05.01.1943
Neðri deild: 25. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 106 í B-deild Alþingistíðinda. (263)

89. mál, innflutningur og gjaldeyrismeðferð

Ólafur Thors:

Ég sé ekki ástæðu til að fara ýtarlega út í þetta frv. nú við þessa umr., kannske einkum vegna þess, að frv. hefur þegar við þessa umr. verið allmikið skýrt bæði af hendi hæstv. stj. og þeim þm., sem um það hafa talað. Ég tel, að við þær umr. hafi komið fram bæði kostir og lestir frv. í aðalatriðunum, og það er tilgangurinn með 1. umr. málsins, að hún verði til leiðbeiningar þeirri n., sem um málið fjallar. Slík gagnrýni hefur komið fram, og þá er aðalatriðið, að upplýsingar liggi fyrir, en ekki, frá hvaða mönnum eða flokkum þær eru fram færðar.

Ég er út af fyrir sig sammála því, sem hv. 2. þm. S.-M. sagði, að þegar ný verkefni hefur borið að höndum vegna erlendra áhrifa, þá hefur verið hugsað meira um að setja á fót stofnanir til að leysa það, sem kallaði að þá í augnablikinu, heldur en að hafa hugfast, á hvaða hátt væri hagkvæmast að leysa þessi mál í heild. Þess vegna er rétt í þessu sem öðru, þegar dómur reynslunnar fellur, að hagnýta hann og fær a til betri vegar sem hægt er. Ég tel sem sagt, að þetta sé kostur á frv. Hitt kann svo að vera, að megi gagnrýna, hvort of mikið vald sé hér lagt í hendur fárra manna. Í því felst að sjálfsögðu sú hætta, að þegar þessir menn eiga að vinna verk, sem allmiklu fleiri menn áður hafa unnið, þá verði þeir að fela deildarstjórum eða umboðsmönnum að vinna svo og svo mikið af því verki, sem hér á að fela Viðskiptaráðinu, og þá veltur auðvitað mjög mikið á því, hvernig þetta mannaval tekst.

Ég hef talið, að eftirlit með ráðstöfun farmrýmis hafi verið mjög mikið bæði af hálfu hv. 2. þm. S.-M. og hv. 3. þm. Reykv., á meðan þeir fóru með þessi mál. Og ég þykist hafa góðar heimildir fyrir því, að ráðuneytið hafi jafnan ákveðið, hvaða vörur mætti flytja með hverju skipi. Ég get því ekki talið, að neitt nýmæli felist í 2. lið 2. gr., og svipuðu máli gegnir um 5. liðinn, eftir að hæstv. fjmrh. hefur lýst yfir því, að meðan hann fer með þessi mál, muni ekki verða til þessarar heimildar gripið, ef sómasamlega sé séð fyrir innflutningnum á allan hátt. En þótt hér sé ekki um mikil nýmæli að ræða, er ekki því að neita, að valdið liggur hér óskiptara í höndum eins aðila en áður, að því leyti sem hann ræður við verkefnið.

Um það, hvernig skipa skal þetta Viðskiptaráð og hver eigi að skipa það, skal ég ekki vera margorður. Eins og hv. 2. þm. S.-M. sagði áðan og hv. 2. þm. Reykv. áréttaði, er hér að ræða um mikil völd í höndum einstakra manna. Má Alþ. sannarlega fara að athuga, hvar það stendur, ef n., sem ekki er kosin af Alþ., heldur af ríkisstj., sem er ekki sjálf skipuð af Alþ., er fengið meira vald en nokkurri annarri n., sem hér hefur starfað. Ég skal að vísu játa, að ætti ég að taka að mér þann vanda, sem ríkisstj. er á hendur falinn, á þessum örlagaríku tímum, þá mundi ég vilja ráða nokkru um það, hvernig skipulag væri haft á þessum málum og hverjir stæðu fyrir því skipulagi. Þessi afstaða hæstv. ríkisstj. er því engan veginn óeðlileg. En eigi að síður bendi ég á, að slík nefndarskipun af hálfu stj. hlýtur að verða Alþ. hvatning til að athuga sinn gang. Hins vegar býst ég við því, að þetta mál fái góðar viðtökur sem aðrar málaleitanir þessarar hæstv. stj. Afstaða mín og míns flokks til hennar markast af þeirri von okkar, að hún hafi betri aðstöðu en flokksstj. til að koma málum fram, eins og nú er ástatt. Flokkurinn vill því styðja málstað hennar, án þess þó að skuldbinda sig til að fylgja öllum þeim málum, er hún kann að bera fram. En að því er þetta frv. snertir, tel ég, að það leysi engan veginn úr öllum vanda á þessu sviði, þó að það geti vel orðið til bóta, sérstaklega ef vel tekst til um mannaval.

