01.03.1943
Neðri deild: 68. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 126 í C-deild Alþingistíðinda. (2641)

50. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Frsm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Sjútvn. hefur haft frv. til meðferðar, og hefur orðið samkomulag um það í n., að því verði vísað til milliþn. þeirrar í sjávarútvegsmálum, sem væntanlega verður kosin í lok þessa þings samkv. till., er nýlega var samþ. hér. Einstakir nm. og raunar meiri hl. n. voru að vísu reiðubúnir að fella frv., en n. í heild taldi eigi að síður ástæðu til að láta þessa milliþn. hafa málið til athugunar, því að hún telur, að starfssvið þeirrar n. nái einmitt til þessa máls.

Ég tel óþarft að ræða málið ýtarlega að þessu sinni, en vil aðeins drepa á það, að með frv. er lagt til, að gerð verði gerbreyting á ástandi, sem markað hefur verið með núgildandi löggjöf, þar sem lagt er til með frv., að Norðurland verði algerlega lokað fyrir þessum veiðum 10 mánuði ársins og hinn hluti landsins nærri því hálft árið. Ég vil benda á það, að nú þegar hafa komið frá útgerðarmönnum á Norðurlandi eindregin mótmæli við því, að frv. nái fram að ganga. Á ég þar við útgerðarmenn í Hrísey og Ólafsfirði, sem sent hafa Alþ. mótmælabréf, þar sem talið er, að atvinnuvegur þeirra, er komið hafa sér upp dragnót, verði að miklu leyti lagður í eyði með slíkum l. Hitt skiljum við vel, að margir smáútvegsmenn, sem stunda innfjarðaveiði, verði allhart úti vegna dragnótaveiðanna, en þótt svo sé, er engin ástæða til að grípa til svo róttækra aðgerða sem þeirra, er frv. gerir ráð fyrir.