05.01.1943
Neðri deild: 25. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 108 í B-deild Alþingistíðinda. (265)

89. mál, innflutningur og gjaldeyrismeðferð

Fjmrh. (Björn Ólafsson):

Það eru nú nokkuð mörg atriði, sem ég þarf að svara. Fyrst ætla ég þá að víkja nokkrum orðum að því, sem hv. þm. Ísaf. sagði síðast. Það, sem ég sagði um greiðslujöfnuðinn, meinti ég bæði bókstaflega og ekki bókstaflega. Ég tel, að með því verði, sem nú er á útflutningsvörum landsmanna, ætti andvirði þeirra að nægja fyllilega fyrir nauðsynlegum innflutningi, á meðan framleiðslan er í fullum gangi. Þess vegna álít ég, að þær duldu greiðslur, sem koma frá herstjórninni, ættu að safnast fyrir og renna í varasjóð, sem við getum vel þurft á að halda að stríðslokum. Ég get ekki svarað því, hve miklu þessar greiðslur nema, en skal athuga það og svara því þá síðar.

Ég er sammála hv. þm. G.-K. um það, að gott er að flytja til landsins sem mest af nauðsynjavöru. Það er rétt, að ekki er síður þörf á vörubirgðum í landinu en inneignum erlendis. En sannleikurinn er sá, að við fáum ekki ráðið því, hve mikið er hægt að flytja til landsins, og við getum alls ekki flutt inn allt það, sem okkur vanhagar um og þarft getur talizt. Innflytjendur hafa þegar fest kaup á miklu af slíkum varningi í Ameríku, sem ekki er hægt að flytja til landsins. Um það ættu allir að geta verið sammála, að ekki sé æskilegt, að menn kaupi vörur fyrir mikið fé í útlöndum, en verði svo að láta þær liggja þar í vörugeymsluhúsum með ærnum kostnaði, af því að ekki sé til skiprúm til að flytja þær til landsins. Ríkisstj. hefur fullan hug á að fá því til leiðar komið, að framfylgt verði loforðum þeim um skipakost, sem gefin hafa verið. En við verðum þó að taka nokkurt tillit til þess ástands, sem nú er.

Hv. þm. S.-M. bar hér fram spurningu viðvíkjandi skipakosti þeim, sem við höfum nú til umráða. Skipakosturinn hefur verið að þrengjast nú að undanförnu. Eimskipafélagið hefur nú þrjú skip á leigu frá Bandaríkjastj., og er gefið upp, að þessi þrjú skip ásamt Kötlu geti flutt 40 þús. smál. á ári, og Eimskipafélagsskipin geta flutt 26 þús. smál. Þetta eru samtals 66 þús. smál. á ári, og er það sá skipakostur, sem við höfum til umráða, að því tilskildu, að ekki takist að fá fleiri leiguskip. Ég hef ákveðið afsöðu mína í samræmi við þessa staðreynd og talið öruggast að gera ekki ráð fyrir auknum skipakosti. Bezt er að búast við hinu versta, hið góða skaðar ekki. Ef okkur tekst að fá fleiri skip til umráða, getum við aukið innflutninginn. Samkvæmt vitneskju, sem ráðuneytið hefur fengið frá Eimskipafélaginu, liggja nú í New York 23000 smál. af vörum, sem landsmenn hafa keypt. Í Halifax eru 15500 smál. og á þriðja staðnum 2000 smál. Þetta eru samtals 40500 smál. Ég geri ráð fyrir, að þessar vörur séu allar keyptar löglega. Hér eru þá komnar 40500 smál. á móti þeim 66 þús. smál., sem hægt er að flytja inn á ári með þeim skipakosti, sem nú er til umráða. Auk þess þyrfti að panta einar 17500 smál. að kaffi, sykri og kornvöru í viðbót til að fullnægja þörfum þjóðarinnar. Þar með væri búið að binda 58000 smál. af skipakosti landsmanna. Eftir væru þá 8000 smál. Nú má segja, að margt af þessum vörum mætti vel bíða nokkuð, en þess ber að gæta, að þeir menn, sem keypt hafa vörurnar, hafa þegar fengið leyfi fyr:r þeim og þeir verða að greiða mikinn kostnað, sem á þær fellur, meðan þær liggja í erlendri höfn og fást ekki fluttar til landsins. Auk þess eru flestar þessar vörur mjög nauðsynlegar.

Ég skal bara taka einn lið, svonefndar láns- og leiguvörur. Það eru mest allt járnvörur, plötujárn, stangarjárn, þakjárn, stál, naglar og alls konar saumur o.s.frv. — 8 þús. smál. — Einnig liggja í New York 3 þús. tonn af áburði. 3 þús. af timbri, og í Halifax eru 5250 smál. af timbri, sem mestmegnis mun vera ætlað til skipasmíða. Nefna má 800 tonn af smurolíu og fernis, 2200 af kornvörum í Halifax, 6150 af fóðurvörum og 1600 af áburði þar, en í New York 750 af kaffi og sykri og ótalmargt fleira af nauðsynjavörum.

Þessi aðstaða okkar er ekkert glæsileg sem stendur og með hverjum degi, sem líður, verður ástandið verra og verra, ef ekkert er að gert. Ég víðurkenni fúslega, að n. sú, er hér um ræðir, hefur mikið vald, en hún á líka að hafa það. Við höfum ekkert að gera við n., sem ekki geta stjórnað því, sem þær eiga að stjórna. Ég viðurkenni, að það er allt undir því komið, hvernig tekst með val manna í n., og því hvernig þeir inna sitt hlutverk af hendi.

Ég vil einnig fullvissa menn um, að ríkisstj. mun vanda val þessara manna með það fyrir augum, að þeir vinni fyrst og fremst fyrir heildina. Mér er það ljóst, að það má alltaf deila um val slíkra manna, en það verður ekki deilt um þá, fyrr en þeir sýna, hvernig þeir fara með þau mál, sem þeim eru falin.

Ég þakka þeim hv. þm., sem hér hafa talað, fyrir góðar undirtektir við þetta mál, og ég veit, að hv. þm. hafa yfirleitt góðan skilning á, að þessum málum þarf að koma í lag, og ég sé ekki, að það verði betur gert með öðru móti en því að skipa sterka n., sem hafi með höndum öll mál, sem varða innflutning og gjaldeyri.