06.02.1943
Efri deild: 49. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 81 í C-deild Alþingistíðinda. (2558)

108. mál, sala á spildu úr Neslandi í Selvogi

Guðmundur Í. Guðmundsson:

Ég ætla ekki að blanda mér í deilur þær, sem orðið hafa um frv. þetta. En út af því, sem hv. 2. þm. Árn. (EE) sagði um málflutning Guðmundar í Nesi, get ég ekki setið þegjandi. Hann hefur átt í málaferlum við nágranna sina út af landamerkjum. Það er rétt, að það hafa gengið tveir dómar í hæstarétti í þessum málum, sem báðir hafa verið Guðmundi Jónssyni í Nesi í vil. Það var þræta um merki, sem þannig hafði verið frá gengið, að landamerkjastafir áttu að vera höggnir í klappir í fjörunni. Þessir stafir höfðu ekki fundizt, þegar dómar gengu í málinu. En síðan hefur verið leitað í fjörunni, og stafirnir hafa komið í ljós, þar sem þeir hafa verið grónir í kuðung og þara, bersýnilega margra tuga ára gamlir. Eftir að þeir eru fundnir, hefur komið í ljós, að dómsniðurstaðan í hæstarétti var röng og að Guðmundur Jónsson hefur gert rangar kröfur á hendur nágrönnum sínum. — Ég get ekki látið hjá líða að upplýsa þetta, úr því að hv. síðasti ræðumaður fann ástæðu til að fara að minnast á þetta mál hér.