05.01.1943
Neðri deild: 25. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 100 í B-deild Alþingistíðinda. (260)

89. mál, innflutningur og gjaldeyrismeðferð

Stefán Jóh. Stefánsson:

Þegar núverandi hv. ríkisstj. lagði fram fyrir jólin frv. um breyt. á l. um dómn. í verðlagsmálum, þar sem aðal innihaldið var að halda verðlaginu í landinu föstu og loka fyrir verðbólguna, þá lýsti ég yfir því, af hálfu Alþfl., að hann teldi það virðingarverða tilraun til að byrja að gera ráðstafanir gegn vaxandi dýrtíð og reyna að opna götu til þess að draga úr dýrtíðinni og verðbólgunni. Auk þess gat ég þess, að ég liti á þá löggjöf aðallega sem form, en framkvæmdirnar væru aðalatriðið. Svipað má segja um það frv., sem hér liggur fyrir. Þar er lagt til, að lögboðið sé nýtt form um meðferð verðlags- og gjaldeyrismála þjóðarinnar, form, sem að mínu áliti er skynsamlegra en það, sem nú er í gildi, þar sem þau mál eru nú í höndum margra n., en eru hér sameinuð undir einn hatt, Viðskiptaráðið. Um þetta er frá mínu sjónarmiði ekki hægt að segja annað en gott eitt. Það er tilraun til að haga verkum á hagkvæmari og skynsamlegri hátt en áður hefur verið gert. En ég kem aftur að því, að þetta er að mestu leyti form, og á innihaldinu veltur gildi þess. Það veltur t.d. á því, hvaða menn verða valdir og hvernig þeir rækja þau störf, með hvaða hugarfari og hvaða vilja. Það veltur einnig á því, hvernig þeir velja sér aðstoðarmenn og á hvern hátt ríkisstj. hugsar sér að styðja þá til þess að gera það, sem rétt er og nauðsynlegt. Það hefur oft verið fylgt þeirri reglu, þegar menn hafa verið valdir í n. sem þessar, að þær hafa verið valdar af Alþ. sjálfu, að meira eða minna leyti. Nú leggur hv. ríkisstj. til, að hún velji þá sjálf. Í raun og veru er þetta skiljanlegt frá sjónarmiði ríkisstj. En hún bindur sér með því meiri og þyngri bagga en ef hinni reglunni væri fylgt. Hv. ríkisstj. er byggð þannig, að hún hefur ekki stuðning neins meiri hluta í þ. eða neins flokks. Afstaða þ. til ríkisstj. hlýtur því að fara eftir því, hvernig henni tekst að leysa þetta starf af höndum og velja menn til að framkvæma ráðagerðir hennar. Við höfum reynslu af ýmsum n., sem hafa átt að fara með framkvæmd opinberra mála. Við könnumst t.d. við verðlagsn. Hún var að vísu skipuð með l. og eftir útnefningu sérstakra aðila, en svo tókst til, að n. varð á þann veg, að svo sterk voru þau öfl í n., sem höfðu meiri áhuga á því að halda uppi verðinu en að halda því niðri, að eftirlitið varð nauðalítið og kom að litlu liði. Þetta er bending til hv. ríkisstj. henni til varnaðar, þegar hún fer að skipa Viðskiptaráðið. Það veltur einmitt mikið á því, að það séu hæfir menn, sem hafi þá hugsun bak við sitt starf að halda niðri verði á nauðsynjavörum almennings, þeim sem fluttar eru inn. Það má segja, að Viðskiptaráði séu ætluð störf þriggja n. Þau, sem greinir fl., 3. og 4. tölul. 2. gr., voru áður í höndum innflutnings- og gjaldeyrisn. Þau, sem greinir í 6. lið, voru fyrst í verðlagsn. og síðar í dómn. í verðlagsmálum. Og enn fremur eru þau mál, sem hafa heyrt undir skömmtunarskrifstofu ríkisins, lögð undir Viðskiptaráðið. Nú skilst mér af hv. fjmrh., að fleiri ráðstafanir séu á döfinni, og varðar það að sjálfsögðu miklu um afstöðu Alþ. til þessa frv., hvað framhaldið verður af hálfu ríkisstj. á sama sviði. Það er því álit mitt, að það væri æskilegt, að ríkisstj. kæmi fram með þau mál, áður en búið er að afgreiða þetta frv. Vera má, að afstaða manna til þess frv. kynni að mótast af því, hvernig áframhaldandi lögg jöf er hugsuð.