Hæstv. ráðh. sagði, að svo væri komið, að við yrðum að haga innflutningi til landsins eftir þeim skipakosti, sem við höfum nú yfir að ráða, og hann gerði ekki betur en fullnægja helmingi af innflutningsþörf landsins. Sé þetta rétt, þá hljóta að hafa skapazt nýir örðugleikar upp á síðkastið, því að þótt stundum hafi verið nokkuð erfitt um skipakost að undanförnu, hefur alltaf úr rætzt að lokum. Og ég tel það ekki í samræmi við þann samning, sem gerður var við Bandaríkjastj., eða þau fyrirheit, sem forseti Bandaríkjanna gaf Íslendingum í sambandi við herverndina, ef ekki er betur séð fyrir innflutningsþörf landsmanna en þetta. En hvað sem líður bókstaf þess samnings, þá er það ekki okkar að gefa út neins konar opinberar yfirlýsingar um tilslakanir í þessum efnum.

Ég hef vitanlega ekkert á móti því, að varlega sé farið um innflutning til landsins. Hins vegar höfum við sjálfstæðismenn ekki talið minna um vert að afla fanga til landsins en tryggja sér auknar innstæður erlendis, og má þess minnast, að um þetta urðu nokkrar deilur í þjóðstj. gömlu. Það getur varla verið álitamál, hvort meira muni vera um vert að afla sér fjórðu hundrað milljónanna erlendis eða tryggja landinu nægar vörubirgðir, þótt sumir hæstv. ráðh. kalli mest af því, sem inn er flutt, skran. Á síðasta ári fluttum við inn vörur fyrir 83 millj. kr. umfram það, sem inn var flutt árið áður, að mig minnir. Og þegar ég renni augunum yfir innflutningsskýrslurnar, kemst ég upp í 80–90 millj. kr., sem varið hefur verið til kaupa á því, sem ég kalla nauðsynjavöru. Um það má auðvitað deila, hvort erlendur fatnaður sé skran eða ekki, en þó tel ég, að ekki geti talizt óhóf, þó að þjóð, sem búið hefur við þvílíka fátækt skæða og klæða sem Íslendingar, geri kröfu til að geta gengið sæmilega til fara á stórhátíðum. Um bækur kunna líka að vera skiptar skoðanir, en ég vil ekki telja þær skran. Vissulega verður að gæta varúðar um innflutninginn. En meðan við söfnum tugum milljóna í erlendu innistæðufé, veit ég ekki, hve mikil verzlunarspeki það er að kosta kapps um það eitt að auka innistæðuna enn að miklum mun í stað þess að flytja til landsins sem mest af vörum, svo fremi að þar sé ekki um að ræða hreinan óþarfa.

Ég hef ekki skýrslur um það, hve miklu muni nema kaup erlendra manna á því, sem flutt er til landsins og greint er á verzlunarskýrslum, en ég tel ekki ólíklegt, að það sé mikil upphæð. En það liggur í hlutarins eðli, að fyrir þá vöru fáum við erlendan gjaldeyri, sem kemur hvergi fram á verzlunarskýrslum. Verzlunarskýrslurnar gefa því að þessu leyti ranga mynd af málavöxtum.

Þó að ég vilji alls ekki, að við týnum niður virðingunni fyrir gjaldeyrinum, tel ég engan veginn sjálfsagt, að alltaf sé betra að eiga gjaldeyrinn en vöruna, að minnsta kosti ekki eins og nú horfir við um aðdrætti til landsins.

Ég skal svo ekki hafa um þetta fleiri orð, en vænti þess, að málið fari til n. að lokinni þessari umr.