16.12.1942
Neðri deild: 19. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 126 í C-deild Alþingistíðinda. (2639)

50. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Flm. (Sigurður Þórðarson):

Það liggur hér skjallega fyrir, staðfest af framburði upp undir 200 sjómanna og alþingiskjósenda í Skagafirði, að dragnótaveiðar þar á firðinum eru venjulega stundaðar þannig, að þessir bátar hafa botnvörpu. Hv. þm. Ísaf. getur brýnt mig á því, að ég hafi ekki kært, en það er þýðingarlaust að kæra. Sjómenn eru gersamlega varnarlausir gagnvart þessu. Þeir hafa oft vitað til þess, að þessir bátar hafa verið úti á firði með „snurrevaad“ og látið þar greipar sópa, haldið síðan burt með ránsfeng sinn, en þeir, sem ræntir hafa verið, geta ekki komið neinum sönnunum við. Það eina, sem þýðir, er að banna veiðar með dragnót innfirðis, því að þær eru aðeins til bölvunar.

Ég ætla að láta því ósvarað, að ég sé að styðja kotungsbúskap í Skagafirði og mér sé nær að styðja að því, að menn þar fari að veiða með dragnót. Dragnótaveiðarnar þar hafa gefið þá raun, að Skagfirðingar fara ekki að bætast í hóp þeirra, sem ræna þar og rupla, og ég styð ekki að því. Þarna er aðeins einn einstaklingur, sem hefur haft 10 smálesta bát og notað dragnót nokkrum sinnum, og hann segist hafa minna upp úr því en ef hann hefði lóðir, sem hann gati verið í friði með.