12.03.1943
Neðri deild: 74. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 82 í C-deild Alþingistíðinda. (2570)

108. mál, sala á spildu úr Neslandi í Selvogi

Frsm. meiri hl. (Jón Pálmason):

Þetta frv. á þskj. 365 er litið frv., en er gamall kunningi í d. Það mun hafa verið á aðalþinginu 1941, að þáv. og núv. 1. þm. Árn. flutti þetta frv. Urðu um það talsverðar deilur. Var það að lokum samþ. í þessari d., en dagaði uppi í Ed. Nú er það flutt af núv. 2. þm. Árn., og hefur það gengið í gegnum Ed. Landbn. þessarar d. hefur athugað frv. og ekki orðið á eitt sátt um það. Við, sem í meiri hl. erum, lítum svo á, að þetta sé í sjálfu sér ákaflega lítið fjárhagslegt mál. Það er um það að heimila stj. að selja nokkra spildu úr Neslandi í Selvogi, sem er innan sandgræðslugirðingarinnar. Það, sem veldur, að hlutaðeigandi bóndi leggur mikið kapp á að fá þetta land, er það, að á sínum tíma var tekin af honum mjög veigamikil og þýðingarmikil fjörubeit. Nú er deilt um, hvort þetta hafi verulega þýðingu fyrir sandgirðinguna eða sé hættulegt vegna uppblásturs á þessum stað. Við, sem í meiri hl. erum, lítum svo á, að þar sem stj. getur látið dómkvadda menn meta þetta og skoða, þá sé hættulaust að samþ. frv. eins og það liggur fyrir.

Ég sé svo ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um frv. Það var rætt ýtarlega áður, þegar það lá hér fyrir, og sé ég ekki ástæðu til að endurtaka það, allra sízt þar sem hér eru nú ekki nema örfáir hv. þdm. viðstaddir, en legg aðeins til f. h. meiri hl., að frv. verði samþ. óbreytt og vísað til 3. umr.