16.12.1942
Neðri deild: 19. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 124 í C-deild Alþingistíðinda. (2637)

50. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Flm. (Sigurður Þórðarson):

Hv. þm. Ísaf. sagði, að frv. þetta væri gamall kunningi. Það er rétt. Það má vel orða það svo. En ég verð líka að segja, að það er gamall kunningi, sem hann kom inn á, að þeir, sem rán stunda, vilja ekki hætta fyrr en búið er að ræna öllu, sem ræna má. Það eru svör þeirra, sem ganga of hart að veiði bæði í vötnum og sjó og láta sig engu skipta, þó að þeir gangi á rétt annarra. Það er sannað mál, að það er hægt að þurrka fiskimiðin á innfjörðum, ef dragnótaveiði er ekki bönnuð. Þetta verður að hafa í huga, þegar talað er um þessi mál. Það er vorkunnarmál, þó að þeir, sem búa við þrönga firði, vilja nota þá handa sjálfum sér, þeir eiga þá sjálfir. Það er ekki hægt að furða sig á því, þó að þeim sviði, þegar farið er ránshöndum. um afla þeirra og veiðarfæri. Í Skagafirði eru a.m.k. 5 skipshafnir, sem verða á vonarvöl, ef þetta frv. er ekki samþ. Nú hélt hv. þm. Ísaf. því fram, ef dragnótaveiðin legðist niður, þá legðist starf hraðfrystihúsanna einnig niður, og þess vegna væri það að ganga á þeirra rétt að banna dragnótaveiðar. Þetta er ekki rétt athugun. Ég veit, að á Skagafirði eru kolaveiðar stundaðar af smábátum og kolinn veiddur í net. Þessa veiði stunda aðallega gamlir menn og drengir og hafa af henni gott gagn. En um leið og dragnótaskipin koma, verða þeir að bjarga netum sínum í land, annars eru þau eyðilögð. Þeir hafa ekki frið til að veiða í firðinum. Þetta er sannleikur, og 200 skagfirzkir sjómenn votta, að svona sé ástandið. Það vita allir, sem þessum málum eru kunnugir, að dragnótabátarnir hafa ólöglegan veiðiútbúnað, að þeir eru með botnvörpu og spilla þannig veiði og veiðarfærum sjómanna á innfjörðum. Með því er lítið eftirlit, og ekki hægt að hafa með því eftirlit eins og sakir standa. Og botnvörpurnar sópa með sér öllum veiðarfærum og spilla botni f jarðanna. En það er nú svo viðvíkjandi uppeldisstöðvum nytjafiska, að dragnótin tekur í sig allan kola, smáan og stóran, og þó að það eigi að fleygja þeim kola, sem er undir 1/2 kg að þyngd, þá er það nú svo, að þegar honum er fleygt, er hann steindauður. Dragnótaveiðin drepur ungkolann, og það er eitt aðalatriðið. En netin sleppa ungkolanum í gegn. Þess vegna er það beinlínis hagur fyrir frystihúsin, að kolaveiðar séu stundaðar með netum, en ekki dragnót, fyrir utan það, að kolaveiði með netum er miklu ódýrari og hana geta stundað gamlir menn og drengir, sem ekki eru til harðræða færir. Hv. þm. Ísaf. þarf ekki að hælast af því, að hann sé með fagrar fyrirbænir fyrir smælingjana. Ég hélt þó, að hann vildi vera vinur smælingjanna. Á háum augnablikum hefur hann þótzt bera hag þeirra fyrir brjósti. En það er ekki hægt að sjá það af því, sem hann hefur sagt hér.

Ég er undrandi yfir, að þessi hv. þm. skuli vera að gera gaman að því hér á þingi, að menn beri umhyggju fyrir þeim, sem verst eru settir í þjóðfélaginu, sem eru fátækir fiskimenn, sem eiga ekki annars úrkosta en að una við sinn litla bát og veiða skammt frá landi, og vilji ekki, að verið sé að ræna frá þeim fiskinum til einskis gagns fyrir þjóðfélagið, en til mikillar bölvunar í bráð og lengd.