07.01.1943
Efri deild: 26. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 109 í C-deild Alþingistíðinda. (2614)

73. mál, jarðræktarlög

Hermann Jónasson:

Það hefur svo oft verið rætt um þessa 17. gr., sem mikill meiri hl. bænda var upphaflega fylgjandi, að tæpast er ástæða til að taka upp langar umr. um hana. En mér finnst ástæða til þess, áður en þetta mál fer í n., sem eðlilegt er, að það fari, að benda á, að það eru önnur lagaákvæði um fylgifé en í 17. gr., ákvæði, sem eru hættulegri en 17. gr. í augum þeirra, sem telja hana hættulega. Þessi ákvæði þarf ég ekki að rekja, þm. eru þau svo kunn. En það er þó full ástæða til að taka þessi ákvæði öll til yfirvegunar og samræmingar. Og menn hafa fundið til þessa almennt, bæði hér í Alþingi og einnig á búnaðarþinginu, að slíks væri þörf. Hefur verið mjög nærri, að samkomulag næðist á búnaðarþingi um samræmingu ákvæða og nokkrar breyt. frá því, sem nú er. Mér finnst sjálfsagt, að n., sem fær þetta mál til athugunar, sem að sjálfsögðu verður landbn., vísi þeirri áskorun til búnaðarþings, að það hraði endurskoðun sinni á þessum ákvæðum. Virðist mér þessi afgreiðsla á málinu eðlilegust. Ég býst við, að mér mundi þykja vel hlítandi við að sættast á þá afgreiðslu, sem yrði samkomulag á búnaðarþingi. Með því væri hlítt þeirri sömu reglu og um önnur ákvæði, sem deilt hefur verið um. Búnaðarþingið gerði samkomulag um breyt., sem síðar var afgr. hér.