01.03.1943
Neðri deild: 68. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 127 í C-deild Alþingistíðinda. (2643)

50. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Pétur Ottesen:

Ég verð að taka undir með hv. 2. þm. Eyf. (GÞ), að það er valin harla einkennileg aðferð til þess að vísa þessu máli frá eða reyna að koma því fyrir kattarnef. Það er eins og sjútvn. eða þeir menn í n., sem eindregið eru á móti þessari breyt., að því er virðist vilji þó ekki beinlínis ganga hreint til verks og leggja til, að frv. verði fellt. Það er eins og það sé einhver hreyfing í þeirra innra manni, sem segi þeim, að það sé réttara að fara einhverjar krókaleiðir að þessu marki, sem þeir vilja keppa að, heldur en ganga hreint til verks og leggja til, að málið verði fellt. Og mér virðist, að þeim mönnum í n., sem þannig hugsa, hafi orðið heldur fótaskortur, þegar þeir fara að bollaleggja með sér, hvernig þeir eiga að komast hjá því að ganga hreint til verks í málinu og leggja til að fella það. Ég held, að það sé nýtt fyrirbrigði, að lagt sé til að vísa máli frá á þeim grundvelli, að n., sem að vísu er komin fram till. um, að Alþ. skipi, en Alþ. er bara alls ekki búið að skipa, taki þetta mál til meðferðar. Það er eins og farið væri að gera ráð fyrir, að frumburði í móðurkviði væri ákveðið eitthvert verkefni, áður en viðkomandi hefði séð dagsins ljós. Þetta er afar einkennileg braut, sem hér er lagt út á í afgreiðslu þessa máls, — það verð ég að segja.

Nú, það hefur nú verið á þessum fundi útbýtt þingskjali, þar sem líka er lagt til — þ.e. í hv. Ed. — að vísa máli frá með rökst. dagskrá, þar sem sama forsenda er höfð, það er gert í trausti þess, að ríkisstj. láti þessa sömu væntanlegu mþn. athuga málið o.s.frv. Þar er málinu vísað til stj. eins og vant er að gera undantekningarlaust, þegar málum er vísað frá með rökst. dagskrá. Og þá er lagt á vald ríkisstj.afgr. málið. En þessi aðferð, sem hér á nú að hafa í þessari d., er alveg óvenjuleg. Ég geri nú kannske ekki ráð fyrir, að hæstv. forseti — sem nú er að lesa í blaði — finni ástæðu til þess að grípa hér í taumana. En ég vil vekja athygli hv. þdm. og hæstv. forseta á því, að þetta er alveg óvenjulegt, sem hér er lagt til.

Um þetta frv., sem hér liggur fyrir, vil ég segja það, að mér þykir það ganga of skammt, en ekki of langt í því að þrengja nokkuð að um þessar hættulegu dragnótaveiðar. Því að hér er gert ráð fyrir því, að þær takmarkanir, sem hér eru settar, taki ekki til nema vissra hluta af landinu. Sannarlega hefðu sams konar takmarkanir átt að taka til svæða meðfram ströndum landsins alls, því að það er vitaskuld sams konar þörf fyrir slíkar aðgerðir við Suður- og Vesturland eins og lagt er til á þeim svæðum, sem þetta frv. tekur til. Ég vil samt greiða atkv, með þessu frv. Enda er þá hægurinn hjá á síðara stigi þessa máls að bæta úr því, sem áfátt er um frv. að þessu leyti, að auka nokkuð þær takmarkanir, sem hér er lagt til að gera, og færa þetta til samræmis að því er snertir aðra landsmenn.