05.02.1943
Efri deild: 48. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 119 í C-deild Alþingistíðinda. (2630)

73. mál, jarðræktarlög

Hermann Jónasson:

Herra forseti. — Ég ætla ekki að lengja þessar umr., enda hefur hv. þm. Dal. (ÞÞ) ekki tækifæri til að svara. Og hann er nú ekki lambið að leika sér við nú, því að hann hefur gefið ótvírætt í skyn, að hann sé búinn að sjúga í sig mikið af viti hv. 1. þm. N.-M. (PHerm) (ÞÞ: Mælskuna.), og það er því ekki þægilegt að eiga við hann.

Hv. þm. Dal. hefur verið að tala um, að 17. gr. jarðræktarl. hafi ekki getað haldið niðri jarðaverðinu. Ég hef aldrei haldið því fram, að 17. gr. væri nægileg til þess að halda niðri jarðaverðinu, enda er fylgifé jarðanna hverfandi lítill hluti af verði jarða. Það er ekki nema nokkur prósent, 3, 4 eða 5% af jarðaverðinu. Og það getur vitanlega ekki ráðið neinu verulegu um söluverð jarðanna. Hinn hlutinn getur margfaldazt í verði. En ákvæði 17. gr. eiga að ráða því, að sá hluti, sem ríkið hefur lagt í jarðirnar, sé ekki seldur. Og ég vil benda á, að ákvæði um endurbyggingarstyrki og styrki til nýbýla ganga lengra heldur en þessi ákvæði og í sömu átt, og ekki hefur þótt ástæða til að afnema þau. Þau hafa þá sömu galla og 17. gr. jarðræktarl., ef um galla er að ræða. Og maður getur tekið öll þessi atriði fyrir í einum lið og sagt: Úr því að þessi ákvæði orka ekki meiru en þau gera til þess að halda verði jarðanna niðri, og er þess vegna ekki meiri tálmi fyrir bændur um að njóta eigna sinna til þess að selja þær, hvers vegna á þá að afnema 17. gr.? A.m.k. er það, að mér finnst, alveg fráleitt að ætla sér að afnema 17. gr., en afnema ekki um leið ákvæðin um endurbyggingarstyrki og nýbýlastyrki, sem ganga lengra að því leyti, að sá styrkur er ekki látinn fyrnast eftir venjulegum reglum, heldur helzt óbreyttur, þó að umbætur, sem styrkurinn fæst fyrir, gangi úr sér. Sá styrkur getur því gleypt mikið af jarðarverðinu og kannske allt. Ef jarðir ganga úr sér, sem notið hafa styrks jarðræktarl., þá er metið, hve mikið umbæturnar ganga úr sér, sem notið hafa styrks jarðræktarl., þá er metið, hve mikið umbæturnar ganga úr sér, sem styrkur er veittur fyrir, og fylgiféð minnkar í réttu hlutfalli við það. Ef t.d. hlaða, sem jarðræktarstyrkur hefur verið veittur út á, gengur alveg úr sér, þá hverfur fylgiféð vegna þess mannvirkis með öllu. Þess vegna eru þessi ákvæði í l. um endurbyggingarstyrki og nýbýli enn hættulegri en 17. gr. jarðræktarl., ef um hættu annars er í þessu efni að ræða.

Ég viðurkenni, að 17. gr. nær ekki þeim tilgangi, sem henni var ætlað að ná. Það þýðir ekki að tala um það öðruvísi en það er. En hitt meina ég, að það sé nauðsynlegt að halda jarðaverðinu niðri. Það er ekki hægt að stunda búskap með góðum árangri með því að láta jarðaverðið hækka og lækka á víxl. Og ég vil skora á hv. þm. Dal., ef þetta mál verður rætt á búnaðarþingi, að athuga það, hvort ekki er rétt, að bændur eigi jarðirnar sjálfir og þeir fái þær með fasteignamatsverði, bæði ríkisjarðir og einstaklinga. Og ég hygg, að sú lausn, væri eðlileg lausn á jarðaspursmálinu á Íslandi. Og þegar sagt er, að það sé nokkuð annað að ráðstafa jörðum ríkissjóðs á þennan hátt heldur en jörðum í einkaeign, þá er það ekki rétt. Það eru til margar jarðir, sem ríkið á, og hver þegn þjóðfélagsins á sinn hluta af þessum jörðum, seni þjóðin á. Og ef við erum að ráðstafa þessum eignum og selja fyrir fasteignamatsverð, þá er ekki meira þó við ráðstöfum öðrum jörðum, sem einstaklingar eiga, að þessu leyti á sama hátt, að ákveða, að þær skuli seldar fyrir fasteignamatsverð. Og ef hv. þm. Dal. er sammála mér um það, að jarðir eigi ekki að hækka í verði, þá vil ég mjög skora á hann að athuga þetta á búnaðarþingi.