16.12.1942
Neðri deild: 19. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 125 í C-deild Alþingistíðinda. (2638)

50. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Finnur Jónsson:

Ég vil mótmæla því, að ég hafi verið að henda gaman að fyrirbænum hv. 1. þm. Skagf. fyrir smælingjunum, heldur benti ég á, að ef þær væru réttmætar, mundi þingið fyrir löngu vera búið að uppfylla þær. Ég hafði ekki haldið, að hv. 1. þm. Skagf., sem er að mörgu leyti frjálslyndur maður, vildi gerast málsvari þess hér á Alþ:, að smælingjarnir reyndu aldrei að bjarga sér og gætu aldrei orðið að bjargálna mönnum, en kolaveiðar með lagnetum eru bæði dýrari og miklu óarðvænlegri að öllu leyti en kolaveiðar með dragnót. Ef hv. 1. þm. Skagf. vill rétta við hag þeirra fiskimanna, sem hann þykist bera fyrir brjósti, sem ég vil ekki á neinn hátt efast um, ætti hann að beita sér fyrir, að þeir tækju upp þá veiðiaðferð, sem allir framfaramenn hafa tekið upp til mikils góðs, sem er dragnótaveiðin. Má þar benda á Eyfirðinga, sem hafa stundað dragnótaveiðar á minni bátum en eru á Skagafirði með miklu betri árangri en lagnetaveiðar gefa eða handfæraveiðar. Ég bið hv. 1. þm. Skagf. vinsamlegast að kynna sér, hvern árangur sú veiði gefur.

Því fer ákaflega fjarri, að ég sé hér talsmaður neinnar rányrkju. En út af því, sem hann benti á, að dragnótabátar brytu lög ag toguðu í landhelgi, þá er það allt annað mál. Dragnótaveiðar eru ekkert nýjar. Þær hafa verið stundaðar hér við land á annað hundrað ár og eru áreiðanlega ekki skaðlegar á einn eða annan hátt. Öðru máli gegnir, ef menn fara að toga í skjóli dragnótaveiða, en það sýnir aðeins, að það þarf að hafa eftirlit með þessum veiðum, og fyrir því ætti þessi hv. þm. að beita sér, en ekki að reyna að halda uppi kotungsbúskap hjá sjómönnum og verkamönnum í Skagafirði.