Eftir frv. að dæma er ætlazt til, að Viðskiptaráð sé mjög sterk n. með mikið og sérstaklega ábyrgðarmikið starf. Ég kem þá aftur að því, að það er á valdi ríkisstj., hvort ráðið verður vel skipað, og á því veltur mjög mikið, að svo verði.

Ég vil ekki fara neitt ýtarlega út í einstök atriði frv. á þessu stigi, þar sem það á eftir að fara til n. og finnst mér sjálfsagt, að þ. greiði fyrir því, að það fái skjóta afgreiðslu.

N. gefst kostur á að kynna sér frv. og leita sér upplýsinga um einstök atriði þess hjá ríkisstj. Sumir þættir þess verkssviðs, sem frv. nær yfir, verða ekki raktir svo, að tilganginum sé náð nema til þess veljist sérstaklega hæfir trúnaðarmenn. Það væri kannske hægt að fá hér upplýsingar hjá hv. ríkisstj. um það, hvernig hún hugsar sér viðbótarskipun þessara mála.

Það má segja, að tvö ný verkefni séu falin Viðskiptaráði í viðbót þið þau, er n. hafa áður farið með. Annað er notkun skiprýmis og hitt er heimild til að flytja inn nauðsynjavörur, ef þörf gerist. Viðskiptamálaráðuneytið mun hafa haft nokkuð eftirlit með því, hvernig skipsrúm var notað, þó að ég álíti nauðsynlegt að gera meira í þá átt, álít ég eðlilegt að samrýma það, og er þess vegna ekki nema gott eitt að segja um það, að Viðskiptaráðinu skuli vera falið þetta starf.

Hv. fjmrh. minntist á það í sambandi við 5. lið, að það væri ekki meiningin að stofna til landsverzlunar og ekki yrði gert neitt í þá átt nema að beinu fyrirlagi ríkisstj. Ég ætla ekki á þessu stigi málsins að fara að koma með með rök eða mótrök varðandi landsverzlun eða innflutningi á eina hönd, en það má sjá á frv. frá hv. ríkisstj., að hún ætlar ekki að fara inn á þá braut að fela einni stofnun að fara með innflutning til landsins. Ég skal svo geta um það, að í 3. gr. frv. er gert ráð fyrir því, að ákveðið verði, á hvern hátt verði varið gjaldeyrisverzlun, og Landsbanki Íslands á einn að hafa kaup á erlendum gjaldeyri. Þetta er breyt. Tveir bankar, báðir að vísu þjóðbankar, Landsbankinn og Útvegsbankinn, hafa samkv. gildandi l. rétt til að verzla með erlendan gjaldeyri. Ég vil segja fyrir mitt leyti og án þess að vilja vekja deilur, að ég sé enga ástæðu til að breyta þessu. Hins vegar finnst mér eðlilegt að ákveða hlutfall milli bankanna, en um þetta atriði er bezt, að n. ræði við hv. ríkisstj.

Ég skal svo ekki hafa orð mín fleiri. Það er ekki nema gott um það að segja, að gerð skuli vera tilraun til að „centralisera“ störf þau, er hingað til hafa verið dreifð með ýmsum n. Ég endurtek, að mér finnst formið skynsamlegt, en að allt veltur á því, að réttir menn séu valdir til þess að fara með þetta mikla hlutverk.