05.02.1943
Efri deild: 48. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 118 í C-deild Alþingistíðinda. (2629)

73. mál, jarðræktarlög

Frsm. minni hl. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Það er nú svona, að það hefur alltaf verið gott á milli okkar hv. 1. þm. N: M. (PHerm) og oft verið leyniþræðir okkar á milli, og ég held, að það geti verið enn þá. Hann talar um, að aukizt hafi mjög mælska mín, en mér virðist hins vegar, að við þann kipp, sem ég hef fengið í því efni, hafi að sama skapi sljóvgazt skilningur hv. 1. þm. N.-M. og heyrn til mín nú um stund. En ég ætla að láta aðra dæma um þetta fremur en sjálfan mig.

Ég ætla ekki að lengja mál mitt mjög mikið, en vil aðeins leiðrétta, vegna þessarar sljóvgunar hv. þm., atriði, sem hann fór ekki rétt með, sem stafar annaðhvort af misskilningi eða misheyrn. Hv. þm. sagði það, að ég hefði mjög hneykslazt út af því, að þeir yrðu að borga gjöld af fylgifé jarða, sem byggju á jörðunum. Að sjálfsögðu gera þeir það. En ég hneykslaðist á því, að í nál. segir, að ábúendur eigi að njóta í framtíðinni sér að tilkostnaðarlausu þeirra umbóta, er jarðræktarstyrkurinn einn hefur orsakað. En úr því að þeir borga alla skatta og skyldur af þessu fylgifé, sé ég ekki, að þeir geri það sér að kostnaðarlausu. Þetta sér hver maður. En hv. 1. þm. N.-M. hefur nú sjálfur skrifað þetta, og hann má ekki renna frá því raupi.

Þá minntist hv. 1. þm. N.-M. á, að fleiri bændur vildu telja 17. gr. gagnlega. Það getur verið, að það sé einhvers staðar á Austf jörðum, t.d. í úthéraði þar. En annars er það yfirleitt ákaflega óvíða, sem bændur telja meira gagn að því að hafa hana heldur en ekki. Það getur annars vel verið, að við fyrri umr. málsins hafi einn hv. þm. minnzt á, að í einu kjördæmi séu fleiri kjósendur með 17 gr. heldur en móti, en yfirleitt er því ekki treystandi, að þroski sé að aukast á þeim svæðum, þar sem svoleiðis horfir.

Ég var alls ekki að tala um, að það væri tjón fyrir bændur, að jarðir lækkuðu í verði, og er það enn einn misskilningur hjá hv. 1. þm. N.-M. (PHerm: Er það þá ekki gagnlegt?). En við erum sammála um, að 17. gr. megnar ekki að halda niðri jarðaverðinu, — hún hefur sýnt það. En hv. þm. hefur heyrt, að ég var einmitt að tala um það við hv. þm. Str. (HermJ), að ég væri tilbúinn til að athuga með honum það atriði, hvort ekki væri hægt að hafa áhrif á það að halda verði á jörðunum niðri. Og ég harmaði það, að e.t.v. hefði verið stigið óheillaspor með því, að við gátum ekki sameinað okkur um söluskattinn, því að þá hefði getað farið allt öðruvísi nú á stríðstímanum, ef það hefði verið gert.

Það getur nú farið svo, að búnaðarþing fái að segja eitthvað um þetta mál, og ég hef ekkert á móti því. Samt sem áður held ég, eins og hv. 1. þm. N.-M., að búið sé að ræða málið nóg á hæstv. Alþ. til þess að hv. þm. geti tekið afstöðu um það úr þessu.