komið til mála að taka land þetta úr friðun, taldi svo mikla hættu stafa af því. Ég hef líka rætt við fyrrv. sýslumann Árnessýslu um þetta mál. (Allt hans er á þskj. 342, í bréfi frá honum.) Hann hefur tjáð mér og leyft að hafa eftir sér, að hann teldi, að fremur þyrfti að bæta við friðað land á þessu svæði en minnka það.

Það er alveg rétt, sem hv. frsm. meiri hl. sagði, að þetta þarf vandlegrar athugunar við. Það eru skiptar skoðanir um þetta í Selvogi. Þar er flokkadráttur í þessu máli, og finnst mér það ekki undarlegt.

Einn af duglegustu bændum í sveitinni, sem er jarðeigandi og frændmargur, vill kaupa hluta af hinu friðaða landi. Ýmsir mæla með þeim kaupum, aðrir gegn þeim. Það kemur ekki máli þessu beinlínis við, en þó er svo, að af 21 kjósanda, sem hafa skrifað undir beiðni til Alþ. um, að umrædd landspilda sé seld Guðmundi í Nesi, eru sjö — réttur þriðjungur — Guðmundssynir eða dætur. (EE: Guðmundur Jónsson er gamall barnamaður. — GÍG: Svo eru tengdabörnin.) Ég veit þetta fólk meinar það, sem . það segir, en engin rök eru færð máli þess til stuðnings.

Ég ætla ekki að halda fyrirlestur um þetta hér. Ég veit, að hv. þd. skilur, hvaða þýðingu það hefur að styðja að ræktun og verndun landsins. Við, sem erum í minni hl. í n., höfum ómögulega getað sannfærzt um, að hættulaust væri að selja þetta land. Verði þetta frv. samþ., hygg ég, að mesta öryggið felist í því, að hæstv. ríkisstj. mundi ekki selja þetta land, jafnvel þó að heimild yrði gefin fyrir því.