07.01.1943
Efri deild: 26. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 109 í C-deild Alþingistíðinda. (2615)

73. mál, jarðræktarlög

Flm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Það virðist eiga að taka hér upp langar efnislegar umr. um þetta mál, en ég ætla ekki langt út á þá braut. Ég verð þó fyrst að svara hv. 3. landsk. því, að ég átti ekki einu sinni von á því frá honum og flokksmönnum hans, þótt ég viti að 17. gr. er óskabarn þeirra, að svo yrði harkalega snúizt gegn þessu máli, að ekki mætti einu sinni fara fram athugun á því, heldur skyldi skera það niður við 1. umr. En þar sem hv. þm. Str. minntist á, að til væru fleiri styrkir, sem væru athugandi um, hvort ekki ætti að fara með á sömu leið og jarðræktarstyrkinn, nefnilega að losa kvaðir frá styrknum, þá er ég á sama máli. En við flm. álitum réttast að kanna leiðina með þessu frv., hvernig vilji Alþ. væri. En náttúrlega er sjálfsagt, að landbn. taki til athugunar, hvort ekki eigi að afnema þær kvaðir, sem fylgja húsabyggingastyrk og nýbýlastyrk. Ég býst við, að hv. þm. hafi aðallega átt við þetta tvennt. Ekki skal standa á mér í þeim efnum, þó að við kvæðum ekki upp úr með það í frv. Og satt að segja eru þessi ákvæði að litlu höfð. Ég hef aldrei orðið var við, að nokkur ákvæði væru sett í kaupsamning um fasteignir viðvíkjandi þessari kvöð, þó að það hafi farið fram mat á fylgifénu svo kallaða. Það er kannske ekki rétt af mér sem embættismanni að hafa ekki athugað þetta. Ég hygg það sé svo um fleiri, sem innfæra slíka samninga, að þeir athuga ekkert um það. Og reyndar veit ég ekki til þess, að nokkurs staðar á landinu hafi þessa ákvæðis verið gætt. Sem sagt, þetta virðist vera úrelt og að engu haft. Og það játa ýmsir af fylgismönnum þessa ákvæðis, að það hefur ekki náð tilgangi sínum. Skal ég lofa að taka til athugunar hina aðra styrki, hvort ekki sé hægt að fá samkomulag um að losa kvaðir, sem þeim fylgja.