16.12.1942
Efri deild: 15. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 106 í C-deild Alþingistíðinda. (2602)

57. mál, alþýðutryggingar

Flm. (Brynjólfur Bjarnason):

Ég hef í raun og veru ekki aðrar aths. við ræðu hv. 3. landsk. að gera en að þakka honum fyrir góðar undirtektir í þessu máli, og vil endurtaka það, að ég er reiðubúinn til þess að taka til vinsamlegrar athugunar allar brtt., sem fram kunna að koma, og er þakklátur fyrir, ef ég má eiga von á að fá að njóta hans aðstoðar, þar sem hv. þm. (HG) hefur meiri þekkingu í þessu efni en flestir aðrir.

Viðvíkjandi nokkrum aths., sem hv. síðasti ræðumaður gerði, vildi ég segja það í fyrsta lagi við aths. hans um það, að hann taldi það öfgar, að það skipti hundruðum milljóna, sem sjóðurinn þyrfti að vera til þess að geta staðið við skuldbindingar sínar, að ég hef ekki reiknað þetta út nú. En eftir þeim lauslega útreikningi, sem ég gerði um þetta í fyrra, þá taldist mér svo til, að þá þegar hefði þurft að telja sjóðinn í hundruðum milljóna, þannig ef borgað hefði verið eftir þessu frv., sem hér liggur fyrir, þá hefði það orðið eitthvað hátt á þriðja hundrað millj. kr., sem til þess hefði þurft, að vextir af þeim sjóði nægðu til þess að standa við þær skuldbindingar.

En viðvíkjandi þeim lauslegu áætlunum hv. 3. landsk. um það, hvaða tekjur sjóðurinn þyrfti að hafa til þess að geta staðið við þær skuldbindingar, sem lagt er til í þessu frv., að samþ. verði viðkomandi sjóðnum, þá held ég, að þar sé um misskilning að ræða. Í 3. gr. frv. er átt við öll gamalmenni, sem eru yfir 67 ára, og alla þá öryrkja, sem hafa misst það mikið af starfsorku sinni, að þeir hafa rétt til lífeyris. Þetta er allt miðað við fullan lífeyri. Það getur vel verið, að það þurfi að breyta orðalaginu á gr. til þess að koma í veg fyrir misskilning. En þegar sá skilningur, sem ég nú gat um, er lagður í þetta, þá er ætlun mín, að ekki muni miklu, að áætlunin standist. Því að þetta framlag frá bæjar- og sveitarsjóðum og ríkissjóði nægir til þess að greiða 50% af fullum lífeyri til gamalmenna og öryrkja, sem greiða þyrfti. Við þetta bætast svo tekjur af iðgjöldum og vöxtum. Þar að auki kemur til. greina nokkur lækkun, sem leiðir af því, að nokkur hluti þessara öryrkja og gamalmenna eru hjón.

Ég er sammála hv. 3. landsk. þm. um það, að það sé nauðsynlegt í sambandi við þetta að endurskoða kaflann í alþýðutryggingal. um elli- og örorkutryggingar, og raunar álít ég, að það þurfi að endurskoða lögin í heild sinni, — við erum þar víst alveg sammála. En ég held, að það megi ekki dragast og það sé alveg óforsvaranlegt, að það dragist að láta IV. kafla alþýðutryggingal. koma til fullrar framkvæmdar. Og ég held, að það væri hentugra, áður en gagnger endurskoðun færi fram á l., að nokkur reynsla fengist á þá breyt., sem ég tel, að þurfi sem fyrst að gera á I. og frv. þetta stefnir að. Ég held líka, að það gæti komið til greina að endurskoða nú þegar ýmis ákvæði laganna, t.d. ákvæðin um frádrátt þeirra tekna, sem gamalmenni og öryrkjar hafa sjálfir, frá lífeyrinum, — eins og hv. 3. landsk. þn1. tók fram.