19.01.1943
Efri deild: 36. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 103 í C-deild Alþingistíðinda. (2597)

32. mál, þingsköp Alþingis

Jónas Jónsson:

Það er nú gamalt máltæki, sem segir, að margar leiðir liggi til Róm, og ég býst við, að svo sé einnig um þetta mál, sem hér um ræðir. Sú leið, sem ég benti á, er ein af þeim leiðum, sem ég tel, að séu til þess að bæta úr þeim annmarka, sem hv. þm. vita, að er um undirbúning og prentun Alþt. En mér dettur ekki í hug að segja, að það sé eina leiðin, og tel til bóta, að sú leið sé farin, sem n. leggur til, að málið verði rannsakað af forsetum Alþ. og skrifstofustjóra. Það hefur áður verið gerð á því nokkur athugun hér að fá t.d. vélræn tæki til þess að taka ræður hv. þm. og þær væru síðan ritaðar eftir því. Þetta var athugað nokkuð síðustu friðarmánuðina, áður en stríðið skall á. Var landssímastjóri mikið við það riðinn, og ég held, að óhætt sé að fullyrða, að tilraunir hefðu verið gerðar með það, ef stríðið hefði ekki komið. Landssímastjóri átti kost á þeim tækjum, sem álitið var, að við mætti hlíta, en svo lokuðust þær leiðir. Ég vil vonast eftir, að hæstv. forsetar finni kannske eitt af þeim góðu ráðum til þess að bæta úr þessu. Allir hljóta að viðurkenna, að leiðinlegt er, að ræður hv. þm. séu óleiðréttar, og það er ekki sízt vegna þingsins sjálfs, að ég hef álitið rétt að hreyfa þessu, samhliða því sem verið er að endurbæta vinnuaðstöðu þingsins. Ég hygg, að ef farin hefði verið sú leið að prenta ekki óleiðréttar ræður, þá mundu allar ræður verða leiðréttar.

Það gæti líka verið önnur leið, að hv. þm., sem ekki leiðréttu ræður sínar, fengju ekki þingfararkaup. Hvor leiðin, sem farin væri, hygg ég að mundi lækna þetta. Því að þar sem það hefur verið siður hv. þm. að leiðrétta ræður sínar um þingtímann, þarf ekki nema lítið átak til þess að breyta tízkunni aftur í það horf. — En þar sem hv. n. hefur borið fram þessa dagskrártill., mun ég greiða atkv. með henni.