07.01.1943
Efri deild: 26. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 110 í C-deild Alþingistíðinda. (2617)

73. mál, jarðræktarlög

Hermann Jónasson:

Það er rétt að komast hjá því að hafa langar umr. um þetta mál. Ef á að afnema ákvæði, sem geta verið hættuleg og skaðleg eignarrétti lænda á jörðum, þá er að byrja á öfugum enda, þegar 17. gr. er tekin. Um fylgiféð samkv. síðasta fasteignamati er það að segja, að fylgiféð samkv. nýbyggingarl. og samkv. l. um endurbyggingarstyrk sveitabæja er verulega hærri fjárhæð heldur en fylgiféð samkv. 17. gr. jarðræktarl. Og það er gott, að sú n., sem fær þetta til athugunar, hafi það í huga, að ákvæðið í 17. gr. er þannig, að endurbætur eru metnar á sama tíma og mat á jörðum fer fram. En þar eru dregnar frá þær fyrningar, sem verða á þessum mannvirkjum, túnasléttum, sem ganga úr sér, húsum og hlöðum. Og þannig smátt og smátt hverfur jarðræktarstyrkurinn sem fylgifé, jafnótt sem mannvirkin, sem fyrir hann eru unnin, fyrnast, og að lokum hverfur upphæð styrksins með öllu. En viðvíkjandi því fylgifé, sem ákveðið er samkv. nýbyggingarl., varir alltaf sú upphæð, sem ríkið lagði fram í upphafi. Og það mun vera svipað ákvæði í l. um endurbygging sveitabæja. Það má því fullyrða, að jarðræktarstyrkurinn vaxi sem kvöð, en minnki ekki sem kvöð, ef ekki væri annað að gert en aðeins að fella niður 17. gr. Þessu atriði verður sú n., sem fær þetta mál til meðferðar, að gefa gaum, og ég held, að það sé skakkt af okkur að vera að gera 17. gr. að pólitísku þrætuefni í þessu landi. En það er hins vegar rétt, að 17. gr. hefur að vissu leyti orkað tvímælis og þarf endurskoðunar við, fyrir því verður að beygja sig. En það er ekki aðeins 17. gr. þessara laga, sem þarf endurskoðunar; heldur öll löggjöfin í heild. Þetta ákvæði (17. gr.) var sett til þess að halda niðri verðlagi á jörðum, og það er aldrei nægilega unnið að því að halda verðlagi á þeim niðri, því að það er fyrsta og einasta undirstöðuatriðið undir íslenzkum landbúnaði.