09.12.1942
Neðri deild: 12. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 95 í C-deild Alþingistíðinda. (2582)

31. mál, alþýðutryggingar

Flm. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Þetta frv. á þskj. 45, sem ég hef leyft mér að bera fram, er um breyt. á 2. málsgr. 62. gr. l. um alþýðutryggingar. Í þeirri lagagr., eins og hún nú er, er ákveðið, að sjóðfélagar í eftirlaunasjóði starfsmanna Landsbanka Íslands og sjóðfélagar í eftirlaunasjóði Útvegsbankans skuli vera undanþegnir iðgjaldagreiðslum til Lífeyrissjóðs Íslands. En í mínu frv. er lagt til, að sjóðfélagar í Lífeyrissjóði Sambands íslenzkra samvinnufélaga skuli einnig vera undanþegnir iðgjaldagreiðslum til Lífeyrissjóðs Íslands. Þessi lífeyrissjóður Sambands íslenzkra samvinnufélaga tók til starfa fyrir um það bil 4 árum. Samkv. reglum hans geta starfsmenn sambandsins, fyrirtækja þess og sambandsfélaganna orðið sjóðfélagar. Auk starfsmanna sambandsins hafa nú starfsmenn 4 kaupfélaga gerzt félagar í þessum sjóði. Þeir greiða ákveðinn hundraðshluta af launum sínum til lífeyrissjóðsins, en þau félög, er þeir vinna hjá, leggja fram jafnháa upphæð. Samkv. reglum sjóðsins veitir hann meiri rétt til lífeyris en lífeyrissjóður Íslands.

Á l. um alþýðutryggingar er ákveðið, að allir landsmenn á aldrinum frá 16 til 67 ára séu tryggingarskyldir hjá Lífeyrissjóði Íslands, og ber þeim að greiða iðgjöld til þess sjóðs. Sú ein undantekning var þó frá þessari gjaldskyldu gerð 1936, að embættismenn og barnakennarar, sem þá borguðu iðgjöld í sérstaka lífeyrissjóði, gátu verið undanþegnir greiðslu í Lífeyrissjóð Íslands, með því að halda áfram að greiða iðgjöld til þessara sérstöku lífeyrissjóða. En nokkru seinna var þessu breytt með l., sem sett voru 1937. Þá var samþ., að starfsmenn bankanna, sem einnig greiða til sérstakra eftirlaunasjóða og hafa tryggingu í þeim, skyldu einnig undanþegnir greiðslu til Lífeyrissjóðs Íslands.

Þar sem hæstv. Alþ. hefur tekið upp þá stefnu að undanþiggja þannig frá greiðsluskyldu til Lífeyrissjóðs Íslands einstaka hópa manna, sem mynda sérstaka lífeyrissjóði, þá tel ég, að ekki verði á móti því staðið, ef fleiri verða til þess að mynda slíka sjóði og greiða iðgjöld til þeirra, að þeir fái þá sams konar undanþágu frá greiðslu iðgjalda til Lífeyrissjóðs Íslands. Ég veit, að skiptar skoðanir hafa verið um það, hvort rétt væri að veita slíkar undanþágur. En fyrst meiri hl. Alþ. hefur talið það rétt, verður ekki á móti því staðið, að fleiri heldur en starfsmenn bankanna og starfsmenn þess opinbera njóti slíkra undanþágna, ef þeir greiða iðgjöld til sérstakra sjóða á sama hátt og hinir.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð að sinni, en vil leggja til, að málinu verði, að lokinni þessari umr., vísað til 2. umr. og til hv. allshn. til athugunar.