05.02.1943
Efri deild: 48. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 113 í C-deild Alþingistíðinda. (2624)

73. mál, jarðræktarlög

Frsm. meiri hl. (Páll Hermannsson):

Þegar hv. 1. flm. þessa frv. mælti hér fyrir því í hv. d., er það var lagt fram, þá gat hann þess, að efnislegar umr. um 17. gr. þyrftu varla að fara fram, það væri svo margrætt mál. Ég er honum sammála um þetta. Ég hugsa, að það séu fá lagaákvæði, sem oftar hefur borið á góma á síðustu þingum. Þegar á það er litið, að þetta mun í 7. sinn, síðan þessi I. voru sett fyrir eitthvað 7 árum, sem svipuð frv. þessu hafa verið borin fram, þá er þetta auðskilið, þrautrætt mál.

Ég ætla því að halda mér við skoðun hv. 1. flm. og ræða ekki um lagagr. þessa, nema tilefni gefist til, heldur skýra frá niðurstöðum meiri hl. landbn. Í hvert skipti, sem frv. þetta hefur verið lagt fyrir Alþ., þá hefur landbn. klofnað um það og alltaf með þeirri afleiðingu, að málið hefur ekki fengið jákvæða afgreiðslu. Hve oft það hefur verið fellt og hve oft það hefur dagað uppi, man ég ekki.

Meiri hl. landbn. lítur enn svo á, að þetta mál eigi ekki að samþykkkja. Þó að hann líti svo á, þá er ekki þar með sagt, að ekkert eigi að aðhafast, heldur tryggja enn betur tilgang þessa lagaboðs og annarra líkra. Það er kunnugt, að til eru fleiri lík lagafyrirmæli, er stefna að því marki að láta ábúendur jarðanna njóta jarðræktarstyrksins, að láta umbætur ekki vera seljanlegar með húsum og jörð, svo að styrkurinn hækki ekki beinlínis verð jarðanna.

Sams konar fyrirmæli eru í l. um nýbýli og samvinnubyggðir og l. um framlög ríkisins til endurbygginga á sveitabýlum og víðar.

Meiri hl. er sammála um, að öll þessi lagafyrirmæli eigi að athuga samtímis og gera á þeim þær breytingar, sem hv. Alþ. álítur nauðsynlegar til þess, að þau nái sem allra bezt tilgangi sínum og betur en verið hefur. Enn fremur lítur meiri hl. svo á, að Búnaðarfélagið og búnaðarþing teljist eðlilegur aðili að undirbúningi þessara breytinga.

Núna þessa dagana er búnaðarþingið að setjast á rökstóla, og e.t.v. fær þetta mál þar afgreiðslu.

Vegna þess að við álítum rétt, að þetta sé allt athugað, viljum við ekki fella frv., heldur sýna hug okkar með því að víkja því aðeins frá með dagskrá. Ef hún fæst ekki samþ. þá mun meiri hl. verða að greiða atkv. móti frv.

Ég ætla svo ekki að ræða þetta meira að sinni. Frsm. minni hl. (Þorsteinn Þorsteinsson): Við tveir, sem erum í minni hl. landbn., lögðum ákveðið til, að frv. þetta yrði samþ. óbreytt. Ég gerði ráð fyrir, að við yrðum ekki í minni hl., og kom mér það dálítið kynlega fyrir sjónir, hvernig skipaðist í n.

Nál. meiri hl. kom mér þó enn þá kynlegar fyrir sjónir. Þar segir t.d., að 17. gr. eigi að stuðla að því, að ábúendur njóti umbóta á jörðinni sér að kostnaðarlausu. Ég held þó, að ábúandinn verði að greiða skatta og skyldur af fylgifénu meðan hann hokrar, þó að hvorki njóti hann umbótanna, ef hann selur eða fer af jörðinni.

Þá gefur nál. í skyn, að við munum ekki kæra okkur um að aflétta kvöðum byggingarstyrkjanna. — Þetta er alveg rangt. Ég lýsti því yfir, að ég vildi og mundi bera fram þá breyt., að þeir hefðu ekki kvaðir í för með sér. En afnám 17. gr. var prófsteinn á vilja n. í þessum efnum. Ég ætlaði að bera hitt fram í sérstöku frv., ef leiðrétting fengist á henni, því að þar er verið að breyta öðrum l., og er það réttara með öðru frv. En er ekki náðist samkomulag í n. um 17. gr., þá sá ég ekki til neins að bera þetta fram nú. Það er alltaf hægt síðar.

