06.02.1943
Efri deild: 49. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 80 í C-deild Alþingistíðinda. (2557)

108. mál, sala á spildu úr Neslandi í Selvogi

Frsm. meiri hl. (Eiríkur Einarsson):

Aðeins örfá orð. — Hv. síðasti ræðumaður fór lofsamlegum orðum um sandgræðslustjóra og starf hans, og hef ég ekkert við það að athuga. En hann sagði enn fremur, að sér virtist dálítið harkalegt gagnvart opinberum starfsmanni ríkisins að samþ. þetta frv. Ef þarna eru nú tveir aðilar, annars vegar þessi opinberi starfsmaður og hins vegar bóndi með stórt heimili á jörð sinni, veit ég ekki, hvort á að vera næmari fyrir aðgerðum hæstv. Alþ. Ég vil ekki þurfa að deila um það. Ég álít, að hvor þeirra eigi að njóta síns fyllsta réttar, án tillits til þess, að annar kallast bóndi á þessari jörð, en hinn sandgræðslustjóri ríkisins, — án þess að skotrað sé augunum til hægri og vinstri; það kemur málinu ekkert við. — Og í sambandi við þennan trúa tjón ríkisins, sem ég efast ekki um, að megi kalla Gunnlaug Kristmundsson, þá vil ég segja það um till. hv. 1. þm. N.-M. (PHerm), að ef til þess kæmi að skipa oddamann til þess að gera athugun hér um (sbr. brtt. hv. þm. Dal. á 344), þá virtist honum (PHerm) sandgræðslustjóri vera þar sjálfsagður oddamaður. En það álít ég fjarstæðu, bara af því, að á milli Guðmundar í Nesi og sandgræðslustjóra er komin hin mesta kergja og ég hygg ærumeiðingar af hálfu hvors um sig út af þessu máli. Og þegar svo langt er komið, verður varla að vænta óvilhallrar umsagnar í þessu tilliti eftir till. hv. þm. Svona langt er nú þetta komið, að öllum viðkomandi persónum ólöstuðum.

Úr því að rætt hefur verið svo vítt um þetta mál eins og gert hefur verið og um það, hver fara muni með réttast mál, vil ég bæta því víð, að í þröngbýlinu í Selvognum hefur bóndinn í Nesi lent í landamerkjamáli við hina ágætu nágranna sína í Selvogi. Ég veit ekki betur en það hafi farið til hæstaréttar. Og ég veit ekki betur en Guðmundur Jónsson í Nesi hafi borið þar sigur af hólmi fyrir hæstarétti. Þeir, sem til þekkja, munu telja, að þessi búhöldur, sem hér á hlut að máli, sé sannorður, hvað sem þessu máli líður.