Þá er í dagskránni skýrt fram tekið, að tryggja verði, að 17. gr. og aðrar styrkkvaðagreinar nái tilgangi sínum, nefnilega auknar kvaðir.

Mér kemur kynlega fyrir, ef nú á að fara að herða enn meira á böndunum. Ég beini máli mínu til hv. þm. Str., sem er hér staddur og hefur gefið yfirlýsingu þess efnis, að hann væri þeirri stefnu ekki samþykkur. Ég trúi því nú ekki, að hann greiði atkv. með því að herða á böndunum. Ég læt segja mér það tvisvar og þrisvar sinnum, áður en ég trúi því, að hann greiði atkv. með dagskránni.

Ég hélt, að metnaður bænda væri svo mikill, að þeir vildu ekki halda fast í þetta atriði. Það mætti segja, að þetta sé áróðursmál og sumir halda því fram. En ég er ekki neinn Jón Eyþórsson í pólitík. Ég vil taka þetta mál fyrir nú á þessu þingi, þótt hv. þm. segði, að það væri búið að koma fram sjö sinnum. Því að verið gæti, að það kæmi fram ekki sjö sinnum, heldur sjö sinnum sjö sinnum enn þá, ef það nær ekki fram að ganga í þetta sinn.

Við, sem viljum afnema þau ákvæði, sem gera það að verkum, að bændur gera minni framkvæmdir og hætta jafnvel við framkvæmdir, sem þeir voru byrjaðir á, munum ekki hætta fyrr en við fáum þessu kippt í lag.

Ég tel það mikið misrétti, að sumir fái styrk til framkvæmda kvaðalaust, en aðrir ekki. Það hafa verið veittir styrkir til landþurrkunar, fyrir utan jarðræktarstyrkinn, án kvaða. Styrkir hafa verið veittir til húsabygginga kvaðalaust. Til lendingarbóta hafa verið veittir hlutfallslega hærri styrkir en byggingarstyrkir samkv. jarðræktarl. og landnámsl. Þetta tel ég einnig mikið misrétti. Einnig hafa verið veittir styrkir til byggingar verkamannabústaða, en kvaðir aðeins lagðar á fyrstu eigendur.

Nú er einnig hér í deildinni frv., sem hefur feikna útgjöld í för með sér. Það er farið fram á, að styrkir til báta- og skipasmiða verði allt upp í 25%, kvaðalaust.

Þegar hús úr steini eða öðru varanlegu efni eru byggð í sveitum, þá er það eign, sem verðmæt er fyrir landið og miðar að því að auka framleiðslu- og afkomumöguleika fólksins. En þegar skip eru byggð og ef til vill seld úr landi síðar eða þau farast, þá fer styrkurinn þar með forgörðum. Það er misrétti fólgið í þessu, þótt margir þm. vilji halda í það. Ég held, að það sé af þráa, ég vil ekki segja sauðþráa. Bændur hafa ekki nógu góð sambönd með sér til þess að fá þetta lagfært.

Þeir eru margir hér, sem vilja, að jarðirnar hverfi úr eign bænda og til ríkisins, og finnst mér lifa hér í gömlum glæðum í þessu efni.

Mér finnst, að framsóknarmenn hafi verið hraktir mjög til vinstri. Þeir hafa streitzt við það kófsveittir að lafa í verkalýðsflokkunum lengi vel. Þó fór svo, að nokkrir þeirra leystust úr læðingi, en nú virðist þó vera búið að drepa þá í dróma. Með ákvæðum 17. gr. virðist ætlun þessara manna vera að draga jarðirnar úr höndum bænda, en sem kunnugt er, þá er það vilji sósíalista. Ég hélt, að framsóknarmenn væru búnir að fá nóg af samstarfinu við þessa hálfbræður sína. En það er eins og máltækið segir: Þangað sækir klárinn, sem hann er kvaldastur, — og má segja það um þessa menn.

Sumir þm. þessa flokks hafa gerzt liðhlaupar í þessu máli, segja eitt við kjósendur sína, en annað, þegar komið er á þingið, og virðast nú vil ja herða á ákvæðum 17. gr.